Viðbættur sykur getur haft skaðleg áhrif á efnaskipti og stuðlað að allskyns sjúkdómum. Heilsuvefurinn Betrinæring.is telur hér upp tíu ástæður fyrir því hvers vegna við eigum að sleppa sykrinum.
1. Viðbættur sykur inniheldur engin nauðsynleg næringarefni og er slæmur fyrir tennurnar.
Þú hefur líklega heyrt þetta milljón sinnum … en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Viðbættur sykur inniheldur gommu af hitaeiningum, en engin nauðsynleg næringarefni. Af þessum sökum er stundum talað um sykur sem „tómar“ hitaeiningar. Það er ekkert prótín, engin fita, engin vítamín eða steinefni í sykri … bara hitaeiningar.
Þegar fólk fær 10-20% hitaeininga (eða meira) úr sykri, getur það orðið stórvandamál og stuðlað að næringarskorti. Sykur er líka mjög slæmur fyrir tennurnar því hann er auðmelt orka fyrir slæmu bakteríurnar í munninum.
2. Viðbættur sykur inniheldur mikinn frúktósa sem yfirfyllir lifrina
Til að skilja hvað er svona slæmt við sykur þarftu að vita úr hverju hann er. Áður en sykur fer í blóðrásina úr meltingarvegi skiptist hann í tvær einfaldar sykrur … glúkósa og frúktósa.
Málið með frúktósa er að lifrin er eina líffærið sem getur brotið hann niður í einhverju magni. Þetta er ekki vandamál ef við borðum lítið af frúktósa (eins og úr ávöxtum) eða ef við erum nýbúin á erfiðri æfingu. Í þannig tilfellum er frúktósanum breytt í glýkógen og geymdur í lifur þar til við þurfum hann.
Hins vegar, ef lifrin er full af glýkógeni (miklu algengara), þá veldur mikið magn frúktósa því að lifrin yfirfyllist og neyðist til að breyta frúktósa í fitu. Þeir sem borða ítrekað mikið magn af sykri geta fengið fitulifur. Hafðu í huga að þetta gildir ekki um ávexti. Það er nánast ómögulegt að borða of mikið af frúktósa með því að borða ávexti.
Það er einnig mikill munur á milli einstaklinga hér. Fólk sem er heilbrigt og hreyfir sig þolir meiri sykur en fólk sem hreyfir sig lítið og borðar kolvetna- og hitaeiningaríkan mat.
3. Að yfirfylla lifrina með frúktósa getur valdið fitulifur
Þegar frúktósi breytist í fitu í lifur er fitan flutt úr lifrinni sem VLDL kólesteról. Hins vegar kemst ekki öll fitan út, hluti af henni festist í lifrinni. Þetta getur leitt til fitulifrar, sem er vaxandi vandamál á Vesturlöndum og tengist efnaskiptasjúkdómum.
Rannsóknir sýna að einstaklingar með fitulifur neyta allt að 2-3 sinnum meiri frúktósa en meðalmanneskjan.
4. Sykur getur valdið insúlínónæmi sem er undanfari efnaskiptavillu og sykursýki
Insúlín er mikilvægt hormón í líkamanum. Það hleypir glúkósa (blóðsykri) inn í frumurnar úr blóðrásinni og segir frumum að brenna glúkósa í stað fitu. Að vera með of mikinn glúkósa í blóði veldur eitrunaráhrifum og er ein af ástæðum fylgikvilla sykursýki, eins og blindu.
Ein af afleiðingum þeirra efnaskiptatruflana sem nútímamataræði veldur er að insúlín hættir að starfa eins og það á að gera. Frumurnar verða ónæmar fyrir því.
Þetta er einnig þekkt sem insúlínónæmi og er talið vera leiðandi orsök margra sjúkdóma … þar á meðal efnaskiptavillu, offitu, hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki af gerð 2.
Margar rannsóknir sýna að sykurneysla tengist insúlínónæmi, sérstaklega þegar hans er neytt í miklu magni.
5. Insúlínónæmi getur þróast í sykursýki 2
Þegar frumur líkamans þróa ónæmi fyrir insúlíni býr briskirtillinn til enn meira af því. Þetta er mikilvægt því langvarandi hækkun blóðsykurs getur valdið alvarlegum skaða. Að lokum eftir því sem insúlínónæmið verður smám saman verra getur brisið ekki haldið í við að framleiða nóg insúlín til að halda blóðsykursmagninu niðri.
Á þessum tímapunkti er blóðsykurinn orðinn mjög hár og einstaklingurinn greinist með sykursýki 2. Í ljósi þess að sykur veldur insúlínónæmi kemur ekki á óvart að fólk sem drekkur sykraða drykki er í allt að 83% meiri hættu á að fá sykursýki 2.
6. Sykur getur valdið krabbameini
Krabbamein er ein af helstu orsökum dauða í heiminum og einkennist af stjórnlausum frumuvexti. Insúlín er eitt af helstu hormónunum sem stjórna þessari tegund frumuvaxtar. Af þessum sökum telja margir vísindamenn að stöðugt hækkað insúlín (afleiðing sykurneyslu) geti stuðlað að krabbameini. Að auki eru efnaskiptavandamál í tengslum við neyslu sykurs þekktir drifkraftar bólgna, en þær eru önnur möguleg orsök krabbameins. Margar rannsóknir sýna að fólk sem borðar mikið af sykri er í miklu meiri hættu á að fá krabbamein.
7. Vegna áhrifa sykurs á hormón og heila hefur hann einstaka getu til að ýta undir fitusöfnun
Ekki eru allir hitaeiningar eins. Mismunandi matvæli geta haft mismunandi áhrif á heila og þau hormón sem stjórna fæðuinntöku. Rannsóknir sýna að frúktósi hefur ekki sams konar áhrif á mettun og glúkósi. Í einni rannsókn drukku menn annaðhvort frúktósa-sykraðan drykk eða glúkósa-sykraðan drykk. Niðurstöðurnar voru að þeir sem höfðu drukkið frúktósadrykkinn sýndu miklu minni virkni í mettunarstöðvum heilans og voru miklu svengri. Það hefur líka verið gerð rannsókn sem sýndi að frúktósi lækkaði ekki svengdarhormónið ghrelin nándar nærri eins mikið og glúkósi. Vegna þess að hitaeiningar úr sykri valda ekki eins mikilli mettunartilfinningu þýðir það að við borðum fleiri hitaeiningar.
8. Þar sem sykur veldur losun mikils dópamíns í heila er hann mjög ávanabindandi
Sykur getur verið ávanabindandi fyrir marga. Eins og ávanabindandi lyf þá veldur sykur losun dópamíns í verðlaunastöðvum heilans. Vandamálið með sykur og ýmsan ruslmat er að þeir geta valdið mikilli losun dópamíns … miklu meira en en þegar við borðuðum náttúrulegan, óunnin mat. Af þessari ástæðu getur fólk, sem er næmt fyrir fíkn, orðið mjög háð sykri og öðru ruslfæði.
„Allt er gott í hófi“ skilaboðin geta því verið slæm hugmynd fyrir fólk sem er háð ruslfæði … því það eina sem virkar á fíkn er algjört bindindi.
9. Sykur er leiðandi orsök offitu hjá bæði börnum og fullorðnum
Áhrif sykurs á hormóna og heila er ávísun á offituvanda. Hann leiðir til minni mettunar … og getur gert fólk háð sér þannig að það missir stjórn á neyslunni. Ekki kemur á óvart að þeir sem neyta mest af sykri eru líka lang líklegastir til að verða of þungir eða feitir. Þetta á við um alla aldurshópa.
Í mörgum rannsóknum hafa verið könnuð tengsl milli sykurneyslu og offitu og komið í ljós að þar á milli eru sterk tölfræðileg tengsl. Tengslin eru sérstaklega sterk hjá börnum, þar sem hver dagskammtur af sykruðum drykkjum tengist 60% meiri líkum á offitu. Eitt það besta sem þú getur gert ef þú þarft að léttast er að skera verulega niður sykurneyslu.
10. Það er ekki fitan … það er SYKUR sem hækkar kólesteról og veldur hjartasjúkdómum
Í marga áratugi hafa menn kennt mettaðri fitu um hjartasjúkdóma … sem er helsta orsök dauðsfalla í heiminum. Hins vegar sýna nýjar rannsóknir að mettuð fita er skaðlaus. Vísbendingar hlaðast upp sem sýna að sykur, EKKI mettuð fita, getur verið einn af helstu orsökum hjartasjúkdóma vegna skaðsemi frúktósa á efnaskipti.
Rannsóknir sýna að mikið magn af frúktósa getur hækkað þríglýseríð, litlu, þéttu LDL agnirnar og oxað LDL (mjög, mjög slæmt), hækkað blóðsykur og insúlínmagn og aukið kviðfitu … á eins stuttum tíma og 10 vikum. Þetta eru allt mjög sterkir áhættuþættir hjartasjúkdóma.
Ekki kemur á óvart að margar faraldsfræðilegar rannsóknir sýna sterk tölfræðileg tengsl milli sykurneyslu og hættu á hjartasjúkdómum.