„Ég var uppi á eldhúsbekknum hálf inni í nammiskápnum að leita mér að nammi hrikalega fúl yfir því að ekkert af mínu uppáhaldi sé til. Þar fann ég gamlan sleikjó með kókbragði sem ég bruddi þrátt fyrir að finnast hann vondur. Í geðshræringu yfir nammiþörfinni reif ég upp bökunarskúffuna og fékk mér matskeið af púðursykri og kjamsaði svo í mig restinni af gömlu suðusúkkulaði,“ segir Birna Rut Willardsdóttir þegar ég spyr hana að því hvers vegna hún hafi hætt að borða sykur. Birna segir að ástandið á henni hafi verið orðið það slæmt að það hafi bara ekki verið neitt annað í stöðunni en að reyna að kveðja sykurinn fyrir fullt og allt.
Eftir þessa aðför að bökunarskúffunni segist Birna hafa fengið algeran bömmer og verið svekkt út í sjálfa sig. Þá kom bróðir hennar óvænt í heimsókn og hún sagði honum með tárin í augunum hvað hún hefði verið að gera.
„Bróðir minn mælti með því að ég myndi horfa á þátt Jóhönnu Vilhjálmsdóttur á ÍNN þar sem hún tók viðtal við dr. Robert Lustig prófessor við Kalíforníuháskóla í San Francisco. Þegar þátturinn var búinn fattaði ég hvað var í gangi. Ég var háð sykri. Ég réð ekki við löngunina svo ég ákvað að hætta að borða sykur. Ég fór í gegnum skápana og ískápinn og henti öllu sem innihélt viðbættan sykur. Því næst fór ég út í búð og keypti grænmeti, kotasælu, poppkex og eitthvað fleira sykurlaust sem ég ætlaði að hafa við hendina ef ég fengi „þörfina“,“ segir Birna.
Birna segir að líf hennar hafi umturnast til hins betra eftir að hún kvaddi sykurinn.
„Ég get eiginlega ekki lýst með orðum hvað gerðist næstu 3 dagana en í stuttu máli var ég svöng allan sólarhringinn þrátt fyrir að borða mikið af hollum sykurlausum mat. Ég skalf og titraði, það lak af mér svitinn og þá sérstaklega þegar ég reyndi að sofa og ég fékk hausverk sem entist alla dagana. Þetta voru ofboðslega erfiðir þrír dagar en á fjórða degi fór mér að líða betur og ég varð aftur viðræðuhæf,“ segir hún. Aðspurð að því hvað það hafi í raun tekið hana langan tíma að kveðja sykurinn segir hún:
„Ég myndi segja þrír mjög erfiðir dagar og síðan erfiður mánuður þar sem ég hugsaði ekki um annað en að komast hjá viðbættum sykri og finna eitthvað í staðinn,“ segir hún og bætir við:
„Það var ekkert eitthvað eitt sem mér fannst erfitt að hætta að borða en í heilan mánuð langaði mig bara í nammi, kökur, gos, bjór, vín og allt sem innihélt einföld kolvetni eins og til dæmis hveiti, hrísgrjón, hvítt brauð og kartöflur. Eins hætti ég að borða mjólkurvörur sem innihéldu viðbættan sykur.“
Það tók Birnu þónokkurn tíma að finna út úr því hvernig hún ætti að fara að því að lifa án sykurs en hún ákvað að gefast ekki upp.
„Ég lá á netinu í leit að mataruppskriftum, meðlæti, eftirréttum og smákökum og keypti bækur til dæmis frá The food doctor því það var að detta í jól og eitthvað varð ég að hafa til að narta í. Ég prófaði margar smákökuuppskriftir sem flestar voru af cafesigrun.com og fann mér 5 sem ég hef haldið áfram að gera. Ég gerði líka tilraunir sjálf við að gera hollar útgáfur af gömlu góðu smákökunum en get sagt þér að vanilluhringirnir voru óætir þessi jólin,“ segir hún og hlær.
Þegar hún var komin yfir fyrsta mánuðinn varð lífið einfaldara.
„Fyrir mig var þetta einfalt því ég er svona allt eða ekkert manneskja og þegar ég var búin að ákveða að gera þetta þá kom ekkert annað til greina en að gera það vel. Ég mætti með eigin kökur í veislur, setti fram ótrúlegar kröfur þegar mér var boðið í mat og þegar mig langaði að fá mér í glas drakk ég vodka á klaka.“
Það eru rúmlega þrjú ár síðan Birna kvaddi sykurinn og það er ekki hægt að segja annað en hún hafi sjaldan litið betur út. En hvað skyldi hún borða dagsdaglega?
„Ég borða hollan mat, grófkorna brauð, quinoa, sætar kartöflur, mikið af grænmeti, flesta ávexti, kotasælu, hummus, allar óunnar kjöt- og fiskvörur, egg, harðfisk, hnetur, fræ og drekk vatn.“
Birna er baksjúklingur og því skipir miklu máli fyrir hana að vera sterk og halda sér í góðu formi. Áður en Birna hætti að borða sykur æfði hún fimm sinnum í viku og fannst henni líkamsræktin ekki vera að skila tilskildum árangri. Eftir að hún hætti að borða sykur segist hún skyndilega fundið mikinn mun á líkamlegu formi.
„Strax á fyrsta mánuðinum fann ég mun. Ég hætti að svitna, fékk ekki bjúg og liðverki, svaf án nætursvita, hætti að vera sísvöng, breytti um lit og best af öllu þá léttist ég og losaði mig við aukakílóin sem höfðu verið að þvælast fyrir mér.“
Þetta heilsuferðalag Birnu hófst fyrir jólin 2010 og fyrst um sinn var hún mjög ströng við sjálfa sig. En svo hefur hún aðeins slakað á.
„Í dag fæ ég mér bjór og vín þegar mig langar, kökur í veislum og nammi af og til. Ég finn bara svo vel fyrir því eftir á að ég geri lítið af því. Ef ég fæ mér nammi fæ ég hausverk, verð rosalega þreytt og ómöguleg og svo svöng og langar í miklu meira.
Annað sem gerist líka er að bragðskynið breytist. Í dag finnst mér sykraður matur vondur og ég get ekki fyrir mitt litla líf drukkið gos. 70% súkkulaði er líka allt í einu orðið gott.
Ég er náttúrlega enginn næringrafræðingur en fyrir mitt leyti er sykur það versta sem ég læt inn fyrir mínar varir. Sá sem ætlar að hætta að borða sykur þarf að læra hvað gerist í líkamanum þegar við borðum sykur og einföld kolvetni. Fólk þarf að breyta hugarfarinu gagnvart mat og drykk og lesa sér til um þetta frá A til Ö áður en farið er út í breytingarnar því sykur er ekki bara sykur.“