Flest fólk mætir ekki í vinnu þegar það er er með háan hita eða er með gubbupest. Það þarf hins vegar ekki bara að hlúa að líkamlegu hliðinni heldur líka andlegu. Það getur verið nauðsynlegt að hringja sig inn veikan og taka persónulegan dag þegar andlega hliðin er ekki upp á sitt besta.
Women's Health tók saman átta atriði sem gefa í skyn að kannski sé kominn tími á að taka sér persónulegan dag og vinna í sjálfum sér.
Þú ert úrvinda og getur ekki sofið
Fólk getur orðið örmagna af þreytu þegar það er búið að vinna of mikið. Það getur ekki bara leitt til þess að fólk sofi mikið heldur einnig gert það að verkum að fólk á í erfiðleikum með að sofna. Ef þetta á við um þig getur verið kominn tími á að hringja sig inn veikan og reyna að sofa út, leggja sig á daginn og fara snemma sofa. Svefninn er gífurlega mikilvægur fyrir bæði líkamlega og andlega heilsu.
Þú ert kvíðnari en vanalega
Kvíði getur komið fram með mismunandi hætti, meðal annars með kvíðaköstum. Kvíði getur einnig leitt til líkamlegra einkenna eins og þess að eiga erfitt með að anda. Ef þú ert kvíðnari en vanalega getur verið að hugurinn þurfi smá stund til þess að anda. Þá getur verið gott að taka sér veikindadag og gera eitthvað slakandi eins og að fara í nudd, stunda jóga, anda djúpt og hugleiða.
Þú getur ekki einbeitt þér
Stundum er einfaldlega of mikið að gera í vinnunni og heima fyrir. Þetta getur leitt til þess að fólk gerir hugsunarlaus mistök. Með því að taka veikindadag getur fólk komið hugsunum sínum á rétta braut og endurstillt fókusinn.
Þegar þér líður illa
Hvað sem það er sem veldur vanlíðan þá er það ekki til þess að hjálpa fólki að standa sig vel í vinnunni. Í þessum tilvikum getur verið gott að taka sér veikindadag og gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggilegt eins að horfa á fyndna kvikmynd eða lesa góða bók.
Þú pirrast auðveldlega
Það eiga það allir til að lenda í rifrildi en þegar fólk er byrjað að lenda í rifrildum við fjölskyldu, vini eða vinnufélaga út af minnsta tilefni gæti verið kominn tími á það að hringja sig inn veikan, slaka á og róa taugarnar.
Þú losnar ekki við kvefið
Ef þú losnar ekki við haustkvefið getur það verið merki um að líkaminn sé að segja stopp. Endurtekið kvef og aðrir líkamlegir sjúkdómar eru merki um að líkaminn þurfi á hvíld að halda.
Þér líður eins og þú sért í hægspólaðri kvikmynd
Fólk á það til að drekka fleiri og fleiri kaffibolla til þess að koma sér í gegnum daginn. Það gæti verið betra að taka einn veikindadag og hlaða batteríin.
Þú ert ótengd/ur
Ef það er eitthvað sem lætur þér líða eins og þú sért ekki í tengslum við umheiminn þá er það að stara á tölvuskjáinn átta tíma á dag með skipulagslista fyrir framan þig sem þú nærð ekki að klára. Þegar það er of mikið að gera á fólk það til að einangra sig sem getur haft neikvæð áhrif á andlegu hliðina. Það getur verið endurnærandi að taka sér persónulegan dag og nýta tímann og eiga félagsleg samskipti.