Lárpera, eða avókadó, er ávöxtur sem þó er oftast notaður eins og grænmeti. Þeir sem halda upp á avókadó og eru vanir að nota það til matreiðslu þekkja vandamálið hversu fljótt það verður brúnleitt og óspennandi eftir að það hefur verið skorið. Á því er einföld lausn – ekki henda steininum.
Það er ekkert mál að nota aðeins hálft avókadó í einu, hinn helmingurinn geymist í nokkra daga ef steinninn er látinn vera á sínum stað. Sama á við þegar heilt avókadó er skorið niður í bita, til dæmis í salat. Auðvelt er að gera það fyrirfram og geyma; ef steinninn er látinn liggja með í skálinni helst ávöxturinn grænn og girnilegur.