Hin 27 ára Tawny Willoughby greindist fyrst með húðkrabbamein þegar hún var 21 árs. Willoughby er undir ströngu eftirliti í dag og þarf að jafnaði að láta skera burt bletti á 6-12 mánaða fresti.
Willoughby fór illa með húð sína á sínum yngri árum, hún fór í ljós og lá í sólbaði. Til að vekja athygli á hættunni sem fylgir því að stunda ljósabekki birti hún sjálfsmynd á Facebook. Myndin hefur hlotið mikla athygli og einhverjir vilja láta fjarlægja hana því hún þykir ógeðsleg, á henni sést slæmt ástand húðarinnar vel.
„Ef einhver þarf smáhvatningu til að hætta að liggja í ljósabekkjum þá kemur hún hérna. Svona lítur meðferð við húðkrabbameini út,“ skrifaði Willoughby.
„Ég lá [í ljósabekk] að meðaltali fjórum eða fimm sinnum í viku. Ekki láta sólböð verða til þess að þú sjáir ekki börnin þín vaxa úr grasi,“ segir Willoughby, sem á tveggja ára son.
Ljósmynd Willoughby hefur verið deilt tæplega 60.000 sinnum og hefur eflaust vakið marga til umhugsunar.