Ómar Ragnarsson er fluttur í öryggisíbúð á Eirborgum rétt hjá Spönginni eftir að hafa búið á Háaleitisbraut í 13 ár.
Þegar hann var spurður hvort hann væri fluttur á elliheimili sagði hann að það væri alls ekki svo: „Það er fólk á öllum aldri hér í kring. Við vildum bara vera nærri börnunum okkar og fjölskyldum. Það voru heldur engar lyftur á Háaleitisbrautinni,“ sagði Ómar.
Þótt Ómar vilji ekki kannast við að íbúðirnar séu fyrir eldri borgara kemur fram á heimasíðu Eirar að íbúðirnar séu öryggisíbúðir og séu ætlaðar 60 ára og eldri. Við íbúðirnar verður glæsileg þjónustumiðstöð tengd við íbúðirnar en það er þó ekki komið í gagnið, heldur segir á heimasíðu Eirar að það verði í byrjun árs 2014.
Þótt Ómar sé fluttur á Eirborgir er hann alls ekki sestur í helgan stein. Í haust frumsýndi hann þrjár kvikmyndir í Bíó Paradís en það er ekki það eina sem hann er að fást við þessa dagana en eftir helgi mun koma út eftir hann bókin Manga með svartan vanga - sagan öll. Árið 1993 eða fyrir 20 árum skrifaði hann bókina Manga með svartan vanga sem seldist upp á Þorláksmessu og hefur ekki verið fáanleg síðan. Margar nýjar upplýsingar hafa borist honum síðan sú bók kom út svo að hann skrifaði bókina upp á nýtt.
„Það er ýmislegt fleira sem ég gæti sagt þér sem ég er að gera, en ég læt þetta nægja,“ sagði Ómar Ragnarsson kátur í bragði.