Brynjar Níelsson fór í heilsufarsmælingu í Hreyfingu sem var ekki alveg nógu hagstæð. Boditrax-tækið segir að heilsufarið sé eins og hjá 70 ára manni, en Brynjar er ekki nema 56 ára.
„Boditrax er háþróuð tækni sem mælir samsetningu líkamans og er notað af mörgum virtum heilsustofnunum víða um heim. Með 30 sekúndna prófi færðu niðurstöður um marga mismunandi þætti sem gefa mikilvægar upplýsingar um vöðvamassa, fitu, vatnsmagn, grunnbrennslu og innri fitu. Tækið notar svo tölfræði til að meta ástand þitt miðað við hæð, þyngd, aldur og gefur þér upp líffræðilegan aldur,“ segir Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar.
Brynjar þarf þó ekki að örvænta því með því að byrja að hreyfa sig og taka aðeins til í mataræði sínu getur heilmikið gerst.