Drykkjarbrúsar frá vörumerkinu Stanley hafa gert allt vitlaust að undanförnu úti í hinum stóra heimi. Nú eru þessir tískubrúsar komnir á klakann. Ólíkt því sem við mátti búast var ekki biðröð fyrir utan Elko í Skeifunni þegar verslunin opnaði klukkan 11:00 í dag og hóf sölu á brúsunum í verslun sinni.
Það sem gerir brúsana sérstaka er stærðina á þeim en þeir taka 1,18 lítra af vökva. Einu sinni þótti vesen að ganga um með risastóran brúsa með röri en í dag þykir ekkert jafn töff. Brúsarnir hafa verið markaðsettir vel á samfélagsmiðlum og eru áberandi á TikTok.
Erlendis hafa myndast raðir og mikil örtröð skapast þegar nýjar útgáfur af brúsunum koma í sölu. Í byrjun árs kom út ný útgáfa af brúsunum í samstarfi við Starbucks. Dæmi er að fólk hafi slegist til að ná brúsa og jafnvel reynt að stela. Í Bandaríkjunum var einn maður svo æstur í að eignast nýjan brúsa að hann hoppaði yfir afgreiðsluborð í verslun og reyndi að stela brúsum að því fram kemur á vefmiðlinum Tmz. Var maðurinn að lokum snúinn niður.
Á Íslandi hafa myndast raðir og mikil örtröð þegar vinsælar vörur koma á markað. Í fyrra opnaði verslunin Gina Tricot í Kringlunni og myndaðist löng biðröð þegar búðin opnaði. Unglingadrykkurinn Prime seldist upp á örskotstund fyrir nokkrum misserum og nýlega varð allt vitlaust þegar nýtt snyrtivörumerki var tekið í sölu í Krónunni. Unga fólkið lét þó bíða eftir sér í dag.
Ástæðan fyrir því að fólk fjölmennti ekki í röð í morgun kann að vera sú að fólk eigi önnur drykkjarílát eða sé einfaldlega búið að tryggja sér brúsa með öðrum leiðum.
Vinkonurnar Birta Líf Ólafsdóttir og Sunneva Eir Einarsdóttir eru meðal þeirra sem keyptu brúsa áður en þeir fóru í sölu í Elko. Þær töldu upp kosti og galla brúsategunda á TikTok. Þær segja kostina við brúsann frá Stanley vera hvað kemst mikið í brúsann, hvað hann heldur köldu lengi og hversu auðvelt að setja klaka í brúsann. Einnig er kostur að brúsinn kemst í bílinn. Helsti gallinn að þeirra mati er hversu stór brúsinn er. Það getur þó verið kostur líka.