Arkitektinn Ástríður Magnúsdóttir, sem starfar hjá Glámu•Kím, hefur sett íbúð sína á sölu en hún stendur á besta stað í miðbæ Reykjavíkur. Íbúðin er 77,7 fm að stærð og er í húsi sem byggt var 1957. Húsið var teiknað af Gunnlaugi Pálssyni arkitekt.
„Sólvallagatan verður kvödd með trega, mér og manninum mínum hefur liðið mjög vel þar. Hröð atburðarás fór í gang í síðustu viku en það getur gerst þegar maður er húkt á að skoða fasteignaauglýsingarnar. Erum búin að vera að nostra við íbúðina síðan við keyptum hana og erum eiginlega nýfarin að getað slappað af með góðri samvisku um helgar, þ.e. verkefnalistinn var að klárast. Höfum pússað upp allt eldhúsið og lakkað, auk annarra innréttinga í íbúðinni sem allar eru upprunalegar. Baðherbergið var gert upp á síðasta ári og sett var nýtt þak á húsið 2013,“ segir Ástríður.
Tvær samliggjandi stofur eru í íbúðinni en auðvelt væri að loka á milli stofanna og nýta aðra sem svefnherbergi en dyr eru inn í hvora stofuna fyrir sig.
Eldhúsið er upprunalegt, hefur nýlega allt verið pússað upp og lakkað. Tekkveggur er í eldhúsinu, einnig nýlega pússaður upp og olíuborinn. Uppþvottavél hefur verið komið fyrir í upprunalegu innréttingunni og í eldhúsinu er borðkrókur sem rúmar fjóra.
Eitt af mörgum gæðarýmum íbúðarinnar eru suðursvalir sem eru innfelldar og því mjög skjólsælar, með útsýni yfir sólríkan og gróinn garð. Gengið er út á svalir frá stærri stofunni. Húsið er eining í svokölluðu randskipulagi þar sem garðar húsa frá fjórum götum mætast í lokuðu og bílfríu garðrými.
„Við vorum ekkert í flutningahugleiðingum, þannig séð. Ég hef lagt það í vana minn að fara einn hring á kvöldin í „nýtt í dag í 101, 105 og 107“. Svo gerðist það fyrir helgi að ég sé þessa frábæru hæð sem ég sé fyrir mér sem framtíðareign fyrir mig og manninn minn. Ég fæ að skoða og geri tilboð sem var tekið og nú er fallega íbúðin okkar komin á sölu. Á meðan á öllu þessu stóð var maðurinn minn uppi á jökli með franska ferðamenn og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið.“
Ástríður segir að atburðarásin hafi verið hröð.
„Þetta er nú eiginlega aðeins hraðari atburðarás en ég ræð við, svona taugalega séð. En það eru spennandi tímar framundan og vonandi síðasta skiptið sem við flytjum, en á næsta stað ætlum við að búa til æviloka. Og þá er ég hætt að skoða fasteignauglýsingarnar!“
HÉR er hægt að skoða íbúðina nánar.