Menntamálaráðherra hefur undirritað samninga um rekstrarframlag við kynningarmiðstöðvar listgreina og hönnunar. Samningarnir eru til þriggja ára, 2012 til 2014. Fela þeir í sér 63,2 % hækkun á framlagi til miðstöðvanna, úr 43,5 millj. kr. árið 2011 í 71 millj. kr. árið 2012. Í fréttatilkynningu segir að þetta undirstriki áherslu ráðuneytisins á að þessar listgreinar nái að eflast og dafna og að unnið sé ötullega að kynningu þeirra hér á landi og erlendis.
Samið er við Handverk og hönnun, Hönnunarmiðstöð Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar. Samningurinn við Hönnunarmiðstöð er gerður í samstarfi við iðnaðarráðuneyti og samningurinn við ÚTÓN í samstarfi við iðnaðar- og utanríkisráðuneyti.
Af öðrum framlögum á yfirstandandi ári til að efla alþjóðlegt samstarf og kynningar á sviði lista má nefna að 25 millj. kr. hafa verið veittar til að fylgja eftir árangrinum af bókasýningunni í Frankfurt og 5 millj. kr til Leiklistarsambands Íslands vegna þátttöku í erlendum verkefnum. Framlög til Bókmenntasjóðs eru 42 millj. kr og til viðbótar komu 23 millj. kr. sem voru eftirhreytur úr Menningarsjóði og Þýðingarsjóði þegar þeir voru lagðir niður og gerðir upp.