Lágkolvetnamataræði hefur verið vinsælt undafarin ár en kúrar eins og Paleo- og Ketó-kúrinn flokkast þar inn í. Þrátt fyrir að það geti verið gott að sneiða fram hjá kolvetnum þá er lífið ekki svona svart og hvítt og kolvetni ekki alslæm. Women's Health fór yfir hvað fólk ætti ekki að sleppa að borða þegar kolvetni eru annars vegar.
Kolvetni eru meðal annars aðalorkugjafi og hjálpa líkamanum til þess að vinna úr fitu. Næringarfræðingurinn Karen Ansel segir að það sé erfitt að fá steinefnið kalíum á sumum þessara lágkolvetnakúrum þar sem kartöflur, ávextir, baunir og mjólk eru bönnuð. „Grænt grænmeti, tómatar og lax er góð leið, en samt, það er erfitt að fá það sem við þurfum á hverjum degi,“ segir Ansel.
Það eru ekki allir sérfræðingar sammála en flestir eru þó sammála um það að fólk ætti ekki að sneiða fram hjá grænmeti og ávöxtum. Ansel bendir á að það hafi enginn orðið of feitur við það að borða of mikið af gulrótum. Hefur hún áhyggjur af því að fólk hætti að borða gulrætur vegna kolvetnanna.
Það er því í lagi að sneiða fram hjá hvítu brauði og pasta sem innihalda mikið kolvetni en grænmeti og ávextir ættu að vera á matseðlinum hjá öllum. Fyrir þá sem hafa áhyggjur af kolvetnainntökunni er hægt að velja grænmeti og ávexti sem innihalda minni kolvetni. Í stað þess að borða banana og mangó er hægt að fá sér frekar ber eða ferskjur. Í staðinn fyrir kartöflur og rauðrófur er hægt að fá sér tómata, agúrku, papriku eða blómkál.