Fjölmiðlakonan Hulda Bjarnadóttir færði kvenlækningadeild Landspítalans, 21 A, sjö Samsung-spjaldtölvur, fyrir hönd Brakka (sem eru samtök BRCA-arfbera), eftir að hafa legið inni þegar brjóst hennar voru fjarlægð. Hulda var skorin upp í síðustu viku en hún er BRCA-arfberi.
„Ég tengdi aldrei við boðskap Angelinu Jolie um brjóstnám fyrr en mömmu var tilkynnt að hún væri BRCA-arfberi. Það útskýrði heil ósköp og það útskýrði ótímabær andlát og dauða heilu systrahópanna í fjölskyldunni. Við systkinin létum tékka á okkur og um leið tók ég mína ákvörðun. Það að hafa jafnagressívt krabbamein þýðir að mér eru gefnar allt að 90% líkur á að takast á við brjóstakrabba upp úr fertugu og það sem verra er, að þegar hann er greinanlegur þá er hann oft orðinn að illvígum ólæknandi sjúkdómi. Þetta var því aldrei spurning hjá mér og ég hef ALDREI efast. Vona jafnframt að allir fái að vita sem vilja. Það er einfalt að fá úr því skorið, ein blóðprufa,“ segir Hulda.
Þegar Hulda var inni á spítalanum fannst henni hægt að hækka þjónustustig við sjúklingana hvað varðar afþreyingarhlutann, enda flestir rúmliggjandi að mestu. Herbergin eru mjög misvel tækjum búin og lenti hún á einu þar sem þrír deildu einu gömlu túbusjónvarpi og var fjarstýringin týnd. Á sumum herbergjum er ekkert sjónvarp.
„Mér fannst alveg nóg álag á staffinu til þess að við værum ekki að hringja bjöllunni til að biðja þau um að skipta um stöð eða hækka og lækka. Ekki mátti ég lyfta höndum og ég ákvað því bara að gera eitthvað í málunum, enda tími kominn á nýrri tækni og fleiri afþreyingarmöguleika. Og þetta heyrnartæki sem maður á að hlusta á útvarpið í tollir ekki einu sinni á manni og þetta er úr sér gengið. Það eru nokkur herbergi komin með spjaldtölvur en það er ekki nóg,“ segir Hulda.
Hulda er mikil framkvæmdakona og í gegnum góðan vin fékk hún Tæknivörur með sér í lið sem ákváðu að gefa sjö spjaldtölvur. Í þessum Samsung-spjaldtölvum er nú hægt að horfa á Sjónvarp Símans því fyrirtækið gaf áskrift. Auk þess er hægt að lesa Morgunblaðið á rafrænu formi en Árvakur, eigandi mbl.is, gaf netáskrift að blaðinu.
„Okkur langaði bara að gleðja þær konur sem verða inni yfir jól og áramót enda extra lengi að líða tíminn þá, án ástvina og allt það,“ segir Hulda í samtali við Smartland.
„Þetta muni koma til með að bæta til muna þá afþreyingu sem stendur konum til boða meðan á dvöl þeirra á kvenlækningadeild 21A stendur og vonandi stuðla að betri líðan/upplifun. Við erum afar þakklát fyrir þessa höfðinglegu gjöf,“ segir Hrund Magnúsdóttir, deildarstjóri kvenlækningadeildar 21A.
Hulda er einn af stofnfélögum Brakka-samtakanna sem eru samtök BRCA-arfbera. Formaður Brakka er Inga Lillý Brynjólfsdóttir. Hægt er að lesa sér meira til inni á Facebook-síðu samtakanna.