Hann er alinn upp í mikilli nálægð við náttúruna og honum finnst mest gaman þegar veðrið er verst í Gamlárshlaupi ÍR. Hann hefur tekið þátt í því á hverju ári undanfarinn aldarfjórðung. Hann hleypur líka hálft eða heilt maraþon á hverju ári og hefur gert sér ferð til Kína til að taka þátt í maraþoni þar.
„Ég tók fyrst þátt í Gamlárshlaupi ÍR fyrir 25 árum og hef hlaupið það á hverju ári síðan, utan einu sinni, þegar ég mætti klukkutíma of seint af því tímanum hafði verið breytt,“ segir Ingólfur Sveinsson, geðlæknir og hlaupari.
„Þá var hlaupið frá Landakoti og vestur á Seltjarnarnes. Þetta er 10 kílómetra hlaup og það var lagt upp frá Alþingishúsinu en frá því óeirðir komust í tísku hefur það verið fært til og nú verður startið við Hörpuna.“
Ingólfur segir að í Gamlárshlaupinu sé önnur stemning en í öðrum hlaupum. „Það er mjög létt yfir þessu og þátttakendur mæta í ýmsum búningum. Trausti Valdimarsson, sem er mikill og góður hlaupari, mætir til dæmis alltaf í mjög fínum jakka með pípuhatt. Aðrir eru í jólasveinabúningum og vinkonuhópar mæta í sérsaumuðum hópbúningum, í pilsum og allskonar óvenjulegum hlaupaklæðum. Veðrið er með mjög svo mismunandi móti á þessum árstíma sem og færðin, en ég segi fyrir mig að mér finnst mest gaman þegar veðrið er verst. Allir hlauparar þurfa að kunna á veður og búa sig eftir aðstæðum. Sumir hlaupa á nöglum ef það er mikil hálka, enda þarf að fara gætilega, fólk hefur vissulega dottið og meitt sig í þessu hlaupi.“
Ingólfur hefur alla tíð haft mikla ánægju af því að hlaupa. Hann segist hafa þurft að hlaupa mikið sem krakki og fram eftir öllum árum þar sem hann ólst upp í sveitinni á Barðsnesi austur á fjörðum. „Ég smalaði kindum á löppinni og gerði hvað ég gat til að hafa við þeim. En ég hljóp mitt fyrsta maraþon árið 1985 sem var í annað sinn sem Reykjavíkurmaraþon var haldið. Nokkrum misserum áður hafði vinur minn sem bjó í Svíþjóð komið í heimsókn til mín, en hann hafði verið að hlaupa heilmikið. Hann vildi endilega að við færum út að skokka, í frábæru umhverfinu við Elliðaárnar, þar sem ég bjó þá. Ég hélt það nú og við hlupum af stað. En ég varð alveg steinhissa á því að ég var orðinn móður eins og mæðiveik kind eftir fimm hundruð metra. Í kurteisi sinni hægði vinur minn á sér og við kláruðum hringinn. En mér líkaði ekki að ég var alls ekki í eins góðu formi og ég hafði haldið. Ég fór því að hlaupa á morgnana áður en ég fór til vinnu. Sumarið eftir fór ég svo að þjálfa markvisst fyrir maraþonið með góðum félaga mínum og ég tók þátt í fyrrnefndu Reykjavíkurmaraþoni. Þá hljóp ég hálft maraþon og allar götur síðan hef ég ýmist hlaupið hálft eða heilt maraþon á hverju ári.“
Ingólfur segir að honum finnist það vera lífsgæði að geta hlaupið.
„Ég get fullyrt að munurinn á vel heppnaðri helgi fyrir mig og síður heppnaðri, liggur í því hvort ég get hlaupið að minnsta kosti í tvo klukkutíma eða ekki. Þegar maður hefur átt erfiðan dag í vinnunni er mikill lúxus að geta mætt í hlaupahópinn sinn og farið 8-12 kílómetra,“ segir Ingólfur sem er í traustum hlaupahóp allan ársins hring. „Mér finnst frábært að eiga þennan hóp að og geta mætt á vissum tíma og hlaupið með þessu góða fólki. Það er alltaf einhver hlaupafélagi sem hleypur á svipuðum hraða og maður sjálfur. Það er mikil hvatning í þessu. Ég þykist góður ef ég hleyp fjórum sinnum í viku, tvisvar í viku er líka gott. Það koma tarnir þar sem ég hleyp mikið en vissulega dettur þetta stundum tímabundið niður, til dæmis ef maður fær slæmt kvef. Þá dirfist maður ekki að fara út að hlaupa fyrr en kvefið er horfið, en þá er hægt að hlaupa á bretti innandyra,“ segir Ingólfur sem vill ekki skrifa undir að hann sé svo háður hlaupunum að hann verði ómögulegur ef hann geti ekki hlaupið í einhverja daga. „En mig fer vissulega að langa út.“
Ingólfur lætur ekki duga að hlaupa hér heima, hann bregður sér stundum út fyrir landsteinana til að taka þátt í hlaupum. „Annað sumarið sem maraþon var í Færeyjum tók ég þátt og þá rættist um leið gamall draumur um að komast þangað. Þetta var mjög flott hlaup út frá Þórshöfn, kindur í hlíðunum og alveg dásamlegt. Eitt sinn hljóp ég líka maraþon í Kína, það var gott tilefni til að fara þangað. Þegar maður er hlaupari gefur maður sér leyfi til að fara til hinna ýmsu staða af því að þar er maraþon.“ Á nýju ári stefnir Ingólfur á að hlaupa Laugaveginn, sem hann gerði líka síðasta sumar. „Og ég ætla að hlaupa að minnsta kosti eitt maraþon, kannski tvö. Maður þarf að vera maraþonfær mánuði fyrr, til að komast alla leið. Ég miðaði hér í gamla daga alltaf við að vera undir fjórum tímum, en núna horfi ég til míns aldurshóps, því það hægist auðvitað á manni með aldrinum. Ég ætla að halda áfram að hlaupa svo liðamót og annað fari ekki að bila.“