Gatan mín: Aðalgata á Siglufirði

Björn Valdimarsson á tröppum við Siglufjarðarkirkju.
Björn Valdimarsson á tröppum við Siglufjarðarkirkju. mbl.is

„Á góðviðrisdögum geng ég gjarnan hring hér um bæinn eftir vinnu og þá upplifi ég vel að Siglufjörður er orðinn allt annar bær en sá sem ég flutti til fyrir 23 árum. Breytingarnar eru ótrúlega miklar; áður var þetta fyrst og síðast sjávarútvegsbær. Nú eru stoðir atvinnulífsins orðnar fleiri og nú blómstrar hér ferðaþjónusta og margs konar listastarfsemi. Með þessu hefur bærinn öðlast annan svip og orðið líflegri,“ segir Björn Valdimarsson, markaðsstjóri Ramma á Siglufirði.

Heimsborg milli fjalls og fjöru

Siglufjörður er einn fárra bæja á Íslandi sem hafa raunverulegan miðbæjarkjarna. Göturnar liggja eftir Hvanneyri eftir reglustikumynstri og þeim hugmyndum sem sr. Bjarni Þorsteinsson setti fram. Hann var sóknarprestur Siglfirðinga frá 1888 til 1935 og aukinheldur forystumaður þeirra í veraldlegum efnum og framfaramálum. Má í því sambandi nefna skipulag bæjarins, ekki er talið ólíklegt að Bjarni hafi í uppdráttum sínum að Siglufirði framtíðarinnar tekið mið af upplifun sinni af Kaupmannahöfn þegar hann dvaldi þar.

Og áfram með heimsborgirnar. Þegar gengið er niður tröppurnar við Siglufjarðarkirkju tekur Aðalgatan við og liggur frá fjalli til fjöru. Er í beinni línu og minnir satt að segja á breiðstræti Parísarborgar. Og í húsi númer átta búa hjónin Björn Valdimarsson og Mariska van der Meer kona hans en þau fluttu í bæinn árið 1989. Bæjarstjóri á Siglufirði var Björn frá 1990 til 1997.

Göngustígur varð gata

„Fyrstu húsin hér við Aðalgötu voru byggð í upphafi 20. aldarinnar,“ segir Björn. „Talið er að gatan hafi þróast sem göngustígur upp frá bryggju Henriks Henriksen, hins norska síldarspekúlants frá Haugasundi. Fyrst reistu menn hér hús nánast eftir eigin höfði við stíginn en síðar komst skipulag á þetta. Eins og nafnið ber með sér þá var þessi gata nokkurs konar miðdepill í bænum og eldra fólk hefur stundum rifjað upp í mín eyru að í landlegu á síldarárunum hafi hér verið iðandi mannhaf á götunum þar sem ómur af nikkuspili hafi verið í bakgrunni.“

Landlegustemning síldaráranna hefur í seinni tíð verið endurvakin á Siglufirði. Með tilkomu Síldarminjasafnsins í kringum 1990 öðlaðist bærinn aukið aðdráttarafl meðal ferðamanna.

„Með Síldarævintýrinu, hátíðinni sem við héldum fyrst árið 1991, komst bærinn betur á kortið meðal ferðamanna. Gestir Síldarævintýrsins sem jafnan er um verslunarmannahelgina voru fyrsta árið um 2.000 talsins og þá komu hér ekki aðrir fram en listamenn í bænum. Ég hef stundum raunar sagt að slíkt hefði ekki verið hægt í neinum öðrum bæ á Íslandi – atgervisfólk í leik, söng og á fleiri sviðum kom með þessi fínu atriði sem tókust ljómandi vel. Og svona er Siglufjörður – hér er afar skemmtilegt mannlíf.“

Pæjumótið, sem er fyrir stelpur í yngstu flokkum knattspyrnunnar, er jafnan haldið á Siglufirði aðra helgina í ágúst. Mótið er fjölsótt og sama má segja um ýmsa aðra menningarviðburði í bænum, svo sem Þjóðlagahátíðina í júlímánuði. Þá dregur skíðasvæðið gesti að bænum á veturna.

„Við fluttum hingað á Aðalgötuna árið 1997. Vildum búa á Eyrinni, í hjarta bæjarins, enda erum við vel í sveit sett hér,“ segir Björn. „Hér er oft mikið líf en við götuna eru verslanir, veitingahús, bakarí og gistiheimili. Listastarfsemin hefur svo gefið bænum skemmtilegan svip í seinni tíð. Þjóðlagasetrið og Ljóðasetur Þórarins Hannessonar eru í miðbænum auk þess sem nokkrir listamenn eru með vinnustofur og gallerí þar. Þá hefur fjöldi listamanna viðkomu í Herhúsinu við Norðurgötu; gömlu húsi Hjálpræðishersins og nú síðast var opnuð listamiðstöð og vinnuaðstaða fyrir listamenn í gamla Alþýðuhúsinu. Svo er höfnin með því mikla lífi sem henni fylgir í næsta nágrenni.“

Til sjós og lands

Fjallabyggð spannar kaupstaðina Ólafsfjörð og Siglufjörð en sjávarútvegur er hryggjarstykki atvinnulífs í báðum bæjum. Ferðaþjónustan vegur þó æ þyngra og tilkoma Héðinsfjarðarganga sem tekin voru í notkun 2010 markaði kaflaskil.

„Í dag er orðið algengt að fólk sem hingað kemur hafi jafnvel viðdvöl einhverja daga en ekki bara fáeina tíma. Hér er líka margt skemmtilegt að skoða, auk þess sem flóra nýrra veitingahúsa hefur gefið bænum nýjan svip. Starfsemi í veitingahúsunum Rauðku og Hannes Boy Café við smábátahöfnina hefur breytt bæjarbragnum. Þá er og Harbor House Café á hafnarsvæðinu og sjálfum finnst mér gaman að sitja við þessa staði, fá mér kaffi og fylgjast með lífinu, jafnt til sjós og lands,“ segir Björn Valdimarsson að síðustu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda