„Götumynd Rauðalækjar hefur haldist ótrúlega vel í áranna rás. Í rauninni ber þessi fallega íbúðagata í Laugardalnum alveg sama svip og þegar ég var þarna löngum stundum sem stelpa en fyrst man ég eftir mér á þessum slóðum í kringum 1977, þá um það bil að byrja í skóla,“ segir Ragnhildur Anna Jónsdóttir kaupkona. Hún er að vísu alin upp annars staðar í borginni en var mikið hjá ömmu sinni og afa, þeim Margréti Sigurðardóttur og Ármanni Jónssyni, sem bjuggu í einu af efstu húsunum í götunni; nánast uppi við gatnamót Dalbrautar.
„Amma sendi mig oft í búðaferðir. Við Brekkulækinn þar sem nú eru íbúðablokk var nýlenduvöruverslun og niðri á Laugalæk þar sem nú er Bændamarkaðurinn Frú Lauga var Raggasjoppa, eins og hún var kölluð. Í húsinu við hliðina þar sem í dag er verslun 10-11 var Kjötmiðstöðin. Þetta er talsvert breytt frá því sem var, enda þótt annað hafi haldið sínum svip,“ segir Ragnhildur sem kveðst eiga margar góðar minningar frá dögunum heima hjá afa og ömmu.
„Ég svaf gjarnan á bríkinni á milli þeirra og áður en ég festi svefn á kvöldin las afi fyrir mig úr bókum eins og Dísu ljósálfi og Alfinni álfakóngi,“ segir Ragnhildur sem í gegnum afa sinn komst í fyrstu launuðu vinnuna. Þannig var að afi hennar starfaði sem lögfræðingur á Skattstofunni í Reykjavík og sá starfsfólk þar um að bera út skattaframtölin í sínum nágrannagötum. Þannig sá Ármann um að koma þessum plöggum til framteljenda við Rauðalæk, Bugðulæk og nokkrar fleiri nærliggjandi götur og til þess naut hann að sjálfsögðu aðstoðar sonardóttur sinnar.
„Mér er næst að halda að afi hafi látið mig alfarið njóta launanna sem hann fékk fyrir þessa vinnu. Að minnsta kosti er mér til efs að ég hafi nokkru sinni haft jafn rífandi góð laun. Uppgrip voru svo síðar í því að bera út í Asparfellið, þá stórar blokkir og alls ólíkar því umhverfi sem ég hafði þekkt. Þetta fannst mér afar spennandi og til mikillar fyrirmyndar því útburðurinn tók mun skemmr tíma,“ segir Ragnhildur sem fulltíða manneskja flutti í Vesturbæinn og bjó þar í allmörg ár.
Að því kom árið 2004 að Ragnhildur og Sverrir Berg Steinarsson, eiginmaður hennar, ákváðu að róa á ný mið og vildu halda sig í Vesturbænum. Lendingin varð þó önnur. „Ég átti góðar minningar úr Laugardalnum og Sverrir er alinn upp í í Skeiðavoginum og þekkir sömuleiðis vel til Langholtshverfis þar sem Árelíus Níelsson, afi hans, var lengi sóknarprestur. Ég átti leið hér um hverfið þegar ég sá þessi snotru raðhús sem eru við Austurbrúnina og viti menn; fáeinum dögum síðar sá ég í fasteignablaði Morgunblaðsins eitt þeirra auglýst. Við vorum ekki lengi að festa það og vorum flutt hingað ekki löngu síðar. Unum okkur hér afskaplega vel og þá munar aldeilis um að vera með Laugardalinn í næsta nágrenni – einstaka útvistarparadís. Og á kvöldin í gönguferð með hundinn tek ég oft lengri hringinn og rölti þá Rauðalækinn og rifja upp góðar minningar,“ segir Ragnhildur Anna Jónsdóttir að síðustu.