Hrönn Hjálmars heilsumarkþjálfi fór í tveggja vikna detox árið 2009. Í framhaldinu tók hún mataræði sitt verulega í gegn og fór að vera meðvitaðri um hvað hún lét ofan í sig. Í fyrra komst hún að því, eftir að hafa trítað sig vel á Ítalíu eina kvöldstund, hvernig hveiti og ger leikur hana. Hér á myndinni fyrir ofan vinstra megin er Hrönn rétt eftir að hafa borðað pítsu en hin myndin var tekin í sömu ferð þar sem ekkert hveiti og ger hafði verið á boðstólum. Ég mátti til með að spyrja Hrönn nánar út í hveitineysluna og lífsstílsbreytinguna.
„Ég dró mikið úr brauðneyslu og hætti að nota allt sem heitir gervisykur (s.s. aspartame) árið 2009. Einnig losaði ég mig að mestu við unna matvöru eins og pylsur og kjötálegg. Ég fór að taka eftir því, sérstaklega ef ég fékk mér pizzu, að ég var algjörlega ónýt daginn eftir, öll svo þrútin og einnig svaf ég ekki mjög vel. Ég tengdi þetta alltaf því að það var skinka eða pepperoni á pizzunni en ég hef lengi þolað illa alla unna kjötvöru. Ég prófaði þá að gera mér speltbotn (en eftir detoxið gerði ég alltaf speltbrauð og lét því ger einnig alveg eiga sig) og leið miklu betur eftir það,“ segir Hrönn.
Hún segir að það hafi verið töluvert erfitt að losa sig alveg við hveitið úr mataræðinu því það sé einfaldlega auðvelt að fá sér brauðmeti þegar svengdin segir til sín. Hún viðurkennir að hafa verið í töluverðri afneitun með þetta allt saman en svo kom að því að hún ákvað að taka málin í sínar hendur og hætta alveg í hveitinu.
„Ég var búsett í Þýskalandi frá 2007 þar til um sl. áramót og á árunum 2011 og 2012 fór ég að lesa svolítið í næringarfræði og taka kúrsa því tengda. Þar las ég fyrst um svokallað krossofnæmi en það þýðir að maður getur kannski borðað tvær mismunandi fæðutegundir í sitt hvoru lagi og ekki fundið fyrir því en ef maður borðar hvort tveggja í einu getur líkaminn brugðist öðruvísi við. Með því að prófa mig áfram hef ég komist að því að það er þessi samsetning hveitis og gers sem gerir mig svona ómögulega og reyni ég því að forðast það eftir fremsta megni. Ég get nú ekki sagt að ég sé alveg gerlaus því mér þykir bjór mjög góður en í staðinn reyni ég að sleppa öllu hveiti og öðru sem innheldur glútein,“ segir hún og brosir.
Í september í fyrra fór Hrönn til Ítalíu sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að hún ákvað að leyfa sér allt eina kvöldstund. Myndirnar af henni, sem birtast hér með þessari grein, sýna ákaflega vel hvaða áhrif hveitið hafði á hana. Þær eru teknar fyrir og eftir þessa kvöldstund.
„Ég fékk mér góða skinku í forrétt og ekta ítalska pizzu. Þegar ég vaknaði daginn eftir leið mér ekki vel en var svosem ekki að spá mikið í það annað en að losa mig við þessa vanlíðan með því að borða bara salat og lax þann daginn. Sá svo þegar ég fór að skoða myndirnar að ég leit greinilega út í samræmi við líðanina,“ segir hún.
Hvernig fórstu að því að henda hveiti út úr mataræðinu?
„Þetta gerðist nú bara smátt og smátt. Auðvitað fannst manni eins og endalokin væru í nánd til að byrja með en það er ekki hægt að lifa endalaust í einhverri vanlíðan og horfa framjá hlutunum. Ég fór að borða meira af eggjum, bakaði speltbrauð og bara einbeitti mér að hollari fæðu. Í dag borða ég nánast ekkert brauð, baka speltbrauð til að borða spari en finnst bara gott að sneiða hjá miklu kornmeti. Í fyrra fór ég svo að læra ennþá meira um næringu og tók eins árs nám við Institute of integrative nutrition í New York og lærði heilsumarkþjálfun. Þar lærði ég enn meira um mataræði og næringu fyrir líkama og sál,“ segir hún.
Sumir kvarta yfir því að vita aldrei hvað þeir eigi að fá sér í staðinn ef þeir geta ekki fengið sér brauð með osti eða eitthvað í þá áttina. Fannstu fyrir þessu?
„Jú að sjálfsögðu fann ég fyrir því. Það er svo erfitt að breyta því sem maður er vanur og hvað þá ef það er áralöng venja. Það er sagt að það taki u.þ.b. 60 daga að breyta svona venjum og því ekki skrítið að fólk þurfi að hafa þolinmæði og úthald þegar breyta á lífsstílnum.“
En hvernig skyldi venjulegur dagur vera hjá Hrönn?
„Ég reyni að borða reglulega og það hentar mér vel að borða þrjár máltíðir á dag. Ég borða ekki alltaf það sama í morgunmat en ég tek svona tímabil og borða eitthvað ákveðið flesta daga vikunnar en svo fæ ég nóg og breyti til. Ég er mjög oft með græna drykki eða búst en núna fæ ég mér smá AB-mjólk með fræblöndu sem ég geri bara sjálf (heilt bókhveiti, hampfræ, chiafræ, gojiber, mórber og stundum smá All-bran). Í hádeginu fæ ég mér afganga en það er afskaplega þægilegt að elda bara mikinn kvöldmat og nota afganga daginn eftir. Stundum er ég með næringarríkt búst eða ég hendi grænmeti og soðnu quinoa á pönnu með góðri olíu og kryddi. Ég borða svo allan venjulegan mat, sleppi brauði þegar það er sem meðlæti og svo borða ég ekki mikið af kartöflum. Ætli það megi ekki segja að ég fylgi steinaldarfæði, svona í grófum dráttum, en það þýðir að maður borðar bara hreina fæðu: ávexti, grænmeti, fræ, hnetur, kjöt, fisk og egg.
Núna er ég búin að vera í sumarfrí þannig að dagarnar hafa ekki verið alveg venjulegir, ég finn líka alveg fyrir því. Ég fór í viku til Spánar og tók með mér morgunmat en það hjálpaði mikið. Ég veit samt nákvæmlega hvað ég þarf að gera til að líða vel og það verður æ auðveldara með tímanum.“
Ertu með óþol fyrir einhverju öðru en hveiti?
„Já ég þoli ekki mikinn sítrus og eins og áður sagði þá eru unnar kjötvörur afar slæmar (eru það reyndar fyrir alla en fólk er mismeðvitað um það), ég fæ undarlega blöðrur í lófana og á olnboga ef ég dett í grilluðu pylsurnar og skinkuna. Mér hefur tekist að halda mér þokkalegri sl. ár nema ég hef verið með töluvert af útbrotum á bringunni og smákláðabletti á efri hluta líkamans. Fannst ég búin að taka svo vel til í mataræðinu að þetta hlyti að vera eitthvað annað en svo í janúar tók ég Food detective-óþolsprófið og fyrir utan að það staðfesti minn grun, þá kom í ljós mikið óþol fyrir cashewhnetum og eggjum, nokkuð sem ég hafði aukið töluvert neyslu á. Ég tók út eggin, sem var ágætis áskorun, og viti menn; ég er laus við útbrotin. Þau eru fljót að birtast ef ég fæ mér t.d. eggjasalat eða eggjaköku.“
Hrönn er með vefsíðuna http://hronnhjalmars.wordpress.com/ en þangað getur fólk leitað sem vill bæta mataræði sitt.