Birna Hannesdóttir, skólastjóri í Tálknafjarðarskóla, eignaðist fimm börn á 11 árum. Hún býr á Patreksfirði ásamt manni sínum Ásgeiri Sveinssyni og börnum. Í mörg ár fór öll hennar orka í að sinna námi, heimili og eignast börn. Hún var byrjuð að taka lyf vegna svefnvandamáls og magaverkja en er nú hætt því eftir að hún byrjaði að stunda lyftingaæfingar og borða hollt mataræði án allra öfga.
„Þetta er búið að vera stanslaust verkefni síðan ég var ung,“ segir Birna um leitina að réttu hreyfingunni. Birna er í grunninn mikil íþróttakona og æfði meðal annars frjálsar íþróttir þar sem hún lagði áherslu á kastgreinar þegar hún var yngri. Vegna barneigna, vinnu og skóla hafði hreyfingin hins vegar fengið að sitja á hakanum. „Börnin eru búin að taka allan minn tíma síðustu 14 árin. Elsti strákurinn minn er 14 ára. Svo eigum við stráka sem eru tíu og níu ára, einn fimm ára og svo þriggja ára stelpu.“
Auk barneignanna er Birna búin að klára tvær mastersgráður og eina diplómu. „Ég er búin að vera líka í því á meðan ég er búin að vera ala upp börnin og fæða þau. Þannig það hefur ekkert verið mikill tími til að sinna sjálfri mér. Ég hef oft farið af stað og náð ágætis árangri en svo orðið ólétt aftur eða bara dottið af vagninum einhverra hluta vegna og þá bara fer maður aftur á sama stað en nú erum við hætt að eignast börn. Ég er komin á fínan stað í lífinu, á fallega fjölskyldu, fallegt heimili og góða vinnu. Ég er núna tilbúin að tækla þetta almennilega,“ segir Birna.
Birna þakkar árangurinn hugarfarsbreytingu en í fyrrasumar þegar hún varð fertug ákvað hún að fara í mikla sjálfsvinnu. „Ég fór að vinna meira í sjálfri mér hugarfarslega. Ég fór í markþjálfun, prófaði hugleiðslu, slökun, fór á slakandi jógahelgi og bara allskonar í þeim tilgangi að finna hvað er mikilvægast fyrir mig. Forgangsraða í rauninni því ég vissi að ég var ekki á góðum stað. Ég tel að það hafi verið góður grunnur sem ég lagði þar með því að vinna fyrst í sjálfri mér og hvað það var sem ég vildi út úr lífinu og hvernig ég vildi lifa því,“ segir Birna. Í kjölfarið varð hún öruggari með sjálfa sig. „Maður verður að laga hausinn og hugarfarið fyrst ef maður ætlar að ná breytingum til frambúðar.“
Áður en Birna fann sína fjöl í lyftingunum prófaði hún æfingar sem hún fann sig ekki í. „Ég hef prófað alls konar hreyfingu, prógrömm og mataræði og allan pakkann eins og örugglega svo margar konur eru búnar að gera,“ segir Birna. Það var svo vinkona hennar sem benti henni á einkaþjálfarann Köllu Lóu. Hún byrjaði í lyftingaþjálfun í apríl og segir það hafa átt vel við sig.
Birna tók líka mataræðið í gegn en ákvað að fara ekki á neitt öfgakennt mataræði. Undanfarið hefur hún verið að „telja macros“ eins og það kallast undir handleiðslu Inga Torfa. Þá fylgist hún með hversu mikið af fitu, kolvetnum, próteini og trefjum hún borðar. Galdurinn er að borða rétt magn af öllu út frá forsendum hvers og eins. „Í desember í fyrra ákvað ég að ég væri hætt öllum kúrum og svona. Ég ákvað bara að ég ætlaði að vera ánægð með sjálfa mig, ekkert að pæla í kílóum eða neitt svoleiðis. Mig langaði bara líða vel, hafa orku til að takast á við lífið og ekki að velta mér upp úr kílóatölu.“
Varstu búin að prófa ströng mataræði?
„Já, já. Ég var meira að segja að selja Herbalife einu sinni. Ég er búin að prófa til dæmis ketó, safakúra, lágkolvetna, sleppa ákveðnum fæðutegundum, nefndu það. En allt þetta sem maður gerir það byrjar kannski alveg vel en svo heldur maður það ekki út. Mér finnst miklu eðlilegra fyrir mig persónulega að taka náttúrulega leið,“ segir Birna. Núna segist hún borða hvað sem er en innan ákveðins ramma. Þar sem hún æfir mikið segir hún áhugavert að fylgjast með hvort hún fái nógu mikla orku út úr matnum.
Hvernig gengur þér að skipuleggja þig með stórt heimili og í krefjandi vinnu?
„Ég vakna 05:30 morgnana og fer á æfingu klukkan sex. Ég hef komist að því að það er besti tíminn fyrir mig. Það kemur alltaf eitthvað upp eftir vinnu með svona mörg börn, eitthvað sem þarf að gera eða þú ert hreinlega þreyttur eftir daginn. Ég skipulegg mig vel kvöldið áður. Ég er með allt tilbúið að kvöldi, íþróttafötin, það sem ég ætla að drekka á æfingu og það sem ég ætla að borða eftir æfingu, þannig að allt er skipulagt því annars gengi þetta náttúrulega ekki upp. Svo reyni ég að fara að sofa á milli tíu og ellefu. Auðvitað skiptir líka gríðarlega miklu máli að fá stuðning við það sem maður er að gera og það fæ ég frá manninum mínum. Hann hvetur mig áfram og hjálpar mér að láta þetta allt saman ganga upp. Svo erum við vinkonurnar á staðnum duglegar að hvetja hverja aðra áfram. Gott stuðningsnet er gífurlega stórt atriði þegar kemur að breytingum.“
Finnur þú mikinn mun á þér?
„Töluverðan. Ég var komin á lyf til þess að sofa, ég svaf alltaf voðalega illa og vaknaði eiginlega alltaf þreytt. Seinasta vetur byrjaði ég á þessum lyfjum og var ekki hrifin af því að vera á lyfjum til þess að sofa. Ég var alltaf þreytt og var farin að geispa klukkan sjö. Á föstudögum þegar ég var búin í vinnunni var ég oft alveg búin með alla orkuna og stundum lagðist ég upp í rúm klukkan átta og svaf til ég veit ekki hvenær á laugardagsmorgni. Ég var farin að upplifa alls konar einkenni og var alveg viss um ég væri komin með vefjagigt eða eitthvað. En þetta var bara álag, ég var bara að keyra mig út. Ég var ekki að stunda skipulagða hreyfingu og ekki að hugsa nógu vel um mataræðið. Ég hlustaði ekki á líkamann. Maður finnur bara hvað það hefur mikið að segja að hreyfa sig. Þó svo að maður hafi mikið að gera er samt betra að taka þennan klukkutíma á dag og búa þannig til meiri orku. Það er akkúrat þannig hjá mér. Ég sef miklu betur og er farin að vakna á undan klukkunni. Ég vakna 5:30 og er hætt á þessum svefnlyfjum.“
Birna var ekki bara að glíma við svefntruflanir. „Ég var líka komin á magalyf. Ég held að það hafi líka verið álagstengt og tengt mataræði. Mér var alltaf illt á maganum. Ef ég borðaði eitthvað sem ég vissi að færi frekar illa í mig þá var ég með krampa. Ég hef ekkert tekið þau núna síðan í september.“
Birna er stolt af sjálfri sér og deilir árangrinum á Instagram-síðunni sinni. Hún segist vonast til þess að geta veitt öðrum innblástur. „Það er mikið að gera hjá mér, ég er með stóra fjölskyldu en ég geri þetta samt. Það geta þetta allir ef ég get þetta,“ segir Birna sem segir lykillinn að árangrinum í ár vera gott skipulag og að skuldbinda sig að taka tíma fyrir sjálfan sig. Maður verður að hugsa vel um sig til þess að geta hugsað vel um aðra.“