Gatan mín Sörlaskjól: Fór beint niður í fjöru og gleymdist

Ellert B. Schram fyrir framan heimili sitt við Sörlaskjól.
Ellert B. Schram fyrir framan heimili sitt við Sörlaskjól. Sigurgeir Sigurðsson

Foreldrar mínir keyptu Sörlaskjól númer eitt árið 1948. Sörlaskjól tilheyrir Skjólahverfinu í Vesturbænum sem byggðist á árunum eftir stríð. Gatan liggur meðfram ströndinni að mestum hluta til. Faxaskjólið tekur svo við en húsið okkar er á mótum þessara tveggja gatna neðst við sjóinn, nánast í fjöruborðinu. Mín fyrsta minning er sú að foreldrar mínir tóku okkar krakkana í skoðunarferð, áður en við fluttum inn. Ég fór auðvitað beint niður í fjöru og gleymdist! Þurfti að ganga í Norðurmýrina, þar sem við bjuggum þá. Það var löng gönguferð fyrir átta ára snáða,“ segir Ellert B. Schram.

Tengdur götunni og húsinu í sextíu ár

„Í Sörlaskjólinu átti ég heima á unglingsárum mínum og var auðvitað fastagestur hjá mömmu og pabba eftir að ég flaug úr hreiðrinu, sem sagt tengdur þessu húsi og þessari götu í rúmlega sextíu ár. Keypti svo sjálfur húsið árið 1996 og við Ágústa og börn okkar hjóna höfum búið þar síðan. Betri stað er ekki hægt að finna í Reykjavík. Nærveran við sjóinn, útsýnið, stutt í miðbæinn og búðirnar. Við höfum skólana, kirkjuna, sundlaugina, KR og miðbæinn. Allt í seilingarfæri. Meira að segja kirkjugarðurinn er ekki langt undan!

Þegar ég var krakki var fjaran vinsælasti íverustaðurinn. Dorgað eftir sílum, ufsa, kola, marhnúti, vaðið út með holræsinu, buslað í sjónum, klappað í fjörusteina og svo þegar maður stálpaðist fengum við að fara með grásleppukörlunum að vitja neta og gera að. Þess á milli var spilaður fótbolti á opnum svæðum, grafin snjógöng í húsagrunnum og safnað í brennu, þar sem nú stendur styttan hans Ásmundar, Björgun. “

Áttu frumkvæðið að áramótabrennunni

„Það var mikil barnamergð í hverfinu, allt upp í fimm, sex í hverju húsi og strákarnir héldu saman, við stofnuðum meira að segja sjálfstætt knattspyrnufélag, minnir að það hafi heitið Grettir og fundargerðir munu enn vera til. Raunar var það skrítið að við litum á okkur sem sjálfstæða heild, krakkarnir í Faxaskjólinu og neðri hluta Sörlaskjóls. Hinir voru of langt í burtu. Leikir og strákapör náðu aldrei út fyrir þetta svæði. Efri hluti Sörlaskjólsins var okkur óviðkomandi. Nema þegar við kepptum við þá í fótbolta. Það var líka efnt til fótboltaleikja við stráka í Sænsku húsunum og á Grímsstaðaholtinu og jafnvel lögðum við leið okkar alla leið upp á Framnesveg til að etja kappi við strákagengið sem þar var til staðar. Á þessum árum var verið að taka KR-völlinn í notkun. Þangað lá leiðin strax og geta og aldur leyfði.

Svo höfðum við frumkvæði að gamlársbrennunni neðan við húsið okkar, söfnuðum eldivið á sorphaugunum gömlu, þar sem nú er Eiðisgrandi, hirtum rekavið á fjörum og bíldekk í óskilum og ókum þessu öllu á snjósleðum. Nægur var snjórinn í þá daga. Og svo voru bílarnir „teikaðir“ upp að Haga og bröggunum í Kamp Knox. Í næsta nágrenni var Ægisíðan sem kölluð var „Costa Ríka“, enda húsin þar stærri og veglegri. Sörlaskjólið var byggt og búsett af efnaminna fólki en dugnaðarforkum. Þverskurði þjóðarinnar.“

Skemmtileg æska í góðu hverfi

„Þetta var skemmtileg æska í góðu hverfi og það segir sína sögu, að enn eru þessi hús í kringum mig í eigu barna og/eða barnabarna þess fólks sem settist þarna að og bjó hér þegar ég var krakki. Þetta er eins og ein stór fjölskylda. Svo njótum við góðs af því að í nær hverju húsi í næsta nágrenni er tónlistarfólk og heyra má hljóðfæraleik og undurfagrar söngraddir óma um hverfið.

Síðast en ekki síst höfum við Skerjafjörðinn við húsdyrnar, sýn til fjalla á Reykjanesinu og jökulsins á Snæfellsnesi og gullroðann við sjóndeildarhringinn „því þá kemur sólin og sest þar. Hún sígur vestar og vestar um öldurnar gulli ofnar“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda