Ný sænsk rannsókn sem birt var af British Medical Journal á þriðjudag bendir til þess að mjólk sé alls ekki góð fyrir fólk á miðjum aldri. Úrtak rannsóknarinnar náði til yfir hundrað þúsund einstaklinga yfir 20 ára tímabil.
Niðurstöðurnar voru mjög sláandi en þar kom í ljós að þeir sem drukku reglulega mjólk voru líklegri til að deyja úr hjartasjúkdómum eða krabbameini. Hjá þeim konum sem tóku þátt voru beinbrot mun algengari hjá þeim sem drukku reglulega mjólk.
Fylgst var með 60 þúsund konum og 45 þúsund körlum, en konurnar voru á aldrinum 39-74 ára og karlarnir 45-79 ára þegar rannsóknin hófst. Niðurstöður rannsóknarinnar voru mest sláandi hvað konur varðar en þær voru tvöfalt líklegri til að deyja af völdum hjartasjúkdóma sem tengdir voru mjólkurdrykkju.
Þá leiddi rannsóknin í ljós þvert á það sem haldið hefur verið fram að þeir sem drekki mjólk brjóti síður bein því hjá konum var mjólkurneysla einmitt tengd aukinni tíðni mjaðmagrindarbrota.
„Konur sem drukku þrjú glös af mjólk á dag voru í 90% meiri hættu á dauða, 60% meiri hættu á mjaðmagrindarbroti og 15% meiri hættu á beinbroti miðað við þær sem drukku minna en eitt glas,“ sagði Karl Michaelsson, prófessor og höfundur skýrslunnar.
Höfundar skýrslunnar og lýðheilsustofnun Svíþjóðar hyggjast ekki breyta næringarráðleggingum sínum vegna rannsóknarinnar því fyrir henni liggi ekki nægilegar sannanir til að breytinga sé þörf. Rannsóknin stangast þó verulega á við aðrar rannsóknir á mjólkurneyslu fólks.