Byrjaði að lyfta og hætti á svefnlyfjum

Birna Hannesdóttir Aðsend
Birna Hannesdóttir Aðsend

Birna Hann­es­dótt­ir, skóla­stjóri í Tálkna­fjarðarskóla, eignaðist fimm börn á 11 árum. Hún býr á Patreksfirði ásamt manni sínum Ásgeiri Sveinssyni og börnum. Í mörg ár fór öll henn­ar orka í að sinna námi, heimili og eign­ast börn. Hún var byrjuð að taka lyf vegna svefn­vanda­máls og maga­verkja en er nú hætt því eft­ir að hún byrjaði að stunda lyftingaæfingar og borða hollt mataræði án allra öfga.

„Þetta er búið að vera stans­laust verk­efni síðan ég var ung­,“ seg­ir Birna um leit­ina að réttu hreyf­ing­unni. Birna er í grunn­inn mik­il íþrótta­kona og æfði meðal ann­ars frjáls­ar íþrótt­ir þar sem hún lagði áherslu á kast­grein­ar þegar hún var yngri. Vegna barneigna, vinnu og skóla hafði hreyf­ing­in hins veg­ar fengið að sitja á hak­an­um. „Börn­in eru búin að taka all­an minn tíma síðustu 14 árin. Elsti strák­ur­inn minn er 14 ára. Svo eigum við stráka sem eru tíu og níu ára, einn fimm ára og svo þriggja ára stelpu.“

Auk barneign­anna er Birna búin að klára tvær masters­gráður og eina diplómu. „Ég er búin að vera líka í því á meðan ég er búin að vera ala upp börn­in og fæða þau. Þannig það hef­ur ekk­ert verið mik­ill tími til að sinna sjálfri mér. Ég hef oft farið af stað og náð ágæt­is ár­angri en svo orðið ólétt aftur eða bara dottið af vagninum einhverra hluta vegna og þá bara fer maður aft­ur á sama stað en nú erum við hætt að eignast börn. Ég er kom­in á fín­an stað í líf­inu, á fallega fjölskyldu, fallegt heimili og góða vinnu. Ég er núna til­bú­in að tækla þetta al­menni­lega,“ seg­ir Birna.

Byrjaði á andlegu hliðinni

Birna þakk­ar ár­angurinn hug­ar­fars­breyt­ingu en í fyrra­sum­ar þegar hún varð fer­tug ákvað hún að fara í mikla sjálfs­vinnu. „Ég fór að vinna meira í sjálfri mér hug­ar­fars­lega. Ég fór í markþjálf­un, prófaði hug­leiðslu, slök­un, fór á slak­andi jóga­helgi og bara allskon­ar í þeim tilgangi að finna hvað er mikilvægast fyrir mig. Forgangsraða í rauninni því ég vissi að ég var ekki á góðum stað. Ég tel að það hafi verið góður grunn­ur sem ég lagði þar með því að vinna fyrst í sjálfri mér og hvað það var sem ég vildi út úr líf­inu og hvernig ég vildi lifa því,“ seg­ir Birna. Í kjöl­farið varð hún ör­ugg­ari með sjálfa sig. „Maður verður að laga haus­inn og hug­ar­farið fyrst ef maður ætl­ar að ná breyt­ing­um til fram­búðar.“

Áður en Birna fann sína fjöl í lyft­ing­un­um prófaði hún æf­ing­ar sem hún fann sig ekki í. „Ég hef prófað alls konar hreyf­ingu, pró­grömm og mataræði og all­an pakk­ann eins og örugglega svo marg­ar kon­ur eru bún­ar að gera,“ seg­ir Birna. Það var svo vin­kona henn­ar sem benti henni á einkaþjálf­ar­ann Köllu Lóu. Hún byrjaði í lyft­ingaþjálf­un í apríl og seg­ir það hafa átt vel við sig.

Birna byrjaði að lyfta í vor.
Birna byrjaði að lyfta í vor.

Hætti á öfgakenndu mataræði

Birna tók líka mataræðið í gegn en ákvað að fara ekki á neitt öfga­kennt mataræði. Und­an­farið hef­ur hún verið að „telja macros“ eins og það kall­ast undir handleiðslu Inga Torfa. Þá fylg­ist hún með hversu mikið af fitu, kol­vetn­um, pró­teini og trefj­um hún borðar. Galdurinn er að borða rétt magn af öllu út frá forsendum hvers og eins. „Í des­em­ber í fyrra ákvað ég að ég væri hætt öll­um kúr­um og svona. Ég ákvað bara að ég ætlaði að vera ánægð með sjálfa mig, ekk­ert að pæla í kíló­um eða neitt svo­leiðis. Mig langaði bara líða vel, hafa orku til að tak­ast á við lífið og ekki að velta mér upp úr kílóa­tölu.“

Varstu búin að prófa ströng mataræði?

„Já, já. Ég var meira að segja að selja Her­bali­fe einu sinni. Ég er búin að prófa til dæmis ketó, safakúra, lágkolvetna, sleppa ákveðnum fæðutegundum, nefndu það. En allt þetta sem maður ger­ir það byrj­ar kannski alveg vel en svo held­ur maður það ekki út. Mér finnst miklu eðli­legra fyr­ir mig persónulega að taka nátt­úru­lega leið,“ seg­ir Birna. Núna seg­ist hún borða hvað sem er en inn­an ákveðins ramma. Þar sem hún æfir mikið seg­ir hún áhuga­vert að fylgj­ast með hvort hún fái nógu mikla orku út úr matn­um.

Skipulag lykillinn

Hvernig geng­ur þér að skipu­leggja þig með stórt heim­ili og í krefj­andi vinnu?

„Ég vakna 05:30 morgn­ana og fer á æf­ingu klukk­an sex. Ég hef komist að því að það er besti tím­inn fyr­ir mig. Það kem­ur alltaf eitt­hvað upp eft­ir vinnu með svona mörg börn, eitt­hvað sem þarf að gera eða þú ert hreinlega þreytt­ur eft­ir dag­inn. Ég skipu­legg mig vel kvöldið áður. Ég er með allt til­búið að kvöldi, íþrótta­föt­in, það sem ég ætla að drekka á æf­ing­u og það sem ég ætla að borða eft­ir æf­ingu, þannig að allt er skipu­lagt því ann­ars gengi þetta nátt­úru­lega ekki upp. Svo reyni ég að fara að sofa á milli tíu og ell­efu. Auðvitað skiptir líka gríðarlega miklu máli að fá stuðning við það sem maður er að gera og það fæ ég frá manninum mínum. Hann hvetur mig áfram og hjálpar mér að láta þetta allt saman ganga upp. Svo erum við vinkonurnar á staðnum duglegar að hvetja hverja aðra áfram. Gott stuðningsnet er gífurlega stórt atriði þegar kemur að breytingum.“

Birna hefur náð góðum árangri á stuttum tíma.
Birna hefur náð góðum árangri á stuttum tíma.

Hætt á lyfjunum

Finn­ur þú mik­inn mun á þér?

„Tölu­verðan. Ég var kom­in á lyf til þess að sofa, ég svaf alltaf voðal­ega illa og vaknaði eig­in­lega alltaf þreytt. Sein­asta vet­ur byrjaði ég á þess­um lyfj­um og var ekki hrif­in af því að vera á lyfj­um til þess að sofa. Ég var alltaf þreytt og var far­in að geispa klukk­an sjö. Á föstu­dög­um þegar ég var búin í vinn­unni var ég oft alveg búin með alla orkuna og stundum lagðist ég upp í rúm klukk­an átta og svaf til ég veit ekki hvenær á laug­ar­dags­morgni. Ég var farin að upp­lifa alls konar ein­kenni og var al­veg viss um ég væri kom­in með vefjagigt eða eitthvað. En þetta var bara álag, ég var bara að keyra mig út. Ég var ekki að stunda skipulagða hreyfingu og ekki að hugsa nógu vel um mataræðið. Ég hlustaði ekki á líkamann. Maður finn­ur bara hvað það hef­ur mikið að segja að hreyfa sig. Þó svo að maður hafi mikið að gera er samt betra að taka þenn­an klukku­tíma á dag og búa þannig til meiri orku. Það er akkúrat þannig hjá mér. Ég sef miklu bet­ur og er far­in að vakna á und­an klukk­unni. Ég vakna 5:30 og er hætt á þess­um svefnlyfj­um.“

Birna var ekki bara að glíma við svefntrufl­an­ir. „Ég var líka kom­in á maga­lyf. Ég held að það hafi líka verið álag­stengt og tengt mataræði. Mér var alltaf illt á mag­an­um. Ef ég borðaði eitt­hvað sem ég vissi að færi frekar illa í mig þá var ég með krampa. Ég hef ekk­ert tekið þau núna síðan í sept­em­ber.“

Birna er stolt af sjálfri sér og deil­ir ár­angr­in­um á In­sta­gram-síðunni sinni. Hún seg­ist von­ast til þess að geta veitt öðrum inn­blást­ur. „Það er mikið að gera hjá mér, ég er með stóra fjöl­skyldu en ég geri þetta samt. Það geta þetta all­ir ef ég get þetta,“ seg­ir Birna sem seg­ir lyk­ill­inn að ár­angr­in­um í ár vera gott skipu­lag og að skuldbinda sig að taka tíma fyrir sjálfan sig. Maður verður að hugsa vel um sig til þess að geta hugsað vel um aðra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda