„Þátttaka í handverkssýningunni hefur aldrei verið meiri en einmitt í ár. Alls verða sýnendur um eitt hundrað en umsóknirnar voru mun fleiri. Við völdum einfaldlega þá bestu. Stundum er sagt að í kreppunni blómstri handverk og hönnun og það sýnist mér að eigi við full rök að styðjast,“ segir Esther Stefánsdóttir. Hún er framkvæmdastjóri Handverkshátíðarinnar í Hrafnagili í Eyjafirði sem hefst í dag og stendur til sunnudags, 8. ágúst. Hátíðin verður opin alla fjóra dagana frá kl. 12-19.
Af þeim hundrað sýnendum sem taka þátt í ár er um helmingur nýir aðilar alls staðar að af landinu. Þar á meðal má nefna Sápubakaríið, Fjöruperlur, Handverkskompaníið og prjónablaðið Lopa og band sem kemur nú út að nýju eftir margra ára hlé. „Á tímabili var ákveðið þema á hverri sýningu, þótt svo sé ekki nú. Við leyfum fjölbreytninni að njóta sín og hér verður t.d. keramikgerð, silfursmiðir, fólk sem vinnur í tré sýnir framleiðslu sína og svona gæti ég áfram haldið,“ segir Ester sjálf hefur lengi sinnt ýmiskonar handverki
Hundar og ungir bændur
Fjölbreytt dagskrá er á útisvæðinu með tískusýningum, Hundaræktarfélag Íslands á Norðurlandi verður með kynningu á ýmsum hundategunum, hlutverki þeirra og ræktun og Félag ungra bænda á Norðurlandi býður upp á kálfasýningu, rúning, ungbændakeppni og dráttavélaþraut. Fastur liður er að bjóða upp á handverksnámskeið í tengslum við hátíðina og að þessu sinni eru það þær Linda Óladóttir listamaður og Sveina Björk Jóhannesdóttir textílhönnuður sem verða með námskeið í frjálsum útsaumi í saumavél, gerð skrautblóma og tauþrykki.