Einbýlishús Björgólfs Thors Björgólfssonar og Kristínar Ólafsdóttur, við Óðinsgötu 5 í Reykjavík er komið á sölu. Húsið er alls 399 fm og er kaupverð ekki gefið upp. Brunabótamat hússins er 69.480.000 og fasteignamat 56.805.000.
Húsið er mikið endurnýjað. Björgólfur Thor festi kaup á því 1996 en árið 2004 varð Kristín, eiginkona hans, 50% eigandi hússins.
„Húsið býður upp á mikla möguleika til notkunar sem verslunar-, skrifstofu- og/eða íbúðarhúsnæði. Íbúðarhúsið telur 190,4 fm og skrifstofu/verslunarhúsnæðið telur 194,1 fm ásamt 14,1 fm sérstæðum bílskúr en samtals er húseignin öll 398,6 fm,“ segir í upplýsingum frá Remax, sem er með eignina á sölu. HÉR er hægt að skoða húsið nánar.
Í mars festi Kristín Ólafsdóttir kaup á bjálkahúsi í Reykjahverfi í Mosfellsbæ og er nú orðin nágranni Ólafs Ragnars Grímssonar og frú Dorritar en á sömu slóðum búa einnig Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram.