Inga Kristjánsdóttir svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér er hún spurð að því hvað sé til ráða til þess að losna við sykurpúkann.
Sæl,
Áttu góð ráð við að losna við sykurpúkann?
Kær kveðja,
X
Kæra/kæri x.
Takk fyrir þessa spurningu, sem örugglega brennur á ótal mörgum!
Sykurpúkinn er álíka óþolandi og aðrir púkar sem sækja á mannfólkið og um að gera að losna við hann.
Margir hafa háð við hann ótal orrustur, kannski unnið margar en tapað öðrum. Sykurpúkinn hefur þó sínar veiku hliðar og ef við áttum okkur á því hverjar þær eru, þá er oft að við náum árangri við útrýmingu hans.
Þessi púki elskar sykur og ef við erum dugleg að fóðra hann þá stækkar hann og dafnar af miklum krafti. Ef við hins vegar náum að svelta hann þá náum við árangri.
Að öllu púkatali slepptu, þá er besta leiðin til að ná tökum á sykurlönguninni að koma jafnvægi á blóðsykurinn. Það er í sjálfu sér ekki mjög erfið aðgerð ef við bara kunnum tæknina og skiljum hugsunina á bak við aðgerðarplanið.
Það sem ruglar blóðsykrinum getur kallað á meiri sykurlöngun og Það sem hefur mestu áhrifin er auðvitað sykur, síróp, og allt gúmmilaðið sem inniheldur slíkt. Hvítt kornmeti, eins og hvítt hveiti, pasta, hrísgrjón og fleira er líka blóðsykursruglandi, sem og kartöflur og ávextir. Já, ég sagði ávextir, þeir innihalda talsverðan sykur og ef við erum viðkvæm þá geta þeir ruglað okkur í ríminu og kallað á einhverja óhollustu.
Það sem aftur á móti jafnar blóðsykur og styrkir okkur í baráttunni eru prótein, fita og trefjar.
Hér eru nokkrir punktar sem geta komið sér vel:
»» Forðist öll einföld kolvetni (sykur) og einnig hvítt hveiti, hvít hrísgrjón, hvítt pasta og slíkt.
»» Borðið frekar heilkorn (heilkornabrauð, heilkornapasta, híðishrísgrjón og slíkt)
»» Borðið mikið grænmeti.
»» Farið varlega í ávextina, þeir geta líkað ruglað blóðsykur.
»» Borðið vel af próteini (kjöt, fisk, fuglakjöt, egg, baunir, hnetur, fræ).
»» Passið að fá nóg af góðri fitu, kaldhreinsaðar olíur, hnetur og fræ.
»»Borðið aldrei bara kolvetni, heldur reynið alltaf að blanda saman kolvetni, fitu, próteini og grænmeti í hverri máltíð. Það veldur því að blóðsykurinn verður jafnari og sykurpúkinn sofnar.
»»Minnkið kaffidrykkju (kaffi getur haft áhrif á blóðsykur).
»»Dragið úr stressi eins og mögulegt er (stress hefur líka áhrif á blóðsykur).
»»Hæfileg líkamsrækt, í því formi sem ykkur finnst skemmtileg, er mikil hjálp ef við ætlum að ná stjórn á blóðsykrinum.
»»Ýmis bætiefni geta verið gagnleg, s.s. omega fitusýrur, zink, króm, trefjar o.fl.
Það kemur mörgum á óvart hvað sykurpúkinn er fljótur að geispa golunni ef þessum ráðum er fylgt!
Gangi þér vel!
Inga næringarþerapisti
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ingu spurningu HÉR.