ION Luxury Adventure Hotel á Nesjavöllum hefur hlotið tíu verðlaun á síðustu 18 mánuðum. Sigurlaug Sverrisdóttir eigandi og framkvæmdastjóri hótelsins er í skýjunum með þetta.
„Við erum að sjálfsögðu mjög stolt og ánægð með þessa miklu viðurkenningu sem hótelinu hefur verið sýnd,“ segir Sigurlaug en hótelið hefur hlotið 10 alþjóðleg verðlaun síðan það opnaði í byrjun febrúar á síðasta ári. Nýjustu verðlaunin í safninu eru Global Travel Experience Awards sem afhent voru í Shanghæ og LE Miami Awards sem afhent voru í Miami í júní.
„Hótelið hefur fengið góða kynningu og mikla umfjöllun erlendis í blöðum og tímaritum eins og Elle, breska Vogue, Hauser, Wallpaper, Le Point, Indepentent og New York Times. Þessi umfjöllun hefur náð að styrkja uppbyggingu rekstursins og verðlaunin hafa tvímælalaust haft mjög góð áhrif á ímynd og viðskipti,“ segir Sigurlaugsem hefur starfað sem flugfreyja, skipulagt ævintýraferðir í Sviss, sett á laggirnar flugfreyjunám, tekið þátt í þríþraut og gengið yfir Alpana svo eitthvað sé nefnt.
Hún segir að nafn hótelsins sé tengt við hina miklu orku sem er að finna í einstakri náttúru á svæðinu og auðvitað norðurljósunum en ION þýðir vetnisjón á ensku. „Hótelið er byggt á náttúrulegri og umhverfisvænni hönnun en öll húsgögn, efnisval, lín og handklæði er valið með það í huga. Má þar nefna nokkra skemmtilega hluti líkt og ljós úr endurunnum bylgjupappa, handlaugar úr endurunnum dekkjum og stóla úr endurnýttu gervigrasi af gervigrasvell,“ segir Sigurlaug.
Búa til íslenska upplifun
„Það eru fá hótel sem fólk ákveður að heimsækja sérstaklega. Yfirleitt velja flestir sér áfangastað fyrst til að heimsækja og síðan hótel til að gista á. En við höfum fengið gesti sem komu sérstaklega til Íslands til að gista á ION Hotel og það er auðvitað mjög ánægjulegt að heyra,“ segir hún og þakkar það góðri og mikilli umfjöllun um hótelið.
„Hugmyndin hefur frá byrjun verið sú að búa til íslenska upplifun í þessari miklu náttúrufegurð sem hér er. Við reynum að vinna eins mikið og mögulegt er með íslenskt hráefni og hugvit. Húsgögnin eru flest hönnuð af íslensku arkitektastofunni Minarc í LA og smíðuð á Íslandi. Íslenskir myndlistarmenn og ljósmyndarar eiga heiðurinn af myndlistinni sem prýðir veggi hótelsins svo ég nefni nokkur dæmi,“ segir Sigurlaug.
ION Luxury Adventure Hotel er með alls 46 herbergi, veitingastað, Norðurljósabar og þá einnig Spa með 10 metra langri útisetlaug, nuddaðstöðu, gufubaði og hvíldarherbergi. Á hótelinu er einnig veitingastaðurinn Silfra og er matseðillinn byggður á slow food hugmyndafræði. Boðið er uppá mat úr nágrenninu, lamb beint frá býli og fisk úr Þingvallavatni. Lítil gjafavöruverslun er á ION Hótel sem mun býður upp á sérhannaðar íslenskar vörur og hönnun.