Karen Lind Óladóttir hafði prófað alla kúra sem í boði voru. Hún var búin að reyna að breyta mataræði sínu og stunda líkamsrækt en gafst alltaf upp, hætti að mæta og fór aftur í sama farið. Hún segist hafa verið einn dyggasti stuðningsaðili líkamsræktarstöðva fyrr og síðar. Hinn 3. júní 2010 breyttist lífið þegar Karen Lind fór í magabandaaðgerð. Íslenski skurðlæknirinn Auðun Sigurðsson framkvæmdi aðgerðina en hann framkvæmir um eitt þúsund magabandaaðgerðir á ári. Karen Lind leitaði til Auðuns eftir að hafa glímt við offitu frá unglingsaldri. Nú tæplega tveimur árum eftir aðgerð er hún 51 kílói léttari.
„Eftir aðgerðina var ég á fljótandi fæði í tvær vikur og svo á maukuðu fæði í tvær vikur þar á eftir. Eftir þessar fjórar vikur fikraði ég mig áfram á venjulegu mataræði. Það tók mig langan tíma að læra inn á þetta. Ég þurfti að taka hausinn á mér í gegn og læra að umgangast mat upp á nýtt. Ég þurfti að læra að gefa mér tíma til að borða og læra að borða minni skammta. Sársaukinn eftir aðgerðina var ekki mikill. Tilfinningin var eins og að hafa verið kýldur í magann. Ég var alveg hætt að finna fyrir eymslum 10 dögum eftir aðgerð. Eftir fjórar vikur fékk ég fyllingu í bandið sem veldur því að magaopið þrengist. Fólk þarf að fara í nokkur skipti í áfyllingu til að stilla bandið af. Það er mjög persónubundið hvað þarf mikið í bandið. Það má hvorki vera of lítið eða of mikið í því. Eftir að ég var búin að fá mína fullkomnu fyllingu fór ég að léttast á góðum hraða, eða um hálft til eitt kíló á viku.“
Karen Lind þurfti að gjörbreyta mataræði sínu eftir aðgerð. Hún segist í dag borða allan venjulegan mat en þó í mun minni skömmtum en áður.
„Á meðan ég horfi á fólk í kringum mig slátra heilli pítsu borða ég eina sneið, mögulega eina og hálfa ef ég er mjög svöng. Ég fæ mér alveg nammi og snakk, en ég er þá ekki að slátra heilum nammipoka á núll komma einni eða heilum snakkpoka eins og áður. Ég fæ mér kannski þrjá nammibita og þá er ég bara góð. Þegar fólk fer í magabandaaðgerð þarf það að fara eftir átta gullnum reglum magabandsins. Ef fólk gerir það ætti allt að ganga vel. Ég fann það að ef ég fór ekki eftir þeim léttist ég miklu hægar og því fór ég ósjálfrátt að reyna að velja alltaf hollari kostinn sem var í boði. Fyrir mig, sem hefur alltaf átt í mjög óheilbrigðu sambandi við mat, kom hugarfarið einhvern veginn hægt og rólega þegar ég fór að sjá árangurinn.“
Magabandaaðgerð er dýr og það kostar í kringum milljón að gangast undir hana. Karen Lind segir að það hafi ekki stoppað sig.
„Það stoppaði mig ekki. Góð heilsa og bætt vellíðan er nokkuð sem ekki er hægt að verðleggja og ég sé ekki eftir einni einustu krónu sem fór í þessa aðgerð,“ segir hún.
Hún segir að líf sitt hafi stökkbreyst eftir að hún fór í aðgerðina.
„Ég er 51 kílói léttari, mér hefur aldrei liðið betur. Það er einhvern veginn allt miklu léttara. Ég er til dæmis nýbyrjuð að fara í ræktina og mér finnst það virkilega gaman. Áður fyrr þurfti ég alltaf að pína mig til að fara og fannst það hundleiðinlegt og í þau fáu skipti sem ég mætti gerði ég ekkert marktækt og tók ekkert á. Mér finnst ég hafa meiri orku, það er léttara að vakna á morgnana og bara virkilega gaman að vera til. Svo skemmir nú heldur ekki fyrir að geta labbað inn í venjulegar búðir og keypt sér föt án þess að þurfa að fara í „oversized“-deildina,“ segir hún og brosir.
Karen Lind segist alltaf hafa verið of þung. Hún segist hafa fitnað mjög mikið í framhaldsskóla og það hafi verið erfitt að snúa við blaðinu. Mataræðið hafi ekki verið gott.
„Ég var alltaf í íþróttum sem barn, æfði skíði, fótbolta og körfubolta þannig að það var ekki hreyfingarleysið á þeim tíma. Ég var bara alltaf borðandi, ekki bara sætindi heldur allan mat. Ég var ekki búin að kyngja matarbitanum þegar ég spurði hvað væri í kvöldmatinn. Þess á milli stalst ég stöðugt í nammi og mat þegar foreldrar mínir sáu ekki til. Þegar ég komst á unglingsaldur hætti ég í íþróttum og þá versnaði ástandið til muna þangað til allt fór til fjandans.“
Það er eitt að grenna sig um 51 kíló og annað að viðhalda forminu. Hún segir að það sé ekkert erfitt ef hún haldi sínu striki.
„Ég mun auðvitað alltaf vera með bandið í mér og það mun alltaf halda við þannig að ég get ekki étið eins og svín. Ég þarf að sjálfsögðu að halda áfram að velja vel hvað ég borða og ætla mér að gera það og halda áfram að hamast í ræktinni og stefni á að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. Auðvitað er þetta engin skyndilausn frekar en neitt annað í baráttunni við offitu. Það er ekki jafnlétt og að segja það að læra að umgangast mat upp á nýtt og breyta öllum sínum matarvenjum sem maður hefur þróað allt sitt líf.“