Eva Þengilsdóttir vill með nýútkominni bók sinni, Gerðu eins og ég Hvati og dýrin, hvetja leikskólabörn til hreyfingar.
Hann er ærslafullur hvolpur sem er fær um hinar ýmsu hundakúnstir og á sér bæli hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Hann heitir Hvati og er hugarsmíð Evu Þengilsdóttur. Fyrir fjórum árum síðan fékk Eva teiknarann Kára Gunnarsson til liðs við sig til að gefa Hvata útlit. Það varð úr og Hvati lifnaði við á blaði og varð síðan að handbrúðu sem seld var í Hagkaupum til styrktar Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Brúðan seldist upp um tíma en er nú aftur fáanleg. Í gegnum vinnu sína hjá Styrktarfélaginu og móðurhlutverkið hefur Eva fundið hjá sér þörf að koma á markað efni sem ýtir undir hreyfingu barna. Hún hefur nú samið bók um hvolpinn Hvata og vini hans, Gerðu eins og ég, en með þeirri bók hvetur hún börnin til að hreyfa sig um leið og bókin er lesin. „Mig langaði að skrifa ævintýri um Hvata sem leyfði við lestur að barnið stæði upp og hreyfði sig og hreinlega hoppaði og skoppaði. Æfingarnar eru frá mér komnar en ég fékk Æfingastöðina og Áslaugu Guðmundsdóttur yfirsjúkraþjálfara þar á bæ til að fara yfir þær og leggja blessun sína yfir. Það skipti mig miklu máli að vinna bókina með fagaðilum sem ég tel vera þá fremstu á sínu sviði.“
Hvati varð ekki til á einni nóttu heldur þróaðist hann upp úr kvöldsögum sem Eva sagði börnunum sínum. „Krakkarnir mínir báðu mig oft um að segja sögu með munninum og það þýddi að ég átti að bulla sögu. Í þessum sögum kom Hvati fyrst fram sem ærslafullur og forvitinn hvolpur. Þau voru iðulega með innlegg og komu með tillögur að þróun hverrar sögu fyrir sig. Ég gleymdi auðvitað sögunum eftir hverja kvöldstund en sumir karakterarnir skutu aftur og aftur upp kollinum og var Hvati einn af þeim.“
Eftir að Eva hafði samið söguna um Hvata ákvað hún að prófa hana á fimm ára frænku sinni. „Ég las söguna fyrir hana og við gerðum hreyf-ingarnar saman og það gekk svo vel að ég fékk aukna trú á verkinu. Hún var alsæl og vildi láta lesa söguna fyrir sig aftur og aftur. Eftir það og góðan yfirlestur sendi ég handritið til Forlagsins. Þrátt fyrir að bókin hvetji til hreyfingar geta krakkarnir notið sögunnar án þess að gera hreyfingarnar.“
Bergrún Íris Sævarsdóttir myndskreytir bókina en þær Eva þekktust ekki fyrir. „Mér var bent á hana hjá Forlaginu, það vildi svo til að Sigþrúður Gunnarsdóttir ritstjóri bókarinnar hafði séð lokaverkefni hennar og hrifist mjög af. Það varð síðan úr að við hittumst og ég er afsakaplega ánægð með samstarfið og útkomuna.“
Hvati er ekki eina hugarsmíð Evu. Hún er höfundur Engilráðar andarunga og talsunga Sjónarhóls sem er ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra barna með sérþarfir. Eva á líka hugmyndina á bak við Kærleikskúluna sem hefur verið veitt ár hvert síðastliðin 10 ár. Kúlan er veitt verðugum fyrirmyndum úr hópi fatlaðra og rennur ágóðinn af sölu kúlunnar til starfsemi Reykjadals. Það var sundkappinn Jón Margeir Sverrisson sem hlaut kærleikskúlu ársins, en hún kallast Lokkandi og er eftir Hrafnhildi Arnardóttur. Mannúðarmál eru augljóslega ofarlega í huga Evu. „Það er svo lífsfyllandi að leggja af mörkum til einhvers sem þér finnst skipta verulegu máli. Fyrir utan að maður lærir heilmikið af því og fær reynslu sem getur nýst manni annars staðar.“
Eva er hvergi nærri hætt og er nú þegar með tvær aðrar bækur í vinnslu fyrir þennan sama aldursflokk. „Mér finnst ekki koma út nógu margar íslenskar bækur fyrir börn á leikskólaaldri og á kostnaðurinn við útgáfuna örugglega þátt í því. Maður verður víst ekki mjög ríkur af barnabókaútgáfu á Íslandi, nema kannski í hjartanu.“