Konur hafa miklar áhyggjur af hrukkum og karlar óttast að missa kynhvötina samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. Þessir hlutir eru meðal þeirra sem hefur áhrif á fólk þegar það ákveður að hætta að reykja.
Þrátt fyrir að reykingafólk eigi á hættu að fá lífshættulega sjúkdóma eins og lungnakrabbamein þá virðist sumt fólk hafa meiri áhyggjur af hrukkum, sérstaklega konur.
Þetta leiddi rannsókn í ljós sem Brian Williams, prófessor við Stirling háskólann í Skotlandi, gerði á um 19.000 einstaklingum. Þátttakendur rannsóknarinnar fengu myndefni sem notað er í baráttunni gegn reykingum. Þátttakendur áttu að lýsa viðbrögðum sínum við hverri og einni mynd. Þrjár myndir stóðu upp úr og þóttu hafa áhrifamestu skilaboðin. Það voru myndir af æxli í lunga, sýktu tannholdi og lungnakrabbameini.
Það sem kom hins vegar á óvart var að viðbrögð og svör þátttakenda voru mjög ólík eftir aldri og kyni. Konur sýndu sterk viðbrögð við skilaboðum sem fjölluðu um öldrun, húðvandamál, meðgöngu og barneignir á meðan karlmenn sýndu meiri viðbrögð við myndum sem tóku getuleysi fyrir.
Sérfræðingar vonast nú til að þessar niðurstöður geti hjálpað þeim í að hanna áhrifameiri umbúðir og fræðsluefni sem nær til breiðara hóps. „Ef að við vitum hvaða sígarettur eru vinsælastar hjá honum þá getum við hannað umbúðirnar með konur í huga.“
„Könnunin hefur leitt í ljós að mismunandi myndir hafa áhrif á ólíka hópa. Það er vel þess virði að skoða hvaða aðferðir henta best fyrir hvern og einn hóp.“
„Átta af hverjum tíu reykingamönnum vilja hætta að reykja.“ segir Williams. „Við megum ekki gleyma að ráðleggja fólki. Það er ekki nóg að sjokkera fólk með grófu myndefni, við verðum líka að leiðbeina þeim með næsta skref.“
Dánartíðni sjúklinga með lungnakrabbamein hefur hækkað um sjö prósent í Evrópu síðan árið 2009.