„Við Colleen eigum ýmislegt sameiginlegt og síðan hvor okkar sérkenni,“ segir Solla Eiríksdóttir þegar hún er spurð um hráfæðiskokkinn Colleen Cackowski sem er á leið til Íslands til að kenna Íslendingum að matbúa hráfæðisrétti á Gló.
„Við byrjuðum báðar í makróbíótík og fórum síðan yfir í hráfæði. Við stunduðum báðar nám við sama hráfæðiskólann í Kaliforníu og höfum báðar unnið með David Wolfe. Á meðan ég hef verið að reka veitingastaði síðastliðin 20 ár og búa til uppskriftir fyrir staðina mína hefur hún verið freelance. Hún varð til dæmis eftir á hráfæðisskólanum og var hægri hönd skólastjórans í tvö ár. Hún hefur unnið sem einkakokkur fyrir fullt af fólki, haldið námskeið, skipulagt stórar uppákomur í heilsuheiminum og starfað náið með Davids Wolfe í fjölda ára og hannað með honum uppskriftir og fleira. Hún er mikið menntuð í jurtalækningum og hennar sérsvið er að búa til alls konar drykki og seyði úr jurtum og plöntum samkvæmt gömlum kínverskum og ayurvedískum hefðum,“ segir Solla.
Á námskeiðinu ætlar Colleen Cackowski að kenna matreiðslu á gómsætum hráfæðisréttum og grænmetisréttum sem eiga það sameiginlegt að vera með lágan sykurstuðul.
Sykurneysla í heiminum í dag hefur tvöfaldast síðustu 35 ár og er þekktur valdur að mörgum sjúkdómum. Cackowski ætlar að leiða gesti námskeiðsins í sannleikann um það hvernig hægt er að borða hollan og góðan mat án þess að leggja heilsuna að veði. Á námskeiðinu kennir hún nemendum að gera holla eftirrétti, millimál og mat úr besta fáanlega hráefni og að sjálfsögðu er allt sykurlaust. Auk þess lumar hún á mörgum góðum trixum til að vinna á sykurlöngun og hjálpa fólki að ná markmiðum sínum. Námskeiðið fer fram á Gló hinn 6. júní milli 12 og 15.