Hleypur fyrir syni sína

00:00
00:00

Sif Hauks­dótt­ir, móðir tveggja drengja með Duchenne vöðvarýrn­un­ar­sjúk­dóm­inn, ætl­ar að hlaupa í Reykja­vík­ur­m­araþon­inu. Hún get­ur þó ekki byrjað að æfa sig strax því hún eignaðist dótt­ur á dög­un­um.

Ef þú vilt heita á Sif þá get­ur þú smellt HÉR.

Sol­veig Sig­urðardótt­ir, barna­lækn­ir og sér­fræðing­ur í fötl­un­um barna, skrifaði eft­ir­far­andi um sjúk­dóm­inn á vef Grein­ing­ar- og ráðgjafa­stofn­un­ar rík­is­ins:

Duchenne vöðvarýrn­un er al­geng­asta teg­und vöðvarýrn­un­ar og jafn­framt ein sú al­var­leg­asta. Þessi sjúk­dóm­ur sést ein­göngu hjá drengj­um. Hon­um var fyrst lýst á seinni hluta 19. ald­ar bæði af lækn­um í Bretlandi og Frakklandi. Sjúk­dóm­ur­inn var fljótt kennd­ur við franska lækn­inn Duchenne sem lýsti ít­ar­lega klín­ísk­um ein­kenn­um sjúk­dóms­ins og út­liti vefja­sýna.

Tíðni

Sjúk­dóm­ur­inn er ekki al­geng­ur, hann grein­ist hjá ein­um af hverj­um 3500 til 4000 drengj­um sem fæðast. Mér telst til að 9 dreng­ir hafi greinst með sjúk­dóm­inn á Íslandi á sein­asta ald­ar­fjórðungi en sam­kvæmt því grein­ist dreng­ur hér með sjúk­dóm­inn að meðaltali á tveggja til þriggja ára fresti.

Ein­kenni

Þótt sjúk­dóm­ur­inn sé meðfædd­ur virðast dreng­irn­ir al­veg eðli­leg­ir við fæðingu og ein­kenni eru oft lít­il fyrstu 2-3 árin. Um helm­ing­ur þeirra byrj­ar þó að ganga seinna en eðli­legt telst. Fyrstu ein­kenni koma yf­ir­leitt fram fyr­ir 4ra ára ald­ur og lang­flest­ir (95%) grein­ast fyr­ir 6 ára ald­ur. Strák­arn­ir detta oft, eiga erfitt með að hlaupa og göngulagið verður vagg­andi. Þeim reyn­ist sér­stak­lega erfitt að ganga upp tröpp­ur og standa upp af gólfi því að kraft­leysi og vöðvarýrn­un er snemma áber­andi í rétti­vöðvum mjaðma og um hné.

Lenda­sveigj­an eykst þegar dreng­irn­ir reyna að halda upp­réttri stöðu. Kraft­leysið fær­ist niður eft­ir fót­leggj­un­um en seinna fer að bera á ein­kenn­um í axl­ar­grind, bol og hand­leggj­um. Þótt vöðvavef­ur­inn rýrni og verði kraft­laus geta vöðvarn­ir verið stór­ir og áber­andi, t.d. kálfa­vöðvar, því fitu- og band­vef­ur sest í þá.

Sjúk­dóm­ur­inn er fram­sæk­inn og smám sam­an rýrna all­ir meg­in­vöðvar lík­am­ans. Sjúk­dóms­gang­ur­inn er mis­jafn en yf­ir­leitt hætta dreng­irn­ir að geta gengið sjálf­ir 10-12 ára og fá þá hjóla­stól. Vin­sælt er að hafa raf­knú­inn stól m.a. til að nota úti t.d. á skóla­lóð en fjöl­skyld­ur fá oft­ast einnig létt­ari hand­knú­inn stól, sem auðvelt er að taka með í venju­leg­an bíl.

Duchenne vöðvarýrn­un veld­ur ekki ein­ung­is kraft­leysi og vöðvarýrn­un í þver­rák­ótt­um beina­grind­ar­vöðvum held­ur leggst sjúk­dóm­ur­inn einnig á hjarta­vöðvann og slétta vöðva innri líf­færa, þó að í minna mæli sé. Smám sam­an slakn­ar á hjarta­vöðvan­um og hjarta­hólfin víkka eins og sjá má á mynd­inni lengst til hægri hér fyr­ir neðan. Hjartað get­ur þá illa gegnt hlut­verki sínu og hjarta­bil­un­ar­ein­kenni koma fram. Al­var­leg hjarta­bil­un verður þó ekki fyrr en langt er liðið á sjúk­dóms­ferlið. Áhrif á slétta vöðva innri líf­færa eru óljós­ari, en álitið er að melt­ing­ar­trufl­an­ir eins og uppþemba, vegna seinkaðrar magatæm­ing­ar, og hægðat­regða geti stafað af þeim.Yf­ir­leitt eiga dreng­irn­ir ekki erfitt með að tyggja eða kyngja og halda oft­ast  fullri stjórn á tæm­ingu blöðru og þarma.

Sjúk­dóm­ur­inn hef­ur nokkuð snemma áhrif á önd­un­ar­vöðva, einkum mill­irifja­vöðva og þind. Dreng­irn­ir eiga þá erfitt með að þenja brjóst­kass­ann út við inn­önd­un, hóst­inn verður kraft­laus, slím get­ur safn­ast fyr­ir í önd­un­ar­veg­um og þeim hætt­ir til að fá lungna­bólgu. Smám sam­an verður önd­un­in grynnri, fyrst í svefni, styrk­ur súr­efn­is í blóði minnk­ar og gildi kolt­ví­sýr­ings eykst. Þetta veld­ur í byrj­un væg­um sljó­leika, höfuðverk og ein­beit­ing­ar­erfiðleik­um en með tím­an­um aukast ein­kenni, andþyngsli og önd­un­ar­bil­un kem­ur fram. Reglu­lega eru fengn­ar önd­un­ar­mæl­ing­ar til að fylgj­ast með starf­semi lungna, m.a. eru rann­sókn­ir í svefni mik­il­væg­ar. Þegar ein­kenni önd­un­ar­bil­un­ar eru kom­in fram fær dreng­ur­inn önd­un­ar­vél heim sem aðstoðar hann, sér­stak­lega við inn­önd­un. Vél­in er tengd maska sem sett­ur er yfir nef og munn. Yf­ir­leitt er fyrst þörf á slíkri meðferð um næt­ur, en eft­ir því sem á líður eykst þörf­in og dreng­irn­ar þurfa þá einnig önd­un­araðstoð hluta úr degi.

Lífs­lík­ur

Á und­an­förn­um árum hef­ur bæði ævi­lengd pilt­anna og lífs­gæði batnað og má nú bú­ast við að þeir nái full­orðins­aldri. Al­geng­asta dánar­or­sök­in er önd­un­ar- eða hjarta­bil­un en sýk­ing­ar, t.d. lungna­bólga, eru einnig nokkuð al­geng­ar. Það er því ljóst að mjög mik­il­vægt er að fylgj­ast ná­kvæm­lega með fram­gangi sjúk­dóms­ins, grípa fljótt til viðeig­andi meðferðar og m.a. meðhöndla sýk­ing­ar kröft­ug­lega. Fram­far­ir á sein­ustu ára­tug­um hafa leitt til þess að sjúk­dóm­ur­inn grein­ist fyrr en áður. Lífs­gæði og lífs­lík­ur hafa einnig auk­ist tölu­vert vegna ým­iss kon­ar stoðmeðferðar, sér­stak­lega hef­ur önd­un­araðstoðin breytt miklu fyr­ir þenn­an sjúk­linga­hóp.

Or­sök

Litn­ing­ar í kjarna frum­unn­ar bera genin eða erfðavís­ana. Í hverri frumu eru 23 litn­inga­pör, eitt par kyn­litn­inga og 22 pör sem eru sam­eig­in­leg fyr­ir bæði kyn­in. Kyn­litn­ing­ar drengja eru einn X og einn Y litn­ing­ur en stúlk­ur hafa tvo X litn­inga. Duchenne vöðvarýrn­un staf­ar af gölluðu geni á

X-litn­ingi og leggst ein­göngu á drengi. Jafn­vel þótt stúlka beri gallað gen á öðrum X-litn­ingn­um fær hún ekki al­var­leg ein­kenni sjúk­dóms­ins því að mest­ar lík­ur eru á að hún hafi eitt heil­brigt gen (sjá skýr­ing­ar­mynd­ina hér til vinstri). Þó geta 5-10% kvenna, sem bera gallað gen, haft væg ein­kenni sjúk­dóms­ins s.s. stækkaða kálfa­vöðva og vægt minnkaðan vöðvakraft. Þær geta auk þess haft ein­kenni frá hjarta sem fylgj­ast þarf með.

Öll gen geyma upp­lýs­ing­ar um röð amínó­sýra í pró­tín­um. Dystrophin genið, sem er mjög stórt, geym­ir upp­lýs­ing­ar um dystrophin pró­tínið sem er staðsett á innra borði frumu­himnu vöðvafrum­unn­ar (sjá skýr­ing­ar­mynd­ina hér til hægri). Það styrk­ir frumu­himn­una, viðheld­ur stöðug­leika henn­ar þegar vöðvinn dregst sam­an. Þegar genið er gallað mynd­ast ekk­ert dystrophin, frum­an rýrn­ar og vöðvinn dregst ekki sam­an á eðli­lega hátt - Duchenne vöðvarýrn­un kem­ur fram.

Grein­ing­in

Grein­ing­in bygg­ist að miklu leyti á klín­ísk­um ein­kenn­um. Vöðvaensím (CK) í blóði er marg­falt hærra en eðli­legt er og nú er oft­ast hægt að staðfesta grein­ing­una með erfðafræðileg­um próf­um (DNA próf) þar sem sýnt er fram á gallaða genið. Áður var meira byggt á út­liti vöðva­sýna í smá­sjá auk vöðva- og tauga­rits.

Þegar dreng­ur grein­ist með Duchenne vöðvarýrn­un þarf að at­huga móður hans og systkini með til­liti til þessa sjúk­dóms. Oft er móðirin ein­kenna­laus arf­beri þ.e. hún er með gallað gen á öðrum X litn­ingi sín­um án veru­legra ein­kenna. Helm­ings­lík­ur eru á að syn­ir henn­ar fái sjúk­dóm­inn. Í um 30-50% til­fella veld­ur ný stökk­breyt­ing sjúk­dómn­um. Þá eru ekki aukn­ar lík­ur á að aðrir í fjöl­skyld­unni fái sjúk­dóm­inn eða beri hann til næstu kyn­slóða. Nú er hægt að greina sjúk­dóm­inn á fóst­urstigi með erfðafræðileg­um próf­um á fóst­ur­frum­um.

Meðferð

Eng­in lækn­ing er til við sjúk­dómn­um held­ur bein­ist meðferðin að því að reyna að fyr­ir­byggja fylgi­kvilla og meðhöndla þá. Sjúkraþjálf­un er geysi­lega mik­il­væg og er sjúkraþjálf­ar­inn lyk­ilaðili í meðferðinni. Lögð er áhersla á að teygja mark­visst á vöðvum, viðhalda hreyfi­ferl­um um liði og stuðla að réttri lík­ams­beit­ingu. Þjálf­un í vatni nýt­ur mik­illa vin­sælda því að auðveld­ara er að hreyfa sig í vatni og vatnið veit­ir hreyfi­hömluðum mikið frelsi til hreyf­inga. Einnig er lögð áhersla á blást­ur­sæfing­ar og lungna­bank til að styrkja önd­un­ar­vöðva og hjálpa drengn­um við að hreinsa slím úr loft­veg­um.

Skurðaðgerðir eru stund­um gerðar t.d. vegna hryggskekkju eða ef vöðvakrepp­ur eða skekkj­ur eru mikl­ar og valda óþæg­ind­um. Stefn­an á sein­ustu árum er þó sú að reyna að forðast stór­ar aðgerðir meðan dreng­irn­ir eru ung­ir því að rúm­lega og hreyf­ing­ar­leysi í kjöl­far aðgerðar geta dregið úr hreyfi­færni. Hægt er að spengja bakið ef hryggskekkj­an er mik­il en mik­il­vægt er að gera það áður en starf­semi lungna skerðist veru­lega.

Ýmis lyf hafa verið reynd við sjúk­dómn­um. Á sein­ustu ára­tug­um hafa marg­ar rann­sókn­ir beinst að notk­un barkstera-lyfja (predn­i­so­ne, deflazacort, oxandrolone). Sýnt hef­ur verið fram á að ster­ar geti tíma­bundið hægt á niður­broti eða rýrn­un vöðva og þannig viðhaldið hreyfi­færni leng­ur en ella. Sé meðferð haf­in snemma má í sum­um til­fell­um lengja þann tíma sem dreng­irn­ir geta gengið um nokkra mánuði og jafn­vel ár. Meðferðin er þó mjög um­deild, meðferðar­tími og skammt­ar ekki staðlaðir og lang­tíma­auka­verk­an­ir eru al­var­leg­ar. Ster­ar eru bólgu­eyðandi og þeir gegna senni­lega einnig hlut­verki í að virkja og bæla ákveðin gen sem hafa áhrif á sjúk­dóm­inn.

Stöðugt er unnið að rann­sókn­um á meðferð og lækn­ingu þessa erfiða sjúk­dóms. Meðal ann­ars hef­ur verið reynt að flytja vöðva­stofn­frum­ur í sjúk­linga í von um að þær geti fjölgað sér og byggt upp heil­brigða vöðva. Mikl­ar fram­far­ir í erfðafræði hafa einnig vakið von­ir um að sá tími komi að gena­lækn­ing­ar verði raun­hæf meðferð. Þar til að slík­ar lausn­ir finn­ast verður áfram lögð áhersla á hefðbundna íhlut­un s.s. sjúkraþjálf­un, meðferð fylgi­kvilla, val á hjálp­ar­tækj­um, aðstoð með nám og tóm­stund­astarf - með það að mark­miði að auka lífs­gæði.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda