Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur skrifar um það sem konur ættu að vita um hjartasjúkdóma inn á vefinn hjartalif.is. Árið 2013 mætti hún á fyrirlestur hjá bandaríska lækninum Barböru H. Roberts sem hefur frá árinu 2002 stýrt sérstakri hjartadeild fyrir konur á Miriam Hospital, Rhode Island. Auk þess hefur Roberts sinnt starfi klínísks aðstoðarprófessors í læknadeild Alpert Medical School í Brown University. Roberts helgaði starfsferil sinn forvörnum, greiningu og meðferð hjartasjúkdóma meðal kvenna og segir Mjöll að það hafi verið mikill fengur að fá að sitja þennan fyrirlestur hjá henni.
Mjöll segir að einkenni kvenna séu oft og tíðum önnur en einkenni karla. „Mikilvægustu skilaboðin eru að einkenni kvenna þegar þær fá hjartaáfall geta mögulega verið önnur en einkenni karla. Konur geta auðvitað fengið hin þekktu einkenni eins og mjög slæman brjóstverk, svita og gríðarlega mæði en þær eru líklegri til að finna ekki þennan mikla brjóstverk sem karlar almennt fá heldur ógleði, verk í kjálka, baki, öxlum, óþægindi í maga og hálsi og jafnvel finna bara fyrir mikilli mæði og þreytu. Hin dæmigerða lýsing á hjartaáfalli á ekki endilega við þegar um konur er að ræða.
Því miður vita þetta ekki allir enda hefur það sýnt sig að konur leita læknis seinna en karlar þegar þær veikjast, þær þurfa að bíða lengur eftir meðferð þegar þær koma á spítala og eru líklegri en karlmenn til að deyja af veikindum sínum. Þær veikjast líka að meðaltali 10 árum seinna en karlar. Tími skiptir sköpum þegar kemur að því að bjarga heilsu og lífi við hjartaáfall og því mikilvægt að taka verki og óþægindi alvarlega sem ekki kannski allir vissu að gætu verið einkenni frá hjarta,“segir hún.
Mjöll segir að það hafi komið henni á óvart konur fái oftar hjartaverk í hvíld en karlar.
„Eitt af því sem kom mér á óvart í fyrirlestri Dr. Roberts um ólíkt eðli hjartasjúkdóma kvenna og karla var þegar hún sagði konur líklegri en karla til að fá hjartaverk í hvíld og á meðan þær sofa. Hér áður hafði alltaf verið sagt að hjartaverkur kæmi við álag og áreynslu, þess vegna væri meðal annars fólk sent í áreynslupróf þegar verið væri að leita eftir einkennum hjartasjúkdóma. Ég get því ekki annað en velt því fyrir mér hvort það hafi verið rannsakað sérstaklega hvort áreynslupróf sé þá rétta skimunartækið fyrir konur, eða hvort eitthvað annað sé mögulega betra? Ég veit það ekki og því miður kom Dr. Robers ekkert inn á það í sínum fyrirlestri en hún sagði hins vegar að konur væru líka líklegri en karlar til að fá brjóstverk við tilfinningalega eða andlega streitu.“
„Það vita það auðvitað allir að það á ekki að reykja. Það var samt sjokkerandi að heyra að kona sem reykir 2 pakka á dag er í 74% meiri hættu á hjartasjúkdómum en ef hún ekki reykti! Það er ekki hægt að leggja á það of mikla áherslu að reykingar eru stærsti áhættuþátturinn sem hægt er 100% að koma í veg fyrir og það áhrifamesta sem fólk getur gert til að lengja líf sitt og bæta lífsgæði er einmitt að hætta. Það er einfaldlega engin afsökun fyrir því í dag að reykja,“ segir Mjöll og bætir við:
„Mér þótti það mjög áhugavert sem Dr. Roberts hafði að segja um kólesteról. En eins og sumir þekkja þá er talað um vont kólesteról sem kallað er Low Density Lipoprotein eða LDL og High Density Lipoprotein eða HDL sem er góða kólesterólið. Við viljum að það vonda (LDL) mælist lágt og að það góða (HDL) mælist hátt. Þegar talað er um kólesteról er samt oft verið að tala um heildar kólesteról þar sem bæði er búið að taka inn það slæma og það góða. Ég persónulega hef aldrei náð því hvort er hvað og hvaða skammstöfun er hið góða eða hið vonda. Hún reddaði því hins vegar fyrir okkur með minnisreglunni að LDL sem byrjar á L standi fyrir Lousy og HDL sem byrjar á H standi fyrir healthy og er góða og heilbrigða kólesterólið. Gott að vita og ég get allavega munað þetta núna.“
„Það kom mér svo einnig mikið á óvart þegar Dr. Roberts sagði, ólíkt öllu sem ég hef áður heyrt, að hátt LDL spái minna fyrir um hjartasjúkdóma hjá konum en körlum en að lágt HDL sé það sem best spái fyrir um hjartasjúkdóma kvenna. Þessu er því eiginlega öfugt farið miðað við það sem manni hefur alltaf verið sagt og eru merkilegar fréttir. Þetta snýst ekki allt um vonda kólesterólið eins og hún sagði.
Reyndar kannski enn merkilegra, þá sagði hún jafnframt að ekki hefði verið í einni einustu rannsókn sýnt fram á að það minnkaði áhættu kvenna á hjartasjúkdómum eða fækkaði dauðsföllum af völdum hjartasjúkdóma meðal kvenna ef þær fengju kólesteról lækkandi lyf sem fyrirbyggjandi meðferð áður en þær þróuðu með sér hjartasjúkdóma. Það væru einhver merki um fyrirbyggjandi gagnsemi fyrir karla en ekki fyrir konur. Eftir að fólk hefur þróað með sér sjúkdóm er árangurinn þó eitthvað betri en minni en hingað til hefur verið haldið fram. Ég veit ekki með ykkur, en ég þekki þó nokkrar konur sem hafa verið settar á kólesteról lækkandi lyf sem forvörn við hjartasjúkdómum út af háu LDL en samkvæmt þessu hefðu aðferðir til að hækka góða kólesterólið og almennar lífsstílsbreytingar jafnvel verið áhrifameiri. Aðspurð sagði hún að besta aðferðin til að hækka HDL væri svo einfalt sem að taka tvær til þrjár matskeiðar af olífuolíu á dag, svo ætti fólk að borða hollan mat og hreyfa sig en því fylgdu heldur engar aukaverkanir.“
„Statin lyf eru mikið notuð og meðal annars til að lækka kólesteról. Dr. Roberts heldur því fram að búið sé að ýkja gagnsemi þessara lyfja mikið og gera á móti mjög lítið úr hættulegum aukaverkunum þeirra. Hún taldi upp aukaverkanir eins og vöðvaverki, vöðvaskemmdir og vöðvarýrnun, rákvöðvalýsu (bráður og hugsanlega banvænn sjúkdómur í beinagrindarvöðvum), hugræna skerðingu, liðagigt, sinabólgur, taugaskemmdir, sykursýki, lifra- og nýrnaskemmdir, minnkað magn af CoQ10 (sem er nauðsynlegt fyrir frumur líkamans), ofþreytu og fæðingargalla hjá börnum sem hafa orðið fyrir áhrifum þessara lyfja í móðurkviði. Lyfin gagnast vissulega einhverjum en hún lagði á það mikla áherslu að það væri mjög mikilvægt að hafa fólk undir nánu eftirlit þegar þessi lyf væru gefin og að reyna aðrar meðferðir ef fólki þolir lyfin illa og fær aukaverkanir. Hún orðaði það meira að segja þannig að með aukaverkunum þessara lyfja væri líkaminn að láta vita að þau hentuðu illa.
Í ofanálag sagði Dr. Roberts frá niðurstöðu rannsóknar sem gerð var á konum sem sýndi að ekki reyndist munur á dauðsföllum vegna hjartasjúkóma milli þeirra kvenna sem tóku statin lyf og þeirra sem tóku lyfleysu. Það hlýtur að teljast frekar lélegur árangur. Reyndar sagði hún einnig að ef fólk tæki statin lyf en borðaði svo óhollan mat þá væri það eina sem gerðist að fólk framleiddi dýrt piss, lyfin ein og sér mættu sín lítils ef lífsstíllinn væri ekki í lagi.“
„Dr. Roberts ræddi skaðleg áhrif of hás blóðþrýstings en sem konu sem hefur fengið háan blóðþrýsting tvisvar á meðgöngu brá mér nokkuð þegar Dr. Roberts sagði svo frá því að meðgönguháþrýstingur væri líka mikill áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Það að hafa fengið háþrýsting á meðgöngu væri einfaldlega merki um að eitthvað virkaði ekki eins og það ætti að virka og mælti hún með að þær konur ættu að láta hjartalækni fylgjast með hjartaheilsu sinni. Þá ræddi hún vanmat á verulegri aukningu á hættu á hjartasjúkdómum ef fólk greinist með sykursýki, hún ræddi hlut offitu í þróun hjartasjúkdóma og þess að þjást af efnaskiptasjúkdómi (metabolic syndrome) eða bólgum (inflammation). Allt áhugaverðir og mikilvægir þættir sem hægt er að hafa áhrif á með lífsstíl.“
„Dr. Roberts ræddi að sjálfsögðu áhrif mataræðis og hreyfingar á heilsu. Mikilvægi hreyfingar þekkja allir en hún ræddi það einnig að aðlaga að getu hvers og eins og láta allt telja í hreyfingu. Það væri gott að taka stigann, leggja bílnum lengra frá búðinni og gera sitt til að ná því sem maður getur út úr deginum þó svo maður hafi ekki tíma til að æfa á hverjum degi. Allt telur.
Þegar að mataræðinu kom talaði hún á móti mýtum eins og þeirri að það að borða mat sem væri ríkur af kólesteróli myndi hækka kólesteról magn líkamans og að lágfitufæði væri gott fyrir hjartað. Sagði hún að þvert á móti þá myndi lágfitufæði lækka HDL gildi líkamans og því í raun vera slæmt mataræði fyrir hjartað.“
Dr. Roberts var mjög hrifin af miðjarðarhafsmataræðinu sem inniheldur mikið af grænmeti, ávöxtum, ólífuolíu en ekki sérlega mikið af kjöti.
„Í framhaldinu og í spurningum eftir fyrirlesturinn sagði hún hins vegar að kannski væri ekki jafn skaðlegt að borða kjöt hér á landi þar sem mikið væri af aukefnum í kjöti í Bandaríkjunum sem gerði það slæman valkost en að á Íslandi ættum við hreinna kjöt sem væri meira lífrænt og því kannski betri valkostur en víða erlendis. Hún fór hins vegar í gegnum rannsóknir sem sýndu að miðjarðarhafsmataræðið minnkar hættuna á hjartasjúkdómum verulega.
Þetta snýst um hreinan mat eins og hún sagði, við ættum að borða meiri mat en ekki vörur, mat sem maðurinn væri ekki búinn að fikta í. Eins og hún svo skemmtilega orðaði það, „if you break the way of people, you might get away with it, but if you break the way of nature, you always have to pay“ eða eins og það myndi um það bil útleggjast á íslensku að ef þú svindlar á fólki þá gætir þú mögulega komist upp með það en ef þú svindlar á náttúrunni þá þyrftir þú alltaf að borga og það ætti svo sannarlega við um mataræði.“
„Niðurstaða Dr. Roberts var mjög einföld um hvernig við ættum að bregðast við
Það besta sem við getum gert til að sporna gegn hjartasjúkdómum kvenna er heilbrigður lífsstíll. Við höfum valdið í okkar höndum því sama hvað við erfum eða hvaða áhættuþætti við búum við þá er það hegðun okkar sem stjórnar heilsufari okkar. Eins og hún orðaði það „genin hlaða byssuna en það er umhverfið sem tekur í gikkinn“. Við þurfum bara að horfast í augu við áhættuþætti okkar, skoða söguna okkar og hvernig fólki í okkar fjölskyldu hefur reitt af og bregðast við í samhengi við það.“