Vala Matt gæti borðað franskar í hvert mál

Vala Matt hugsar vel um sig og gætir þess vel …
Vala Matt hugsar vel um sig og gætir þess vel að hvílast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vala Matt geislar af heilbrigði og orku og lætur ekkert stoppa sig þegar kemur að heilsumat, hún elskar samt franskar kartöflur og segist fá sér þær stundum, ekki oft. Hún kann Sollu Eiríks góðar þakkir og segir að hún hafi bjargað heilsunni hjá henni á sínum tíma. Nú er hún með þættina Besti ódýri heilsurétturinn á Hringbraut en í þáttinn fær hún þekkta gesti sem elda af hjartans list það sem þeim finnst ódýrast og best. Ég spurði hana spjörunum úr. 

Hvað gerir þú til að hugsa um heilsuna?

„Ég passa mig á að hafa reglu í þeim heilsumat sem ég borða nærri á hverjum degi. Þannig að ég sleppi ekki úr of mörgum dögum í einu þar sem ég borða ekki hollustu. Ég er löngu búin að komast að því að annars líður mér ekki nógu vel. Ég byrja morgnana með góðum slurk af lýsi sem ég skola niður með nýkreistum appelsínusafa því þannig finn ég ekki lýsisbragðið og nýti betur þau efni sem ég fæ úr lýsinu og svo tek ég líka Omega forte með kalki. Svo fæ ég mér yfirleitt glas af grænum heilsusafa og tek góðan sopa af nýkreistum gulrótarsafa. Ég fer alltaf reglulega í Booztbarinn og kaupi nokkra skammta af Ofursafa sem inniheldur meðal annars spínat, avocado, epli, lime, ananas og engifer, hreinan gulrótarsafa sem þau kreista sérstaklega fyrir mig og svo nýkreistan appelsínusafa. Svo bið ég þau um að setja safana í litlar flöskur sem ég svo frysti þegar ég kem heim og þá á ég dúndur safa fyrir vikuna sem ég get annað hvort hellt í mig heima eða tekið með mér í vinnuna. Það hefur nefnilega verið rannsakað að frostið heldur vel næringarefnunum í matnum og þess vegna er það snilld að eiga alltaf safa í frysti. Svo hendi ég alltaf nokkra daga í viku í hollustuboost með haframúslí og fleiru. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta hefur góð sálræn áhrif á mig að byrja daginn á þessu því þá einhvern veginn kemst ég í hollustugír og á auðveldar með að freistast til að borða eitthvað óhollt sem ég geri þó alltaf við og við nóta bene annars væri lífið dálítið leiðinlegt,“ segir Vala. 

Hvernig mat borðar þú til að líta vel út?

„Ég hef svo oft sagt frá því hvernig hún Solla á Gló breytti lífi mínu með því að kenna mér að búa til hollustuboost sem ég geri alltaf reglulega. Í það set ég fullt af hollustu og meðal annars tröllahafra, haframúslí, möndlur, hörfræ eða hörfræolíu ásamt ýmsu öðru. Möndlurnar og hafrarnir eru til dæmis mjög góð fyrir húðina, því í möndlunum er mikið af E-vítamíni sem margir segja að sé eitt mikilvægasta vítamínið fyrir húðina ásamt C-vítamíni og fleiri vítamínum og möndlurnar eru því oft kallaðar fegurðarmatur. Svo eru þær fullar af kalki sem er auðvitað gott fyrir bein og tennur. Bláberinn mín og krækiberin íslensku eru líka mega góð fyrir húðina og þau set ég alltaf í boostið mitt. Og Hörfræolían og hörfræin eru svo alveg dúndur góð fyrir meltinguna. En ég hef ofurtrú á því að meltingin sé lykillinn bæði að góðri heilsu og einnig góðri húð og það virðast alltaf vera að koma fleiri og fleiri rannsóknir sem styðja það.“

Spáir þú mikið í því hvað maturinn kostar?

„Nei ég hef alltaf passað mig á að spara ekki í hollustumat og ég er alveg sannfærð um að það sparar mér á endanum peninga, því það eykur mín lífsgæði bæði í færri veikindadögum og ferðum á spítala og svo almennri vellíðan. En matur er almennt of dýr á Íslandi og því þarf að breyta.“

Lumar þú á einhverju sparnaðarráði?

„Það sem mér finnst best til þess að spara er að eiga góðan frystiskáp. Ég set meira og minna allar góðar matarleifar í ílát eða frystipoka og geymi í frysti þannig að ég eigi tilbúnar máltíðir úr afgöngum þegar ég þarf. Súpu og sósuafganga er til dæmis æðislegt að eiga í frysti og svo er ég alltaf með íslensk bláber og krækiber og spínat og fleira í frystinum þannig að ég geti gripið í það í boost eða annan mat. Það er mjög lítið sem fer til spillis hjá mér af mat enda þoli ég mjög illa matarsóun.“

Hvað myndir þú aldrei hafa í matinn?

„Ég held ég myndi aldrei hafa þorramat í matinn því það er of lítið í honum sem mér finnst gott.“

Hvað ertu að borða á venjulegum degi?

„Það er eiginlega ekki hægt að segja til um það því ég hef verið að vinna svo mikið af hollustumatar og sælkeraþáttum undanfarin ár að ég er alltaf að borða mjög mismunandi mat. Núna til dæmis þar sem ég er að gera þættina Besti ódýri heilsurétturinn fyrir Hringbraut, er ég stöðugt að fá dásamlegan hollustumat með mér heim eftir tökurnar. Þegar ég er í sjónvarpstökunum borða ég svo yfirleitt það sem verið er að matreiða og svo sem sagt tek ég oftast matarleifar með mér heim og á fyrir næstu daga. Þannig að það er engin regla í því sem ég borða dags daglega nema morgunhollustan sem alltaf er á sínum stað. Ég hef undanfarin ár reynt að hafa það sem reglu að borða ekki seint á kvöldin því það er ekki gott fyrir meltinguna. Eitt trix sem hjálpar mér við það er að bursta tennur frekar snemma um kvöldið og af því ég er svo kvöldsvæf þá nenni ég oft ekki að borða eitthvað seinna um kvöldið og eiga svo þá eftir að bursta tennur aftur fyrir svefninn. Þetta hefur reynst mér mjög vel.“

Uppáhaldsmatur?

„Það er svo merkilegt að í hvert sinn sem ég er spurð að þessu dettur mér alltaf fyrst í hug humar og risarækjur. Ég elska humar og risarækjur. Og svo elska ég góða fiskisúpu. Og eins og svo margir er indverskur og ítalskur matur í miklu uppáhaldi. Í fyrra gerði ég þáttaröð þar sem ég fór í nokkur veitingahús og kíkti meðal annars í eldhúsin til kokkanna og á Caruso gerði kokkurinn þar hann Árni einn besta rétt sem ég hef fengið í mörg ár, en það var einmitt risarækjur steiktar í hvítlauk og chili og svo borið fram með góðu súrdeigsbrauði eða baguette brauði til að sleikja upp ævintýralega góða olíuna. Það var engu líkt. Svo elska ég sósur. Ég er eiginlega alveg forfallinn sósufíkill. Oft finnst mér alveg nóg að borða bara sósuna í réttinum, annað hvort með góðum grjónum, kartöflum, pasta eða góðu brauði. Svo elska ég franskar kartöflur og gæti borðað þær í hvert mál. Franskar kartöflur og góð sósa er eitt af því besta sem ég fæ. Þegar ég vann einu sinni á arkitektastofu í París komst ég að því að það var ekkert mál að borða franskar á hverjum degi því Frakkar drekka rauðvín með matnum og það eru efni í rauðvíninu sem vinna gegn fitunni í frönskunum. En þar sem ég drekk ekki vín verð ég að halda mér við að borða bara franskar einstöku sinnum og það finnst mér mjög miður.“ 

Hvað um hreyfingu, ertu á fullu í ræktinni?

„Ég hef undanfarin ár verið mjög léleg í heilsurækt og ekki hreyft mig mikið nema bara í stöðugum stressþeytingi í vinnunni, en ég er núna að taka mig á og er nýbúin að fá mér kort í World Class og er byrjuð að hreyfa mig aftur og það er alveg með ólíkindum hvað það er gott, ekki bara fyrir líkamann heldur sálina líka og andlega heilsu. Ég fer bæði í tækjasalina og jógað. Þetta er bæði andleg og líkamleg heilsubót og ég finn hvað ég verð miklu hamingjusamari fyrir vikið.“

Hvað gerir þú til að slaka á?

„Það er svo margt. Eitt er þó lykilatriði fyrir mig. Ég hef alltaf átt auðvelt með að hlæja og finna leiðir til þess því það gerist ekki alltaf af sjálfu sér. Maður þarf að leita uppi bæði skemmtilegt fólk og aðstæður til þess að fá góðan skammt af náttúrlegu morfínefni líkamans dópamíni sem myndast við hlátur. Ég er svo heppin að eiga svo skemmtileg systkini og við fáum iðulega hláturskast saman. Og svo á ég nokkra vini sem hittast reglulega þar sem endorfín skammtarnir sem við fáum eru óvenju stórir. Ég elska að hlæja og ég veit að það er ekki bara góð slökun í hlátri heldur er það hreinlega heilsubætandi. Ég leita til dæmis uppi skemmtilegt fólk til að hafa í sjónvarpsþáttunum mínum því mér finnst það ekki bara dásamlega skemmtilegt sjálfri heldur veit ég að skemmtilegir viðmælendur ná að töfra og bæta líf áhorfendanna heima í stofu.“

Fyrir mörgum árum vannstu yfir þig, lærðir þú einhver trix þá sem hafa hjálpað þér í gegnum tíðina?

„Já ég varð að taka allt mitt líf í gegn og breyta alveg mínu lífsmynstri. Það er alveg með ólíkindum hvað við hér á Íslandi erum alin upp við mikla vinnudýrkun. Hér þykir mjög flott að vera svo duglegur að það sé varla tími fyrir nokkuð annað en vinnuna og það kemur auðvitað niður bæði á fjölskyldu og lífsgæðum. Ég var í arkitektanáminu mínu í Kaupmannahöfn og þar kynntist ég því hvernig hægt er að hafa svokallaða Hygge hugsun sem daglegan stíl. Danir voru alltaf að tala um það hvaða dásamlega mat þeir ætluðu að hafa í kvöldmatinn, hvað þeir borðuðu gott kvöldinu áður, hvert þeir væru að fara í frí og hvernig þeir gætu haft það sem skemmtilegast. Vinnan hjá þeim var ekki allur dagurinn heldur var farið snemma heim og reynt að njóta lífsins. Svo hefur náttúrulega margoft komið í ljós í könnunum að vinnuafköstin eru meiri ef dagsverkið er styttra en markvissara. En þegar ég kom heim eftir sex ára dásamlega veru í Danmörku datt ég auðvitað í vinnugeðveikina hér. Ég kynntist og fór að búa með Jóni Óttari Ragnarssyni og fór með honum í geðveikina að búa til nýja sjónvarpsstöð. Nýrnahetturnar spýttu út adrenalíni og streituhormóninu kortisol og ég fékk við það heiftarleg nýrnaköst, en hélt þá bara vinnufundina uppá spítala. Í þessu rugli var ég í þónokkur ár en svo sagði líkaminn endanlega stopp og ég gat ekki meir. Ég þurfti þá fyrst og fremst að minnka vinnuálagið. Stöðug streita og of mikil vinna eyðileggur ónæmiskerfið og þá fara ýmsir sjúkdómar að gerjast. Og ég þurfti líka að taka mataræðið alveg í gegn. Það eina sem hjálpar við þessar aðstæður er minni vinna og meiri slökun og hollari hreinn matur. Þegar það er komið kemur hitt allt af sjálfu sér. Meiri tími í lífsgæði og hamingju.“

Hvað gerir þú til þess að rækta sálina?

„Ég byrja hvern morgun strax og ég vakna á því að taka nokkrar einfaldar öndunaræfingar og þakka svo fyrir allt sem ég hef. Þakka fyrir að eiga heilbrigð börn. Þakka fyrir að vakna sjálf heilbrigð í notalegu rúmi. Bara einfaldur hlutur eins og að þakka fyrir rúmið manns og það að fá að vakna í þessu fallega og friðsæla landi er mjög mikilvægt. Ég lærði þetta fyrir mörgum árum meðal annars af Louise Hay í bókinni hennar You Can Heal Your Life. Hef notað þetta síðan þá með góðum árangri.“

Hvað gerir þig raunverulega hamingjusama?

„Það er þrennt. Í fyrsta lagi að faðma börnin mín, það er ekki til meiri hamingja. Í öðru lagi að hlæja sem oftast. Og í þriðja lagi að stilla hugann með jákvæðni og finna þannig innri ró.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda