Það fyrsta sem margir gera á morgnana er að skoða símann sinn. Síminn stjórnar lífi okkar, heldur utan um dagskrána, tölvupóstinn, öppin og félagslífið. Smartsíminn er að verða helsti keppinautur makans um athyglina. Á veitingastöðum með vinum okkar og jafnvel á meðan við horfum á sjónvarpið með makanum erum við að hamast í símanum. Margir birta færslur á netinu og segja frá upplifunum sínum eða birta myndir á Instagram í stað þess að njóta augnabliksins. Samkvæmt heimildum vefsíðunnar Psychologies eyðum við of miklum tíma í símanum.
„Smartsímarnir gera það að verkum að við deilum upplifunum okkar með heiminum,“ segir taugasérfræðingurinn Susan Greenfeld. Áður fyrr upplifðir þú ævintýri sem þú hefðir bara upplifað með nánum vinum en nú deilir fólk þessum upplifunum með heiminum.
Ef smartsími þinn eða makans er þriðja hjólið undir vagninum skaltu prufa að fara að ráðum félagssálfræðingsins Aleks Krotoskis til að vera örugg um að þið maki þinn eigið ykkar gæðastundir.
Ákveðið að eyða tíma saman án þess að vera með smartsímana við hönd. Setjið ykkur ákveðin tímamörk sem ganga upp fyrir ykkur bæði, hvort sem það er í klukkustund eftir að þið komið heim úr vinnunni eða þegar þið farið út saman.
Búið til svæði inni á heimilinu þar sem bannað er að vera með síma. Til dæmis við matarborðið eða í svefnherberginu.
Þegar þú notar smartsímann í vinnunni hugsaðu þá um manneskjuna sem þú ert með. Hvað ertu að gera í símanum? Er athyglin á réttum stað?
Ekki skilja manneskjuna sem þú ert með útundan. Sýndu viðkomandi myndbandið sem þú ert að hlæja að. Deildu því sem þú ert að gera.
Í raun er þetta allt spurning um aga og að taka ábyrgð á tímanum sem þú eyðir í símanum. Þrátt fyrir að þú hafir aðgang að veraldarvefnum þarftu ekki alltaf að vera á honum.