Lena M. Aradóttir, sem tekur þátt í Lífsstílsbreytingunni með Smartlandi og Hreyfingu, segir að það sé ekki samasemmerki á milli þyngdar og heilsufars.
„Ég fór í heilsufarsmælingu fyrr á þessu ári og það kom mér á óvart að þrátt fyrir að hafa þyngst mikið á síðustu árum var þar allt með felldu. Læknirinn sem sá um mælinguna merkti við alla flokkana með grænum broskalli, nema einn. Það var þyngdin. Samkvæmt BMI-stuðlinum (sem æ færri virðast reyndar treysta á) er ég offitusjúklingur með meiru. Blóðþrýstingur, blóðrauði, kólesteról - allt í toppformi þar, en þyngdinni mætti ég vinna í. Reyndar finnst mér að BMI-stuðulinn eigi aldrei að færa upp á einstaklingsmælingar heldur nota einkum til að reikna meðalgildi stórra hópa, þar hugsa ég að hann geri meira gagn. En hvað sem því líður sýndi þetta að ég var, þrátt fyrir allt, í ágætis formi líkamlega,“ segir Lena.
Hún segir að það sé allt of mikið áreiti í fjölmiðlum um hvernig við eigum að líta út til þess að vera hamingjusöm. Hver og einn verði að finna sig og það þýði lítið að spegla sig í fótósjoppuðum andlitum.
„Við eigum hvorki að láta myndirnar í blöðunum né tölurnar á vigtinni segja okkur að við þurfum að hreyfa okkur og huga að heilsunni. Auðvitað eru það lífsgæðin, líðanin og heilsan sem öllu skipta. Af því ef þetta þrennt er í lagi ættum við að finna með okkur hvað við erum GULLFALLEG! Það er eðlilegt að gefast upp á endalausum megrunarkúrum (sveltkúrum) og ofkeyrðri líkamsrækt ef markmiðið er óraunhæft. EN - það þýðir ekki að maður þurfi að háma í sig óhollustu og gefa hreyfingu alfarið upp á bátinn. Það kallar bara á vanlíðan sem mun fljótt draga úr sjálfstraustinu. Hugum fyrst og fremst að heilsunni,“ segir Lena.