Nýgiftu pari var stórlega misboðið þegar þau opnuðu gjöf sem vinir þeirra færðu þeim á brúðkaupsdaginn. Brúðhjónin létu ekki á skoðunum sínum standa þegar þau sendu vinum sínum sms-skilaboð.
Í fyrstu skilaboðunum vildu þau vita hvort að kvittunin fyrir gjöfinni væri enn til af því að þau myndu frekar vilja fá peninginn.
Kathy Mason, sú sem gaf gjöfina, vill meina að hún hafi meint vel og segir viðbrögð brúðhjónanna vera dónaleg. Mason og kærasti hennar ákváðu að setja saman körfu fulla af góðgæti til að gefa vinapari sínu í brúðkaupsgjöf. Í körfunni mátti finna, pasta, ólívuolíu, brauðteninga, kex, súrt gúmmí og sykurbúða. Gjöfinni fylgdi svo kort en í því stóð: „Njótið...lífið er gómætt.“ Þrátt fyrir að gjöfinni hafi fylgt falleg hugsun þá voru nýgiftu hjónin ekki allskostar sátt.
Mason, sem var móðguð að fá smsið, vildi vekja athygli á málinu og ákvað að birta samtalið, sem fór fram á Facebook og með sms-skilaboðum, á The Hamilton Spectator. Í samtalinu má lesa hvernig hjónin minna Mason á að það hafi kostað um 25.000 krónur að hafa Mason og kærasta hennar í veislunni.
„Þú borðaðir steik, kjúkling og drakkst vín á þessum fallega stað sem við leigðum. Þú ættir að skammast þín fyrir þessa ódýru og vandræðalegu gjöf,“ sögðu brúðhjónin í einu skilaboðinu.
Málið hefur vakið mikla athygli og hafa margir lesendur The Hamilton Spectator skrifað athugasemd við samtalið.
Einn lesandi segir að peningagjöf hefði verið meira viðeigandi. „Þegar ég veit að par er að eyða um 12.000 krónum í mat fyrir einn gest þá passa ég mig að gefa gjöf sem kostar í það minnsta 30.000 krónur, þannig er ég að borga fyrir matinn fyrir mig og unnustu mína ásamt því að gefa brúðhjónunum gjöf. Ég er að fara að gifta mig í september og ég yrði brjálaður ef að þetta kæmi fyrir mig.“
Þá voru margir á sama máli og Mason og sögðu viðbrögð brúðhjónanna vera dónaleg.
„Við vitum greinilega ekki lengur hver þýðing brúðkaups er. Þetta á að vera athöfn þar sem við fögnum ástinni í faðmi vina og fjölskyldu. Þetta á ekki að snúast um að græða.
Þá taldi annar lesandi að brúðhjón ættu aldrei að halda veislu sem að þau hefðu ekki efni á og ætlast svo til að veislugestirnir borgi.