Óþekkjanleg eftir photoshop

Líkamsræktarþjálfarinn Sadie Lincoln.
Líkamsræktarþjálfarinn Sadie Lincoln. Skjáskot af Mindbodygreen.com

Sadie Lincoln, sem starfað hefur sem líkamsræktarþjálfari í rúma tvo áratugi, lýsir reynslu sinni af útlitsdýrkun í grein á Mindbodygreen.

Þrátt fyrir að ég hafi vitað að allar ljósmyndir af fyrirsætum og íþróttamönnum sem við sjáum eru unnar, eða photoshoppaðar á einhvern hátt óraði mig ekki fyrir hversu róttækar breytingarnar eru fyrr en ég sá myndir af sjálfri mér sem birta átti opinberlega.

Hvaða kona er þetta?

Ég hafði séð fullt af fólki í heilsu og íþróttageiranum fara í myndatökur og taldi mig því vera að taka rétta ákvörðun. Þegar ég hins vegar sá myndirnar þekkti ég sjálfa mig varla. Búið var að grenna mig hér og þar, bæta við mig á öðrum stöðum, laga hárið, slétta úr hrukkum og jafnvel breyta augnlitnum mínum. Móðir mín þekkti mig ekki einu sinni á myndunum.

Ég komst í mikið uppnám. Í fyrsta lagi þóttu mér myndirnar óhugnanlegar og í raun fáránlegar. Síðan fór ég að efast um sjálfa mig og velta fyrir mér hvort ég væri of gömul, hvort augun í mér væru of lítil og hvort minn náttúrulegi líkami væri ekki nógu góður.

Síðan varð ég reið. Fyrst við mig sjálfa því ég leyfði þessu að gerast, fyrir að hafa treyst þessu fólki til að kynna mig og fyrirtækið mitt. Ég var sjálfri mér reið fyrir að hafa fallist á að stilla mér svona vandræðalega upp. En fyrst og fremst fannst mér ég vera óheiðarleg. Þessar ljósmyndir höfðu ekkert með mig, eða það sem ég stend fyrir, að gera.

Ég hef alltaf lagt ríka áherslu á það að líða vel í eigin skinni. Myndirnar gerðu það að verkum að mér leið eins og algerum svikahrappi. Þær stóðu fyrir öllu sem ég tel rangt við líkamsræktargeirann.

Bjöguð viðhorf til heilsu og fegurðar

Heilsugeirinn hefur dregið upp mjög nákvæma og óraunhæfa mynd af því hvað það telst að vera hraustur og fallegur. Ég starfa innan heilsugeirans, en þó þykir líkami minn ekki nógu góður.

Hvaða skilaboð erum við þá að senda? Í stað þess að stunda hreyfingu til að líða vel erum við hvött til að stunda líkamsrækt til að líta út eins og einhver annar. Ef það er markmiðið erum við dæmd til að okkur mistakist.

Þessar kröfur eru ekki bara óraunhæfar, heldur beint út sagt hættulegar. Því við það að eltast við hinn „fullkomna“ og „heilbrigða“ líkama tapar fólk oft heilsunni.

Hvað er til ráða?

Ég vil hvetja ykkur til að stunda líkamsrækt, ekki til að líta betur út, heldur til að líða vel. Ég vil hvetja ykkur til að hreyfa ykkur og lifa heilbrigðu lífi til að fá aukna orku og læra að þekkja eigin líkama. Ekki eltast við fyrirfram gefnar hugmyndir og láttu þér líða vel í eigin skinni. Síðast en ekki síst, mundu að hrukkur eru ekki óvinur þinn, það eru forréttindi að fá að eldast.

Vinstri myndin er photoshopuð. Sú sem er hægra megin er …
Vinstri myndin er photoshopuð. Sú sem er hægra megin er óunnin. Skjáskot af Mindbodygreen.com
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda