Frábært að vera miðaldra

Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, segir að það sé gott að …
Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, segir að það sé gott að vera miðaldra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sífellt fleiri hafa áttað sig á því að lífið um og yfir miðjan aldur getur verið besti tími ævinnar. Það að vera miðaldra er bara hreint ekki eins slæmt og gjarnan var talað um áður fyrr. Eftir miðjan aldur býr fólk yfir auknum þroska og hugarró, hefur oft meiri tíma til að sinna sjálfu sér, áhugamálum og ferðalögum og er að mörgu leyti frjálsara til að gera hvað sem hugurinn stendur til þegar börnin eru farin að heiman,“ segir Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, í sínum nýjasta pistli: 

Hér eru 5 atriði sem vert er að huga að til að gera árin í seinni hálfleik bestu ár ævinnar:

Endurstilltu viðhorfið þitt

Eðli málsins samkvæmt eiga sér stað ýmsar breytingar á líkama og hugarástandi þegar aldurinn færist yfir.  Mögulega þykknar mittismálið og eitt og annað slappast örlítið með tímanum, en þannig er lífið, við breytum því ekki, en á hinn bóginn er sannarlega margt sem við getum haft áhrif á. Jákvætt viðhorf og einbeittur vilji er allt sem þarf til að taka málin í þínar hendur. Fyrsta skrefið gæti verið að endurskoða þitt eigið viðhorf gagnvart því að verða miðaldra? Læturðu e.t.v. stjórnast af fordómum og gamaldags hugmyndum um lífsstíl fólks á besta aldri?  Hvernig væri að setja stefnuna á að hámarka andlega og líkamlega heilsu þína og stjórna því hverjar breytingarnar verða á heilsu þinni og útliti? Það er gott að minna sig reglulega á það að maður ber sjálfur heilmikla ábyrgð!


Forgangsraðaðu tíma fyrir „þínar“ stundir

Eftir fimmtugt hefur fólk gjarnan aukinn „frjálsan“ tíma, þ.e. ekki lengur bundið við að sinna ungum börnum og stóru heimilishaldi. Nú geturðu skipulagt tímann þinn til uppbyggilegra athafna með þig í aðalhlutverki, s.s. farið á æfingu nokkrum sinnum í viku, notið þess að fara í nuddmeðferð, stundað útivist og annað sem gerir líf þitt enn betra og skemmtilegra. „Þínar“ stundir eiga að vera daglegur þáttur í þínum lífsstíl og því ekki að merkja það inn í dagbókina fram í tímann?

Æfingakerfið þarf að stokka upp reglulega

Stundaðu heilsuræktina samviskusamlega og af krafti. Þú þarft að þjálfa allan líkamann, þol, styrk, liðleika og jafnvægi. Á yngri árum komst þú mögulega upp með meira kæruleysi gagnvart líkamsræktinni en eftir fertugt er mikil nauðsyn að halda skrokknum stöðugt við allt árið um kring. Allt of margir æfa of sjaldan, óreglulega eða gera alltaf sömu æfingarútínuna ár eftir ár og botna ekkert í því af hverju enginn sést eða finnst árangurinn. Viljir þú æfa með markvissum hætti og ná árangri ættir þú að leita eftir aðstoð fagfólks til fá æfingakerfi sem hentar þér, þannig nærðu að vinna þig út úr stöðnun. Frábært ráð er t.d. að skerpa æfingarnar með stuttum álagsköflum til að mynda eftirbruna. Líkaminn losar sig þannig við fitu mun hraðar og þú munt von bráðar sjá í speglinum lögulegu línurnar sem þú hefur e.t.v. ekki séð lengi. Með þessu móti verður þinn fimmtugi plús skrokkur uppfullur af lífi og krafti áður en þú veist af.

Matarvenjur  magnið og gæðin er kjarninn

Það skiptir máli hvað þú setur ofan í þig, það er augljós staðreynd. Mataræðið er geysilega mikilvægt á öllum aldri og ekki síst eftir fimmtugt þegar líkaminn er viðkvæmari að mörgu leyti, þolir ekki allt sem þú e.t.v. gast áður boðið honum upp á. Sneiddu sem mest hjá sykri og unnum matvælum, hafðu grænmetið sem oftast í lykilhlutverki á disknum þínum og gættu þess að fá nægilegt magn af prótíni úr fæðunni til að halda vöðvum þínum í toppformi.

Leggðu af ósiði, s.s. að narta í sætindi eftir kvöldmat. Með aldrinum minnkar hitaeiningaþörfin og er ekki sú sama og á yngri árum þegar líkaminn var virkari og efnaskiptin hraðari. Kvöldnasl er vandamál hjá mjög mörgum sem leggjast í sófann eftir kvöldmat og launa sér amstur dagsins með óhollu gúmmelaði. Slíkt getur orðið fastur vani sem þarf að brjóta upp með annarri hollari venju, þ.e. að leggjast ekki í sófann eftir kvöldmat, fara heldur í göngutúr, leggjast í heitt bað, skreppa í sund eða annað skemmtilegt. Ef þú vilt létta á mittismálinu er einfaldlega nauðsynlegt að endurskoða matarvenjur og vanda valið á því sem þú borðar, hollt, heilnæmt og í hæfilegu magni.


Betra er að verða fimmtugur en ekki!

Þú ert ekki unglamb lengur. Líkami þinn er að ganga í gegnum breytingar, sjónin er ekki eins góð og áður og kroppurinn ekki eins spengilegur. Hættu að líta í baksýnisspegilinn og svekkja þig á því sem ekki er eins og var. Taktu heldur ákvörðun um að taka á móti hverjum degi með gleði og þakklæti yfir því sem er jákvætt. Þú ert hér í fullu fjöri og ekkert annað að gera í stöðunni en að þakka fyrir líkamann sem kemur þér í gegnum daginn. Þetta heitir að aðlaga sig breyttum aðstæðum með jákvæðu viðhorfi.

Að lokum

Það er ljóst að líkaminn þarf aðeins meira „viðhald“ en áður og mikilvægara en aldrei fyrr að sinna heildrænni sjálfrækt með skipulögðum hætti. Áætlaðu tíma fyrir heilsurækt, slökun og streitulosun og það sem veitir þér vellíðan og uppfyllir þínar þarfir. 
Gefðu þér tíma til að njóta og bara vera til. Njóttu þess að slaka á, finndu þér rólegan stað til að lesa, hlusta á góða tónlist og loka augunum, fara í göngu og upplifa það sem fyrir augu ber eða gera slakandi jóga og teygjuæfingar. Gleði, hamingja og lífsfylling er líkleg til að vera til staðar þegar við erum í góðu jafnvægi og erum sátt í eigin skinni. Hleyptu ást, gleði og hlátri inn í líf þitt daglega. Finndu innri kraftinn í þér á hverjum degi og blómstraðu á þínum forsendum á hvaða aldri sem er.

agusta@hreyfing.is www.hreyfing.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda