Kourtney Kardashian, sem er elsta Kardashian systirin, eignaðist sitt annað barn á síðasta ári. Fyrir á hún soninn Mason sem fæddist 2009 og hún segir að það hafi verið miklu erfiðara að koma sér aftur í form eftir að hún eignaðist dótturina Penelope. Hún prýðir forsíðu US Weekly og segir í blaðinu að hún hafi fitnað töluvert á meðgöngunni.
„Ég fitnaði um 20 kíló þegar ég gekk með Penelope,“ segir Kourtney Kardashian í viðtalinu.
Til þess að komast aftur í form leitaði Kardashian til Tracy Anderson, sem er þekktust fyrir að vera einkaþjálfari stjarnanna í Hollywood, sem bjó til æfingaprógramm fyrir hana. Æfingarnar sem Anderson lagði fyrir Kardashian voru 90 mínútna langar og var dansinn í forgrunni. Auk þess lyfti hún lóðum. Hún segir að æfingarnar hafi verið sérsniðnar fyrir hana og hennar líf og því hafi þetta gengið upp. Þó svo að þetta hafi verið erfitt segir Kardashian að árangurinn hafi verið stórkostlegur en hún losaði sig við 19 kíló á sex mánuðum.
Í vikunni tilkynnti systir hennar, Kim Kardashian, að hún gengi með frumburð sinn með kærastanum Kanye West. Hún segir að hún muni án efa deila öllum óléttu og foreldraráðunum með systur sinni enda sé hún afar spennt fyrir fjölguninni í fjölskyldunni.