Linda Pétursdóttir framkvæmdastjóri Baðhússins er þessa vikuna að undirbúa sig fyrir árshátíð fyrirtækisins sem verður á laugardaginn kemur. Á árshátíðinni ætlar hún að klæðast bláum sérsaumuðum silkisíðkjól. Þegar Linda er spurð að því hvernig sé best að æfa og borða viku fyrir árshátíð, til að líta sem best út, mælir hún með þurrgufu og hreinum mat.
„Ég mæli með því að halda sig frá öllum mat sem auðvelt er að þrútna af, svo sem unnum mat, salti og sykri. Borða sem mest af grænmeti, drekka mikið vatn og grænt te. Bara eins og alltaf. Svo mæli ég eindregið með því að fara í sauna (þurrgufu) en það er frábær leið til að losna við bjúg og fá ferskan blæ á húðina,“ segir Linda.
Hún mælir auk þess með því að fólk stundi líkamsrækt. „Svo skiptir máli að mæta sem oftast í ræktina, koma blóðflæðinu af stað og svitna vel. Það er svo gott. Ég tek oftast upphitun á hlaupabretti og lyfti lóðum og enda á slatta af kviðæfingum og góðum teygjum sem mér finnast ómissandi. En fyrst og fremst snýst þetta auðvitað um að líða vel í eigin skinni og eitt besta og ódýrasta fegrunarráðið er að vera hamingjusamur og að vera ekki spar á brosið.“