Steinar B. Aðalbjörnsson segir í nýjasta pistli sínum að það sé ekki að marka allt sem sagt er um vítamín og bætiefni.
„Markaðurinn með svokölluðum heilsuvörum, hvort sem það er nú fæðubótarefni, fæðuauki, plöntuextraktar eða annað, hefur farið stækkandi undanfarin ár og var hann þó orðinn stór fyrir.
Oft eru vörur boðnar til sölu sem virka eins og þær eru sagðar virka í auglýsingum en því miður er það þó mjög oft svo að fólk kaupir köttinn í sekknum. Hér fyrir neðan eru fullyrðingar sem oft heyrast þegar tveir eða fleiri koma saman og ræða þessi mál.
B-12 vítamín læknar þynnku: Það er ljóst að það gengur á B-vítamínforðann við langvarandi drykkju. Aftur á móti er ekkert í vísindunum um jákvæð áhrif af stærri skömmtum af B-12-vítamíni á þynnku sem kemur í kjölfar einstaka ofdrykkju.
Ginseng gerir þig gáfaðri: Til eru mismunandi tegundir af ginsengi sem hafa að einhverju leyti mismunandi áhrif. Ekkert er í vísindunum um það hvort ginseng geri mann gáfaðri. Hitt er annað mál að flestar tegundir af ginsengi hafa einhver örvandi áhrif og við örvun miðtaugakerfis, þ.m.t. heilans, má vel vera að fólki finnist það vera gáfaðra.
Sólhattur læknar flensu: Sólhattur læknar ekki flensu. Mjög mismunandi er þó hvort niðurstöður rannsókna styðji að sólhattur geti dregið úr áhrifum flensu, líkt og haldið hefur verið fram með C-vítamín. Líkur á eituráhrifum vegna neyslu á sólhatti eru litlar ef neyslan er í samræmi við ráðleggingar og því getur neysla á sólhatti sennilega ekki gert neitt ógagn en spurningin hvort sólhattur geri eitthvert gagn yfir höfuð.
A-vítamín bætir sjónina: Ef um er að ræða skort á A-vítamíni, sem er ekki tilfellið hjá flestum Íslendingum, þá getur viðbót af A-vítamíni bætt sjónina. Hins vegar getur A-vítamín í formi retínóls (retinol, retinal) verið mjög skaðlegt í stórum skömmtum. Því er mikilvægt að halda sig sem næst ráðlögðum dagskammti (RDS) og neyta ekki meira af A-vítamíni en nauðsynlegt er.
Kreatín gerir þig sterkari: Kreatín er oftast á forminu kreatín-fosfat (CP). Adenósín-þrí-fosfat (ATP) er geymslustaður orku í líkamanum. Við aukna neyslu á kreatín-fosfati stuðlum við að því að hafa meira af ATP við áreynslu í stutt, snörp átök (1-10s). Því er talið að við getum bætt ákefð í stuttum, snörpum átökum ef við neytum fæðubótarefna sem innihalda kreatín. Niðurstöður rannsókna, sem nær eingöngu hafa verið gerðar á karlmönnum 18-40 ára, benda til þess að neyslan sé án óæskilegra hliðarverkana fyrir þann hóp. Upplýsingar varðandi aðra hópa liggja ekki fyrir og því ættu börn og unglingar ekki að neyta kreatíns.
C-vítamín dregur úr skaða af völdum reykinga: Best er fyrir líkamann ef fólk reykir ekki. C-vítamín er andoxari og getur því dregið úr skaðlegum áhrifum, t.d. súrefnis, á frumuhimnur líkamans. Skaðleg áhrif vegna oxunar eru meiri hjá reykingamönnum vegna sígarettureyksins en hjá þeim sem ekki reykja. Svo virðist sem neysla á C-vítamíni, allt að 100 mg á dag, geti komið að gagni við að draga úr oxunarskaðsemi reykinga. Þess ber þó að geta að skaðsemi reykinga er ekki eingöngu bundin við þennan þátt,“ segir Steinar í pistli sínum. Hægt er að lesa hann HÉR í heild.