Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri ræktar garðinn í Reykjavík: Setjum upp sparisvip

Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri.
Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri. Eggert Jóhannesson

„Í samanburði við stórborgir Evrópu á Reykjavík ekki langa borgarsögu en hefur á stuttum tíma vaxið úr litlu þorpi í framsækna borg sem er viðkomustaður á sjöunda hundrað þúsunda ferðamanna á hverju ári. Á fallegum sumardegi iðar borgin af lífi og skartar að jafnaði sínu fegursta. Menningarnótt er þar engin undantekning, t.d. þegar íbúar miðborgarinnar bjóða gestum og gangandi á heimili sín hvort sem það er í kaffi og kökur eða til að hlýða á fagra tóna eða njóta annarra lista,“ segir Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri. 

„Við munum konungsheimssókn Kristjáns Danakonungs þegar allt var pússað sem sneri að konungsleiðinni. Nú hafa flestir sem bjóða til sinna heimahúsa pússað sitt fínasta og sett upp sparisvipinn fyrir Menningarnótt,“ segir Jakob Frímann Magnússon sem situr í stjórn Menningarnætur auk þess að gegna starfi framkvæmdastjóra Miðborgarinnar okkar.

„Íslendingar eru í eðli sínu gestrisnir, það er eflaust eitt af okkar betri gildum. Hin rómaða gestrisni Íslendinga á sér að hluta þá skýringu að hér var fyrr á öldum vart að finna gistihús á landsbyggðinni að heitið gæti en menn voru á sífelldum þeytingi milli landshluta og sjálfsagður hlutur var að leyfa mönnum að gista. Nú er gistiþjónusta að verða ein af okkar stærri atvinnugreinum og mikilvægt að varðveita vel anda sanníslenskrar gestrisni . Sá andi er vissulega vel merkjanlegur í Reykjavík á Menningarnótt og jafnframt til að mynda í hústjöldum Vestmannaeyinga á árlegri Þjóðhátíð.“

Kjörinn hvati

Kreppan sem engan enda virðist ætla að taka hefur sett sitt mark á miðborgina eins og aðra þætti þjóðlífsins. Allt of mörg hús eru illa hirt og eru þyrnir í augum þeirra sem fram hjá þeim fara.

„Menningarnótt er kjörinn hvati þess að dytta að húsum sínum og drífa í því sem setið hefur á hakanum, jafnvel í lengri tíma. Þetta á sérstaklega við um þá sem bjóða heim til sín en ekki síður um okkur hin. Gamla góða gestasprettinn ættu menn í raun að líta á sem kærkomna orku til að taka til í kringum sig. Ég segi að minnsta kosti fyrir sjálfan mig að það er næstum jafn kærkomið og að fá gestina sjálfa í heimsókn að kalla yfir sig gestasprettinn og taka allt í gegn sem búið var að slá á frest jafnvel vikum saman,“ segir Jakob Frímann og bætir því við að þó hann leggi mikið upp úr snyrtimennskunni snúist Menningarnótt fyrst og fremst um fjölskrúðugt mannlífið í borginni og skemmtilegheit fólksins sjálfs.

„Í umræddum menningarheimsóknum er það sem máli skiptir ekki síst sjálfur gestgjafinn og sá menningararfur sem kann að leynast þar á bakvið gluggatjöldin og svo milli eyrnanna á heimilisfólkinu.“

Uppbygging í miðbænum virðist oft og tíðum handahófskennd og háðari tískusveiflum fremur en að varðveita heildstæða og fallega byggð sem eitt sinn var. Miðbærinn hefur verið þrætuepli stjórnmálanna í áratugi og torvelt hefur reynst að finna lausnir sem allir geta sætt sig við. Viðraðar hafa verið hugmyndir á borð við þá að leggja kvaðir á íbúa miðborgarinnar að halda húsum sínum vel við í skiptum fyrir t.d. afslátt á opinberum gjöldum eða styrkjum.

„Niðurfelling fasteignagjalda er ekki í boði en hins vegar eru til Húsfriðunarsjóðir sem sækja má um viðhaldsfé til, komi viðkomandi eign á annað borð til álita af sögulegum eða menningarlegum ástæðum. Borgaryfirvöld sem slík mega að óbreyttu ekki blanda sér í mál einstakra húseigna.En neyðin kennir naktri konu að spinna og skömmu eftir hrun gekk ég á fund Slippfélagsins og BM-Vallár sem féllust á að leggja til efni til að stemma stigu við óásættanlegu veggjakroti og aðstoða íbúa við að fegra húsin sín. Slippfélagið gaf okkur tíuþúsund lítra af málningu í fjórum litum og BM-Vallá hefur lagt til umtalsvert magn af hellum sem leggja má þar sem þörfin er mest,“ segir Jakob og bætir því við að allt of margir feli sig bakvið kreppuna.

Sýnum tillitssemi

„Margir bera við efnahagsástandinu og segjast ekki hafa efni á [viðhaldi eigna sinna] en stundum þarf ekki nema bara að snyrta eilítið garðinn sinn og mála grindverk eða húsgrunn til að nánasta umhverfi taki verulegum breytingum til hins betra.“

Miðborgin okkar úthlutar reglulega af rausnargjöf Slippfélagsins og BM-Vallár.

„Borgarstarfsmenn og fleiri hafa svo haft aðgang að þessu efni til að lyfta eilítið upp svæðum sem augljóslega þurfa á slíku að halda. Þetta snýst meðal annars um að sýna samborgurunum lágmarks tillitssemi. Við eigum að leitast við að rækta garðinn okkar og sýna nágrönnum þá tillitsemi að hleypa ekki nærumhverfi okkar í niðurníðslu. Svo er það líka bara meinholt fyrir sálina að rækta garðinn sinn ofurlítið,“ segir Jakob með bros á vör.

Jakob Frímann Magnússon.
Jakob Frímann Magnússon. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda