„Ég var alltaf að drulla yfir sjálfan mig“

Helgi Jean Classen, eigandi vefjarins Menn.is, er 14 kg léttari eftir að hafa breytt um lífsstíl. Þessi vegferð hófst fyrir fjórum árum en þá var hann ekki staddur á nógu góðum stað. 

„Í janúar fyrir fjórum árum var ég þunnur að borða hraun, popp og Pepsi Max eftir miðnætti. Ég datt í það sirka einu sinni í viku. Ég svaf oft í tólf tíma og lagði mig svo aukalega síðdegis út af orkuleysi. Ég var svo í stanslausu niðurrifi á sjálfum mér fyrir að hafa ekki betri stjórn á lífi mínu,“ segir Helgi. 

Þessi mynd var tekin af Helga fyrir um fjórum árum …
Þessi mynd var tekin af Helga fyrir um fjórum árum eða áður en hann tók sjálfan sig í gegn.

Helga er minnisstætt að hafa horft í spegil á mánudagsmorgni í janúar 2013 og fengið kalda tusku í andlitið.

„Ég var 31 árs og leið eins og sextugum karli. Ég var metnaðarlaus, hafði ekki efni á hamborgaratilboði, var með hækkandi kollvik, loðna bumbu, bauga og þrútið andlit. Þá ákvað ég að þetta væri bara komið gott hjá mér,“ segir hann. 

Helgi byrjaði á að hætta í svokölluðum jójó megrunum.

„Ég var eins og harmonikka, fitnaði og grenntist á víxl, alltaf pínandi sjálfan mig í megrunarátak. Taldi klukkutímana sem ég var í svelti – og endaði alltaf á að gefast upp og tapa fyrir sykurskrímslinu. Í þessu ástandi leið mér ekki vel og ég var hálfpartinn að drepa mig á þessu. Fyrsta skref var að líta á mataræði sem lífsstíl en ekki kapphlaup.“

Helgi er kominn á fullt í heilsuna.
Helgi er kominn á fullt í heilsuna.

Eftir að hafa gengið vel að glíma við sykurpúkann fór svo áfengi óvænt sömu leið.

„Með betri líðan fór ég að að fikta við að verða edrú, eins og ég segi oft. Ég byrjaði á mánaðarpásu frá áfengi – og hún stendur enn þrem árum síðar. Líðanin er sjúklega góð. Hann hvarf þessi kvíði sem var oft að narta í mann. Aðgerðahnúturinn, sjúkdómaóttinn og allur sá blessaði kokteill. Fyrir um ári síðan sigraðist ég svo á Pepsí Max fíkninni – sem ég hélt að myndi aldrei gerast,“ segir hann. 

Lykillinn að öllu var að byrja að tala fallega við sjálfan sig.

„Ég var alltaf að drulla yfir sjálfan mig – án þess að fatta það einu sinni. Með því að byrja að tala fallega við sjálfan mig, eins væmið og það nú hljómar, þá fór ég að blómstra á öllum sviðum. Ásamt því hreyfði ég mig reglulega, stundaði köld böð, fór að taka djúsföstur sem gjörbreyttu sýn minni á mat og orku. Hætti að vera „B-týpa“ og lagaði svefninn úr þessari óreglu sem tekur mikinn toll,“ segir Helgi. 

Helgi Jean Classen helköttaður á ströndinni.
Helgi Jean Classen helköttaður á ströndinni. mbl.is

Helgi segist hafa farið til sálfræðings sem hafi hjálpað honum mikið. Svo fór hann að mæta á fyrirlestra á Gló og segir að Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringaþerapisti og Ásdís Ragna grasalæknir hafi haft mikil áhrif á hann. Auk þess fór hann að stunda svett hjá listamanninum Tolla. 

„Það er svo mikið af áhugaverðu fólki og hlutum í gangi þarna úti – sem geta hjálpað okkur,“ segir hann. 

Þegar ég spyr Helga hvað hafi breyst við þetta segir hann að líf hans hafi tekið U-beygju. 

„Fyrst breytti ég lífsstílnum og svo breytti lífsstíllinn mér. Þegar maður upplifir frelsið sem fylgir því að vera ekki endalaust háður sykri, áfengi og niðurrifi þá breytist allt – og þig langar ekki til baka. Þannig er ég á frábærri braut í dag.”

Helgi er nú ásamt öðru góðu fólki búinn að skipuleggja fyrirlestrardag í Jógastöðinni Sólir þar sem heilsan verður í forgrunni. 

„Mig langar til að deila því með fólki sem umbreytti lífi mínu. Ég er því búinn að skipuleggja geggjaðan dag ásamt sex öðrum snillingum. Þemað er einfalt: Hvernig verður þú besta útgáfan af sjálfum þér?“

HÉR er hægt að fá nánari upplýsingar um námskeiðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda