Að borða hampfræ er alls ekki nýr siður heldur hefur það verið gert frá því maðurinn fór að standa uppréttur. Hampfræin koma af Cannabis Sativa plöntunni en það er sama tegund og er notuð til kannabis framleiðslu, bara annað afbrigði. Það er því kannski ekkert skrýtið að eiginmaður minn hafi orðið undrandi þegar hann sá fræin á eldhúsborðinu og spurði hvort ég ætlaði að hefja hassrækt í kjallaranum. Ég hefði líklega betur falið fræin því hann heldur ennþá að þau séu eitruð. Það sem hann veit ekki er að hampfræ eru orkurík og gefa hnetukennt bragð séu þau sett út í sjeika, í salöt, í súpur eða út á hafragrautinn. Þess vegna á ég það til að lauma hampfræjunum út í matinn hans án þess að hann viti af.
Hampfræ flokkast sem ofurfæða því þau innihalda mikið af próteini en í tveimur teskeiðum er að finna 8 gr. af próteini. Auk þess innihalda hampfræ 10 gerðir af amínósýrum sem líkaminn getur ekki framleitt sjálfur. Í þeim er einnig að finna Omega 3, 6 og 9, magnesíum, járn, zínk og kalíum. Næringarlega séð ættum við því að vera vel sett með því að borða nokkur hampfræ á hverjum degi.
Best er að hafa hampfræin hrá og lífræn því þá er ekki búið að húða þau með eiturefnum. Þegar ég kaupi hempfræ kaupi ég hreinsuð því annars þarf að sigta hýðið frá og það getur tekið langan tíma.
HÉR er uppskrift að dásamlegum morgunsjeik þar sem hampfræ koma við sögu. Einnig er hægt að búa til hampmjólk með því að blanda saman 1/2 bolla af hampfræjum við 1 bolla af vatni, örlitlu vanilludufti (hráu og lífrænu) og setja 2 döðlur saman við. Allt er sett í ofurblandara og þeytt saman í um það bil mínútu. Þegar hampmjólkin er tilbúin má setja frosin ber út í, ávöxt, grænt duft, lárperu eða bara það sem þér dettur í hug. Mitt ráð er þó að setja alls ekki of mikið af ávöxtum út í morgunsjeikana því þá keyra þeir upp blóðsykurinn.
Það kemst enginn í vímu af því að borða hampfræ en sé þeirra neytt reglulega getur lífið orðið talsvert ríkara eða allavega orkuríkara og skemmtilegra. Hvern langar ekki til að iða af stuði í sumarbyrjun?