Það getur verið lýjandi að eiga maka sem hrýtur, enda góður nætursvefn nauðsynlegur.
Margir þekkja það að dangla í betri helminginn þegar hann hefur upp raust sína á nóttunni, en það leysir svo sem engan vanda.
Það eru þó ýmsar leiðir færar sem vert er að prufa, en heilsuvefurinn Prevention tók saman nokkur ráð.
Hugaðu að heilsunni
Einstaklingar sem hrjóta eru í mörgum tilfellum í yfirþyngd, þó að þetta sé alls ekki algilt. Þetta verður gjarnan til þess að öndunarvegur þeirra þrengist, sem getur orsakað hrotur. Það er því gott ráð að huga betur að heilsunni og reyna að léttast um nokkur kíló ef hrotur eru farnar að gera vart við sig.
Drekktu nóg vatn
Gott er að venja sig á að drekka nægt vatn yfir daginn til þess að koma í veg fyrir að hálsinn þorni á nóttunni.
Passaðu upp á mataræðið
Ekki er gott að borða seint á kvöldin, áður en haldið er í háttinn. Þá er einnig gott að takmarka neyslu á mjólkurvörum þar sem þær eiga til að auka myndun slíms, sem síðan getur þrengt öndunarveginn og valdið hrotum.
Settu þig í stellingar
Þeir sem sofa á hliðinni hrjóta mun minna heldur en þeir sem sofa á bakinu eða maganum.