Steinaldarmataræði er ekki tískubóla

Haraldur Magnússon.
Haraldur Magnússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Sæmundsson næringarfræðingur skrifaði nýlega gagnrýnisgrein á hið svokallaða paleo- eða steinaldarmataræði sem birt var í Morgunblaðinu, dv.is, og vf.is. Haraldur Magnússon Osteópati B.Sc segir grein Ólafs ófagmannlega og skrifaða af vanþekkingu og úreltum hugmyndum. Hér má lesa rök Haraldar:

Ólafur segir steinaldarmataræðiskenninguna ekki halda vatni, og beitir fyrir því aðallega tveimur rökum. Hann vísar í grein þar sem fréttafyrirtækið U.S. News fékk 20 sérfræðinga til að gera úttekt á 25 mataræðiskúrum og steinaldarmataræðið fékk verstu einkunn, auk þess að benda á hversu vel maðurinn hefur fjölgað sér á nútímamataræði.

Gagnrýnin

Í fyrsta lagi er þessi gagnrýni á mataræðiskúrunum varla marktæk, enda sést vel þegar hún er skoðuð að hún sé unnin af hefðbundnum næringarfræðingum sem byggja „gagnrýni“ sína á stöðluðum og úreldum hugmyndum næringarfræðinnar sem sést á því að þeir mataræðiskúrar sem féllu að hugmyndafræði hefðbundinnar næringarfræði raða sér í efstu sætin á meðan mataræðiskúrar sem eru á skjön við hana eru settir í neðstu sætin. Þetta er álíka skynsamlega og fagmannlega unnin úttekt og að láta 20 meðlimi aðdáandaklúbbs Arsenal gera úttekt á hvað sé besta liðið í ensku deildinni. Öllum ætti að vera ljóst hvernig sú úttekt færi.

Áhugaverðast í þessari úttekt er hvað þessir „sérfræðingar“ halda sig við allar mítur hefðbundinnar næringarfræði, mettuð fita er slæm, kolvetni góð, allar hitaeiningar eru eins þegar kemur að megrun, lágkolvetnamataræði er slæmt og allt á þeim nótunum. Fjöldi rannsókna hafa sýnt að þessar staðhæfingar eiga ekki við vísindaleg rök að styðjast. Í stað þess að notast við jafn vísindalega aðferð og að benda á grein í fréttablaði þér til stuðnings þá myndi ég vilja sjá eina rannsókn á steinaldarmataræði (eða lágkolvetna- og lágsykurstuðulsmataræði þar sem þau eru svo svipuð) sem hefur sýnt neikvæðar niðurstöður gagnvart grenningu, blóðsykurstjórnun, blóðþrýstingi eða áhættuþáttum hjartasjúkdóma (t.d. blóðfitur og þríglýseríð). Nú eru til mörg hundruð rannsóknir sem sýna að þessi mataræði vinna hið hefðbundna lágfitu/hákolvetnamataræði á þeim sviðum sem ég taldi upp. Á sama tíma væri ég einnig til að sjá rannsóknir á hinu hefðbundna lágfitu/hákolvetnamataræði sem hefur sýnt fram á jákvæðar niðurstöður gagnvart ofanverðum þáttum ÁN ÞESS að samhliða grenning eigi sér stað.

Fjölgun mannsins

Hin rökin sem Ólafur setur fram er að tengja saman kolvetnaneyslu við getu mannsins að fjölga sér og einnig offitu, og nefnir þar Indland og Kína sem dæmi. Eins og ég lærði ávallt í líffræði þá er geta dýrategunda til að fjölga sér í samhengi við fæðuframboð og annarra þátta eins og umhverfi og rándýr. Fjölgun mannsins er einmitt í beinu samhengi við þessa þætti en ekki hlutfall kolvetna í mataræði. Meira viðeigandi væri að segja frá, fyrst verið er að ræða um áhrif mataræðis á heilsufar, að aldrei í sögu mannsins hefur tíðni lífstílssjúkdóma aukist eins hratt og með tilkomu hins vestræna mataræðis.

Ekki er viðeigandi að nota einangruð dæmi um stök samfélög til að sanna að eitt eða annað mataræði sé „hið eina rétta“ því sannleikurinn er sá að rannsóknir á frumstæðum mataræðum hafa sýnt að fólk lifði við góða heilsu, þ.e. laust við lífstílssjúkdóma, á mismunandi mataræðum. Eitt er vitað þó með vissu, án allra undantekninga, að samfélög sem taka upp vestrænt mataræði fara að sýna versnandi heilsu fljótlega upp frá þeim tímapunkti. Og fyrst að Ólafur er að minnast á Kína þá hef ég einmitt lesið nokkrar greinar að heilsufar Kínverja fer hratt versnandi eftir því sem velmegun þeirra eykst og þeir taka upp vestrænt mataræði.

Eru allar hitaeiningar jafnar?

Einnig segir Ólafur „Enda hljóta allir að gera sér grein fyrir því að fólk fitnar fyrst og fremst vegna ofneyslu hitaeininga og skiptir þá litlu hvort þær hitaeiningar sem umfram eru séu í formi kolvetna, fitu, próteina eða alkóhóls!,“. Ég hélt satt best að segja að jafnvel allra hörðustu og afturhaldsömustu næringarfræðingar væru hættir að segja þetta þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á aðra þætti umfram hitaeiningar einar saman sem hafa áhrif á fitusöfnun (eða tap). Sem dæmi um að öll hreyfing og allur matur sé ekki jafnvirði þegar kemur að grenningu ætla ég að leggja fram tvær rannsóknir.

Alan og Gaston skiptu fólki í 3 hópa, allir borðuðu einungis 1000 hitaeiningar á dag. Fyrsti hópurinn borðaði 90% fitu, annar hópurinn 90% prótein og þriðji 90% kolvetni. Að lokinni tilrauninni var niðurstaðan þessi. Fólkið á fitumataræðinu hafði misst 0,9 pund (0,4 Kg) að meðaltali á dag, próteinhópurinn 0,6 pund (0,27 Kg.) á meðan kolvetnahópurinn bætti við sig 0,24 pund (0,1 Kg.). Í tilrauninni léku Alan og Gaston sér einnig með hitaeiningar og sáu m.a. að fólk gat haldið áfram að missa þyngd á fitumataræðinu þrátt fyrir að fara upp í 2600 hitaeiningar sem ætti að flokkast undir að borða of mikið og þar af leiðandi ætti það að fitna.

Í hinni tilrauninni var borin saman 15 vikna lotuþrekþjálfun við 20 vikur af hefðbundinni eróbikþjálfun fyrir grenningu. Að lokinni tilrauninni hafði lotuþjálfunarhópurinn misst 9 sinnum meiri fitu heldur en eróbikhópurinn, og hér kemur hið áhugaverða, eróbikhópurinn hafði eytt 28.661 hitaeiningum á meðan tilrauninni stóð, en lotuhópurinn einungis 13.614 hitaeiningum.

Augljóslega er hitaeining ekki bara hitaeining þegar kemur að mat eða þjálfun, hvaða áhrif þessi matur eða þjálfun hefur á efnaskipti líkamans hefur einnig áhrif. Og til gamans má segja að með tilkomu nýrra tilrauna á sviði erfðavísinda er einnig verið að sýna fram á að ýmis óæskilegur matur ræsir gen sem gerir okkur auðveldara með að fitna. Ég gæti komið með fjöldann allan af rannsóknum sem sýna að tímasetningar hvenær matur er borðaður, ástand magaflóru eða hlutfall orkuefna sem dæmi hafi áhrif hvort viðkomandi grennist eða fitnar. Málið er ekki eins einfalt eins og Ólafur setur það fram. Hitaeining er ekki bara hitaeining.

Steinaldarmataræði og sjúkdómar

Ekki hafa verið framkvæmdar margar tilraunir á steinaldarmataræðinu sjálfu, en niðurstöður þeirra sem hafa verið gerðar hafa verið jákvæðar. Steinaldarmataræðið hefur sýnt fram mjög jákvæð áhrif fyrir blóðsykurstjórnun, grenningu og alla áhættuþætti hjartasjúkdóma. Þegar það hefur verið borið saman við önnur mataræði þá hefur það haft betur en hið opinbera sykursýkismataræði fyrir blóðsykurstjórnun og einnig unnið miðjarðahafsmataræðið á öllum sviðum. Ekki slæmt fyrir mataræði „sem heldur ekki vatni“.

Í stað þess að fara út í þessar rannsóknir þá langar mig að segja frá viðtali sem rannsakendur gáfu í lok einnar rannsóknar á steinaldarmataræðinu. Í rannsókn þessari var kyrrsetufólk sett á strangt steinaldarmataræði í einungis 10 daga og hitaeiningar jafnaðar við venjulega mataræði þess (þá er ekki hægt að segja að árangurinn væri vegna fækkunar á hitaeiningum). Eftir einungis 10 daga var niðurstaðan að blóðþrýstingur, insúlínvirkni, blóðfitur og þríglyseríð hafði stórbætt sig hjá öllum þátttakendum, svo mikið að Dr. Frasetto sem fór fyrir hópnum sagði í viðtali við CBS að árangurinn hafði verið svo mikill að það myndi hafa tekið a.m.k. 6 mánaða lyfjanotkun til að ná sambærilegum árangri.

Menntahroki

Því miður virðist það vera lenska hjá háskólamenntuðum næringarfræðingum að ráðast gegn öllu því sem er ekki í samræmi við það sem þeim var kennt í námi og stóð ekki í bókunum þeirra. Hið eina rétta mataræði er lágfitu/hákolvetna lýðheilsumataræði (eins og það er á hverri stundu) og öll þau mataræði sem samræmast því ekki eru þar af leiðandi vitlaus. Þrátt fyrir hundruð rannsókna sem sýna fram á betri virkni þeirra við ýmsum ástöndum.

Mín reynsla af sjálfum mér og fjölda manns í kringum mig er í samræmi við ofanverðar rannsóknir. Steinaldarmataræðið er gríðarlega öflugt mataræði til að bæta heilsufar og ég treysti betur mataræði sem maðurinn hefur þróast og aðlagast til að borða seinustu u.þ.b. 2,5 milljónir ára frekar en hið vestræna lýðheilsumataræði sem hefur verið við lýði í fáa tugi ára með skelfilegum afleiðingum fyrir heilsufar almennings. Hvernig nokkrum manni dettur í hug að kalla 2,5 milljón ára mataræði tískumataræði og segja svo að mataræði með eins stutta reynslu og lýðheilsumataræðið sé hið eina rétta er mér hulin ráðgáta.

HÉR er hægt að lesa grein Haraldar í heild sinni.

Haraldur Magnússon.
Haraldur Magnússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda