Stærsta skrefið að henda of litlum fötum

Aníta Rún Guðnýjardóttir.
Aníta Rún Guðnýjardóttir. Ljósmynd/Daníel Þór Hafsteinsson

Aníta Rún Guðnýjardóttir er nýorðin þrítug og eignaðist þrjú börn á þremur árum. Hún bloggar nú á Lady.is, er söngkona, dagforeldri og rekur fyrirtækið Sassy.is. Aníta Rún sýnir líkama sinn eins og hann er á samfélagsmiðlum en hún þurfti að vinna fyrir sjálfstraustinu. 

Aníta Rún hugsar um líkama sinn eins og hann sé töff þrátt fyrir allt, aldur og fyrr störf eins og hún orðar það. 

„Líkami minn hefur lagt mikið á sig síðustu ár og það síðasta sem hann þarf er að ég sé að rakka hann niður. Það er ekkert grín að ganga með og fæða þrjú börn, endalausar brjóstagjafir, grindargliðnun og þess háttar síðustu árin og á líkami minn tíu rokkstig skilið,“ segir Aníta Rún ánægð með líkama sinn. 

Aníta Rún er ánægð með það sem líkami hennar hefur …
Aníta Rún er ánægð með það sem líkami hennar hefur gefið henni. Ljósmynd/Aðsend

Var dugleg að byggja sig upp

Margar konur eiga erfitt með að taka myndir af sér léttklæddum, hvað þá birta myndirnar á samfélagsmiðlum. Hefur þú alltaf verið með þetta sjálfstraust?

„Heldur betur ekki. Þetta hefur verið í kringum átta ára löng barátta. Ég hef verið 66 kíló og ég hef verið 92 kíló. Ég hef tekið tímabil þar sem mér finnst allt ómögulegt og þá sérstaklega þegar ég var ófrísk, enda kannski alveg eðlilegt með allan hormónarússíbanann sem er í gangi.“

Anítu Rún finnst að allar konur eigi að fá að deila myndum af sér án þess að fá leiðinleg skilaboð um hvernig sem þær líta út.  

„Það er samt alveg áberandi skipting í þessu öllu saman. það er eins og ef fituprósentan þín er undir einhverju ákveðinni prósentu þá ertu glenna eða drusla að deila myndum af þér fáklæddri. En ef hún er yfir einhverri prósentu þá ertu kúl, hugrökk og mögnuð. Það er alveg stórfurðulegt.“ 

Aníta Rún er sátt í eigin skinni.
Aníta Rún er sátt í eigin skinni. Ljósmynd/Aðsend

Undanfarin ár hefur Aníta Rún unnið markvisst að því að byggja sig upp. Hún segist hafa valið að vera sína besta vinkona. 

„Ég viðurkenni alveg að ég þarf að hysja upp um mig buxurnar alla daga og vera með rétt hugarfar. Passa mig hvernig ég tala við mig. Eitt stærsta skref sem ég tók var að henda öllum fötum sem voru of lítil á mig út úr skápnum, þá er engin pressa á mér lengur að keppast við að komast í þau aftur.“

Slit eru kúl

Á myndum sem Aníta Rún birtir af sér á samfélagsmiðlum sínum er hún óhrædd við að sýna líkama sinn eins og hann er. Hún er ekki að reyna að fela eitthvað eins og slit eða appelsínuhúð. Hún segir slíkt vera hluti af því að vera til. 

„Slitin mín sjást nánast ekkert og þau sem eru eftir eru bara kúl. Mér þykir ótrúlega vænt um þau og ég man þegar ég fór í sund nýbúin að eignast mitt fyrsta barn þá reyndi ég að fela mig og slitin eins og ég gæti en núna finnst mér það bara heiður að fá að bera þessi ummerki.“

Hvaða ranghugmyndir hafa konur um sjálfar sig?

„Nú get ég ekki svarað fyrir allar konur þarna úti en ég veit að mínar ranghugmyndir hafa verið að ég sé minna verðug því þyngri sem ég er, sem er bara algjört bull. Mér finnst konur í stærð sex eða stærð 20 ekkert minna eða meira verðugar en ég. Við erum allar jafnar og eigum allar að vera góðar við hver aðra.“ 

Aníta Rún hvetur konur til að vera góðar hver við …
Aníta Rún hvetur konur til að vera góðar hver við aðra. Ljósmynd/Daníel Þór Hafsteinsson

Aníta Rún er lítið að skipta sér af því hvernig aðrar konur líta út. 

„Ef konur vilja vera eins og „herðatré“ þá kemur mér það ekki við. Konur eiga bara að fá að líta út eins og þær vilja í friði. Hvort sem kona er grönn eða ekki þá er það hennar líkami og allar eiga skilið sömu virðinguna án fordóma.“

Að gefa skít í hvað öðrum finnst

Hvaða hlutverk leika samfélagsmiðlar í þessari umræðu? 

„Það er allt gott í hófi. Þó svo að ég sé sátt í eigin skinni finnst mér leiðinlegt að þurfa að titla það sem eitthvað ákveðið. Ég er heilsuhraust og hamingjusöm, það er það sem skiptir máli. Mér finnst ég ekki þurfa að drekkja mínum fylgjendum í líkamsvirðingartali, ég vil frekar leyfa myndum og myndskeiðum að tala. En vissulega er frábært að sjá fleiri og fleiri konur vera sáttar í eigin líkama. Svo lengi sem konur eru hvetjandi fyrir aðrar og byggja hver aðra upp, við þurfum fleiri þannig konur. 

Að vera sáttur í eigin líkama er pínu bara að gefa skít í hvað öðrum finnst. Ég er það upptekin manneskja að ég hef bara ekki tíma til að spá i því hvað öðrum finnst. Þegar ég sýni mínum viðskiptavinum til dæmis nýjar aðhaldsvörur eða nærföt þá geri ég það bara án „filter“. Ég hef ekkert að fela, svona er ég bara og hvað?

View this post on Instagram

I am brave, I am bruised I am who I'm meant to be, this is me🖤 #freeallbodies @lindexiceland

A post shared by Aníta | Lady.is (@anitarg) on May 11, 2020 at 2:44pm PDT

Ég fæ eflaust fullt af skít á mig án þess að ég fái að heyra af því en það er ekki mitt mál, það er þeirra mál. Ég vona innilega að allir fái það frelsi að vera þau sem þau eru. Ég vona innilega að ég fái líka hrós fyrir fáklæddu myndirnar mínar ef eða þegar ég er komin í kjörþyngd,“ segir Aníta að lokum og hvetur konur til að vera góðar við hver aðra, sama hvernig þær eru vaxnar. 

Orð Anítu Rúnar má vel heyra í lagi sem hún tók upp nýlega. Aníta Rún fékk tíma í hljóðveri í þrítugsafmælisgjöf og tók upp lagið „This Is Me“ úr myndinni The Greatest Showman. Hún segist hafa ákveðið að velja lagið þar sem hún tengir við það. Hægt er að hlusta á lagið í flutningi Anítu Rúnar í spilaranum hér að neðan og sjá vel valdar myndir með.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda