Sýningin Kona verður opnuð í Ljósmyndasafni Reykjavíkur 12. maí. Þar sýnir Berglind Björnsdóttir ljósmyndari, sem fékk styrk úr Minningarsjóði Magnúsar Ólafssonar fyrir tveimur árum til að gera ljósmyndabók um íslenskar konur, og verður nú afrakstur vinnunnar kynntur. Konurnar eru myndaðar heima hjá sér, á uppáhaldsstað eða á stað sem tengist þeim á einhvern hátt.
Í þessari myndaseríu reynir ljósmyndarinn að gefa áhorfandanum mynd af hinni íslensku nútímakonu. Hver er hún? Hvaðan kemur hún? Hverjir eru draumar hennar og langanir? Tengsl okkar Íslendinga við náttúruna eru einstaklega sterk og það kemur bersýnilega í ljós í verkefninu hve sterkt konurnar tengdust staðnum. Margar kusu að vera myndaðar á stað sem hafði einhverja tengingu við þær sérstaklega. Sumar konurnar bjuggu erlendis en það er ljóst að Ísland er mikilvæg uppspretta sköpunar þeirra og hefur mótað sjálfsmynd þeirra sterkt.