Óhófleg sykurneysla hefur ýmsar slæmar afleiðingar og er talin orsakavaldur margra sjúkdóma. Þetta vita flestir sem neyta sykurs en það er hægara sagt en gert að forðast allan sykur því hann er afar ávanabindandi.
Breski sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver vill að bresk yfirvöld grípi í taumana og skattleggi sykur eins og tóbak.
Sykruð matvæli geta valdið faraldri alveg eins og reykingar, því ætti að skattleggja sykur eins og tóbak að mati Olivers. Hann hefur áhyggjur af þeim kostnaði sem fellur á breska heilbrigðiskerfið vegna óhóflegrar sykurneyslu almennings. Hann vill þá að Bretar feti í fótspor Frakka sem tóku upp sykurskatt árið 2011.
„Sykur er klárlega næsti óvinurinn. Hann er næsta tóbakið, án efa, og þessi iðnaður ætti að óttast. Sykur ætti að skattleggja eins og tóbak og annað sem getur hreinlega eyðilagt líf fólks,“ sagði Oliver í viðtali við Daily Mail.
Sykurskattur var tekinn upp á Íslandi árið 2009 en í fjárlagafrumvarpi 2015 kemur fram að gert sé ráð fyrir að sykurskattur verði felldur brott 1. janúar 2016.