Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, vekur athygli á erfiðri stöðu fólks með fíknivanda í aðsendri grein á Vísi í dag. Þar greinir hann frá því að hann þekki vel hversu slæm meðferðarúrræði fíknisjúklinga eru.
Sigmar segir ekki nógu vel hugsað um fólk með fíknivanda og kallar eftir langtímaáætlun frá stjórnvöldum.
„SÁÁ þurfti að loka eftirmeðferðarstöðinni Vík í sumar vegna fjárskorts. Þetta þekki ég vel því ég þurfti sjálfur að leita mér aðstoðar á Vogi í sumar. Engin framhaldsmeðferð var í boði fyrr en löngu eftir útskrift af Vogi. Samfellan sem þarf að vera í meðferðarvinnu algerlega rofin. Ég er hins vegar svo heppinn að félagsleg staða mín er betri en margra annarra og þetta kom ekki að sök í mínu tilfelli. Engu að síður er það svo að margra vikna bið á milli Vogs og Víkur, fyrir fjölmarga sem berjast við þennan sjúkdóm, dregur stórlega úr batalíkum. Og oft gerist það að fólk deyr á meðan það bíður eftir plássi á Vogi eða Vík. Í fyrra létust 12 einstaklingar á meðan þeir biðu eftir plássi. Þessi sjúkdómur fer ekki í sumarfrí og því ætti meðferðarstarfið ekki heldur að gera það,“ skrifar Sigmar meðal annars í greininni á Vísi.