Breytingarnar voru ótrúlegar!

Annie Mist og Katrín Tanja ætla að hjálpa konum á …
Annie Mist og Katrín Tanja ætla að hjálpa konum á breytingarskeiði að komast í betra form og upplifa bætta heilsu. Ljósmynd/Arnar Dór

Konur á breytingaskeiði upplifa margar að vöðvar rýrna og fita fer að safnast fyrir víða á líkamanum. Þá virðist ekki skipta máli þótt þær svitni á hlaupabretti oft í viku eða passi mataræðið og finnst mörgum konum afar svekkjandi að sjá ekki árangur erfiðisins.

Cross fit-meistararnir Katrín Tanja Davíðsdóttir og Annie Mist Þórisdóttir segja konur á breytingaskeiði þurfa sérhannaðar æfingar og ekki dugi að hamast eins og óð manneskja í ræktinni.

Þær stöllur hafa nú tekið höndum saman og hannað sérhæft æfingakerfi fyrir konur á besta aldri, en það var í gegnum mæður sínar sem þær uppgötvuðu að konur á breytingaskeiði þurfa allt öðruvísi æfingar en þær sem yngri eru. Allt um verkefnið má finna á samfélagsmiðlum undir heitinu empowerbydottir og á netinu undir sama nafni.

Svekkt yfir niðurstöðunum

Hið nýstofnaða fyrirtæki Empower á sér lengri aðdraganda, en hugmyndin kviknaði þegar Annie hóf að koma foreldrum sínum í gott form.

„Ég lét mömmu og pabba hafa æfingaprógramm saman og mamma var rosalega dugleg. Ég planaði mataræðið þeirra og allar æfingar og þau fóru eftir þessu í fjóra mánuði. Pabbi fékk „six pack“ og líkaminn breyttist mikið en mamma komst bara í aðeins betra form, þrátt fyrir að vera miklu strangari við sig en pabbi. Breytingarnar hjá henni voru allt aðrar og ég skildi ekkert hvað var í gangi. Ég lét hana gera mikið af fitubrennsluæfingum þannig að hún myndi brenna kaloríum og hún æfði mjög mikið af svipuðum æfingum og ég er að gera. Ég var mjög pirruð yfir þessu og þótt mömmu liði kannski betur var hún svekkt yfir niðurstöðunum. Þá sökkti ég mér ofan í það af hverju þetta virkaði ekki,“ segir Annie og segist þá hafa fundið hinn ástralska doktor Stacy Sims sem sérhæfir sig í öllu sem viðkemur kvenlíkamanum.

Vildum hafa sérfræðing

„Konur þurfa að taka spretti og pásur á milli og það er lykilatriði fyrir þær að lyfta þungu, helst þrisvar í viku. Þegar estrógenið er ekki lengur í líkamanum verður niðurbrot á vöðvum og því þurfa þær að lyfta til að viðhalda vöðvum. Á breytingaskeiðinu fara konur að safna fitu á kvið og í kringum líffærin og fitan helst svo á þeim. Ef þær fasta eða fara í megrun í of langan tíma verður bara meira niðurbrot á vöðvum frekar en fitu,“ segir Annie og segir að þegar hún hafi farið að grúska í þessu hafi opnast henni nýr heimur.

„Ég var svo alltaf að deila þessu með Katrínu Tönju og hún sagði mömmu sína einmitt vera að upplifa það sama og mamma mín. Ég breytti svo prógramminu fyrir mömmu og breytingarnar voru ótrúlegar!“ segir Annie.

„Eftir breytingarnar á mömmu fóru svo margar konur að spyrja mig út í þetta og þótt ég hafi treyst mér til að hjálpa mömmu treysti ég mér ekki til að hjálpa öllum konum, því þær verða að skilja af hverju þær eiga að lyfta og af hverju þær eiga að borða meira prótín,“ segir Annie og segir þá að þær Katrín Tanja hafi ákveðið að búa til prógramm fyrir konur á miðjum aldri.

1500 á biðlista

Appið heitir Empowerbydottir og segir Katrín að um leið og konur skrái sig á námskeið fái þær aðgang að lokuðum facebook-hópi þar sem konur geti talað sín á milli.

Appið verður aðgengilegt eftir örfáar vikur, en Annie og Katrín munu byrja með nokkra hópa af konum sem munu sannreyna ágæti þess.

„Á næstu vikum munum við hleypa inn tuttugu til fjörutíu konum, en í byrjun viljum við ekki vera með of margar því við viljum geta sinnt þeim og svarað þeirra spurningum,“ segir Katrín.

„Við erum komnar með 1.500 konur á biðlista,“ segir Annie og brosir.

„Við getum ekki hleypt öllum inn í einu en með tímanum getum við hleypt inn fleirum og bráðum geta allar konur verið með.“

Ítarlegt viðtal er við Annie og Katrínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda