Skýr hugsun og höfuðið fullt af súrefni

Kerrupúl í Laugardalnum.
Kerrupúl í Laugardalnum. mbl.is

Kostir þess að æfa úti eru margir,“ segir Melkorka Árný Kvaran íþróttafræðingur. Hún rekur fyrirtækið Útipúl og býður upp á margvíslegar æfingar í Laugardal í Reykjavík. Þátttakendum fjölgar jafnt og þétt og almennt þeim sem stunda útiæfingar.

Útiveran og súrefnið gefur fólki mikla vellíðan og eykur orkuna svo innivinnandi maður kemur jafnvel til baka tvíefldur með skýra hugsun og höfuðið fullt af súrefni. Æfingar með eigin líkamsþyngd sem að mestu eru stundaðar utandyra eru bæði góðar og árangursríkar, segir Melkorka. Einfaldar æfingar á borð við armbeygjur og hnébeygjur, sem flestallir þekkja, eru þær allra bestu sem hægt er að gera og þær er hægt að gera hvar sem er, utandyra sem og heima í stofu.

Undirstaða allra æfinga

„Þessar æfingar reyna á marga vöðva. Þær eru til dæmis styrkjandi fyrir miðjuna sem er algjör undirstaða allra æfinga, það er að hafa bak og kvið sterkt til að geta tekist á við aðrar æfingar. Í raun þarf maður ekkert annað en réttan klæðnað til að stunda hreyfingu utandyra, góðan skófatnað og rétt magn af fatalögum eftir því hvernig viðrar,“ segir Melkorka. Hún bendir á að rannsóknir hafa líka sýnt fram á það að hreyfing, útivera og félagsskapur geti komið í veg fyrir vægt þunglyndi og fæðingarþunglyndi.

„Ég þekki bæði af eigin raun og sé það hjá iðkendum mínum að súrefnið og hreyfingin getur virkað sem hin besta gleðipilla og breytt þreyttum, pirruðum og erfiðum degi í algjöra lukkustund.“

Láta ekki veðrið stoppa sig

Til að koma sér af stað í Útipúli er algjört lykilatriði að vera stilltur inn á að láta veðrið ekki stoppa sig. „Það er mikil veðursæld í Laugardalnum og skjólsælt og oft 1-2 gráðum heitara en annars staðar í borginni. Útiþjálfun á Íslandi er klárlega vanmetin að mínu mati og ræður veðráttan miklu um þau viðhorf,“ segir Melkorka Árný. „Margir hafa þær ranghugmyndir að hafa þurfi tæki og lóð til að koma sér í gott form. Æfingar með eigin líkamsþyngd eru svakalega árangursríkar og hægt er að styðjast við svo margt í umhverfinu til að gera æfingar við, til að mynda tröppur, brekkur, bekki, grindverk og fleira.“

Í vetur – sem endranær – segir Melkorka Árný áherslurnar í starfi sínu einkum og ekki síst miðast við nýbakaða foreldra. Þeim bjóðist fjölbreytt námskeið í kerrupúlinu.

Þrisvar í viku

„Það er frábært fyrir nýbakaða móður að geta haft barnið með í för í vagninum meðan móðirin nær sér í aukna orku og bætt form, eftir barnsburð. Kerrupúlið er alltaf kennt þrjá morgna í viku og getur móðir valið um að vera á námskeiði tvisvar eða þrisvar í viku. Útipúlið er svo frábær kostur fyrir alla þá sem vilja hreyfa sig úti í vetur – sem mér sjálfri finnst vera allra meina bót.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda