Þetta þarftu að vita áður en þú kaupir fasteign

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Þeir sem eru í fasteignahugleiðingum og eru að stíga sín fyrstu skref þurfa að hafa margt í huga áður en þeir fjárfesta í eign.

Þar sem fasteignir eru stöðugt að hækka í verði hefur þróunin orðið sú að erfiðara er fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu eign en óþarfi er að örvænta þar sem ýmsar lausnir eru í boði.

1. Ekki láta myndirnar á fasteignasíðunni af eigninni nægja. Farðu og skoðaðu íbúðina. Margar ljósmyndir sem teknar eru fyrir fasteignasíður eru teknar á víðlinsu en með þess konar linsu virðist rýmið stærra en það er í raun. Einnig er mörgum myndum breytt eða þær lagfærðar svo að þær líti sem best út. Farðu og skoðaðu eignina svo að þú vitir hvað þú ert að kaupa.

2. Kauptu eign sem er of stór. Það hljómar órökrétt að kaupa of stóra eign en þú getur hugsanlega skipt íbúðinni upp í tvennt með framkvæmdum og selt hinn helminginn eða leigt hann út. Eða fengið meðleigjanda í eitt herbergi eða tvö. Hugsanlegt er einnig að þú þurfir einhvern daginn að stækka við þig en þá ertu nú þegar með stóra eign og þarft ekki að leita að nýju heimili. 

3. Kauptu eign sem hefði ekki verið þitt fyrsta val. Ef þú kaupir eign sem er langt frá vinnunni þinni og þarf jafnvel einhverjar endurbætur getur þú gert hana upp og selt hana seinna fyrir hærra verð en þú keyptir hana á. Ef þér tekst ekki að selja íbúðina getur þú leigt hana út þegar þú ert tilbúinn til að flytja í aðra eign.

4. Talaðu við nágrannana. Ekki búast við því að fasteignasalarnir segi þér frá öllum göllum eignarinnar. Hittu nágrannana og talaðu við þá, athugaðu hvort einhver læti séu frá íbúðunum í kring og gott er að spurjast fyrir um hvernig nágrannarnir séu almennt í hverfinu. Ef hús nágrannanna er í slæmu ástandi ætti það að hringja viðvörunarbjöllunum.

5. Fluttu aftur heim til foreldra þinna. Þessa dagana er nær ómögulegt fyrir ungt fólk að kaupa sér eign án fjárhagsaðstoðar foreldra. Á vef Telegraph kemur fram að fólk sé orðið 37 ára þegar það hefur náð að safna nægum pening til að geta keypt sína fyrstu eign án fjárhagsaðstoðar frá foreldrum. Ef það stendur til boða fyrir ungt fólk að búa hjá foreldrum sínum þá er mælt með því. Ef þú býrð heima hjá foreldrum er líka í lagi að borga eitthvað heim, eins og mat eða annan kostnað, svo að þú sért ekki alfarið að lifa á foreldrum þínum.

6. Haltu ró þinni. Ef þú ert búin/n að finna draumaheimili þitt mundu að halda ró þinni. Ekki bjóða í eignina strax. Ef þú skoðar í lok dags, bjóddu þá í hana næsta morgun eða ef þú skoðar á morgnana geturðu boðið þegar fasteignastofan fer að loka. Þú mátt búast við því að fyrsta tilboði þínu verði hafnað. Ef tilboðinu verður hafnað segðu fasteignasalanum að þú ætlir að athuga fjárhag þinn og hafa svo aftur samband. Láttu fasteignasalann bíða eftir svari þínu en ekki láta hann bíða of lengi.

7. Ekki eyða of miklu í skreytingar á heimilið. Ef þú hefur tekið lán fyrir eign og þarft að borga upp lánið er ekki ráðlegt að missa sig í innkaupum á húsgögnum og dýrum skrautmunum inn á heimilið. Bíddu með það og safnaðu fyrir hlutunum sem þig langar í. Notaðu ímyndunaraflið til að föndra eitthvað fallegt og notaðu jafnvel gamalt timbur til að búa til grindverk, bekk eða annað í garðinn. Það þarf ekki að kaupa allt glænýtt heldur er hægt að nýta það sem til er.

8. Hafðu alla útreikninga á hreinu. Reiknaðu lánagreiðslurnar, vaxtagreiðslurnar, fasteignakostnaðinn, hitareikninginn, rafmagnsreikninginn og allan kostnað og haltu bókhald yfir allt sem þú kaupir inn á heimilið. Ef þú kaupir eign þarftu ekki bara að hugsa út í lánagreiðslurnar heldur einnig allan aukakostnað eins og fasteignagjöld, tryggingagjöld og fleira sem við kemur nýju eigninni.

9. Ekki hlusta á neikvæðar athugasemdir annarra. Ef þér líkar einhvern ákveðin staðsetning eða vilt búa í einhverju ákveðnu nágrenni, ekki hlusta á það sem aðrir segja heldur farðu eftir eigin sannfæringu. Þú verður að hafa sjálfstraust í því sem þú ert að gera og gera þitt heimili að þínum samastað.

10. Ekki kaupa í dýrustu hverfunum. Hverfin verða dýrari því meira miðsvæðis sem þau eru. Ef þú ert að leita að eign í stórborg er best að kaupa eign í úthverfum borgarinnar vegna þess að þar eru eignirnar töluvert ódýrari. Þetta er vegna þess hversu mikil eftirsókn er eftir því að búa miðsvæðis.

Heimild: The Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda